Monday, 7 January 2008

Marineraðar andabringur með rótargrænmeti og appelsínusósu

Ég er aðeins eftir á með færslurnar. Eitthvað slen í manni eftir hátíðarnar. Þetta er allt að færast til betri vegar. Var á vakt í nótt og það var fremur rólegt. Svo virðist sem hátíðirnar hafi kannski náð að hvíla fólk eitthvað þrátt fyrir allt stressið sem fjölmiðlar greina frá svo iðulega. Vonum allavega að svo sé.

Á nýársdag fengum við hjónin góða gesti í mat, Óla og Elvu og litlu dóttur þeirra hana Freyju. Það er allt of langt síðan að við settum saman niður seinast og nutum matar og drykkjar - og þetta varð hin ljúfasta kvöldstund. Við buðum einnig nafna mínum og konu hans Sigrúnu Ásu sem eru námsmenn í Danmörku að koma og vera með okkur en þau forfölluðust því miður vegna veikinda. Við hin fengum þá bara að borða meira.

Í haust veiddi ég aðeins af stokkönd. Virkilega fallegur fugl og bragðgóður. Eiginlega mín uppáhaldsvillibráð. Því miður tók ég öndina ekki tímanlega úr frystinum þannig að ég varð að kaupa innfluttar bringur. Ég fór í verslun upp á Höfða og mér til mikillar undrunnar var afbragðs úrval af villibráð - gæsir, endur, fasanar, krónhjörtur og fleira. Alveg til fyrirmyndar...og ekki nóg með það þá var þetta bara á viðráðanlegu verði. Hver hefði trúað að svoleiðis myndi gerast á Íslandi.

andarbringur Marineraðar andabringur með rótargrænmeti og appelsínusósu

Þetta hljómar eins og flókin matseld, en svo var ekki. Og þó - ég átti inn í frysti 1 L af kjúklingasoði sem ég hafði gert einhvern tíma í haust þegar ég var í stuði. Það er einfalt - smávegis fyrirhöfn - en svo sannarlega þess virði. Heimagert soð er hundraðfalt betra heldur en soð úr tengingum - þó að þeir séu alveg ágætir. Það verður samt alltaf smá málmbragð - svona tangy - af tengingasoði. En af heimagerðu soði verður bara mikið og kröftugt bragð. Kjúklingasoð - 1 stór kjúklingur, tvær saxaðar gulrætur, sellerísstangir, 1 heill laukur og 4 L af vatni. Fyrst er grænmetið steikt í olíu og svo kjúklingurinn (eða bara bein af kjúlla frá því kvöldið áður) er bætt saman við og steikt í smá stund. Þá er vatninu hellt saman við og saltað og piprað vel. Stundum er lárviðarlauf sett saman við og soðið með. Soðið í nokkra klukkutíma með lokið á. Ágætt er að skafa fituna sem verður til við suðuna af og henda frá. Soðið má svo nota í hvað sem er - sósur, súpur, risotto - jú neim it!.

Einn líter af bragðgóðu heimagerðu kjúklingasoði er hitað í potti. Þykkt með hefðbundinni smjörbollu (30 gr af smjöri er brætt í potti með hveiti og svo er soðinu bætt saman hægt og bítandi og hrært í á meðan). Sósan var svo bragðbætt með 100 ml af rjóma, saltað og piprað. Skvetta af góðu rauðvíni var bætt útí og svo safi af stórri appelsínu. Soðið aðeins niður og smakkað til. Vökvinn sem varð til við eldun andabringanna var svo bætt útí rétt áður en maturinn var borin fram.

Fimm andabringur voru þvegnar og þurrkaðar og lagðar í marineringu. 30 ml af góðri jómfrúarolíu var blandað saman við safa úr 4 klementínum (hefði notað appelsínusafa en átti hana bara ekki til þegar ég var að búa til marineringuna). Ávaxtasafinn og olían var svo hrist vel saman. Marineringunni var svo hellt í stóran flatan disk og bringurnar lagðar ofan á - kjötið snéri ofan í marineringuna - lítið flaut ofan á fituna. 20 gr af smjöri og smá skvetta af jómfrúarolíu var hitað á stórri pönnu og andabringunar steiktar fyrst fitan niður (til að ná bragðinu úr fitunni) og eftir rúma mínútu var bringunum snúið og kjötið steikt í skamma stund. Fitan á öndinni er þarna steikt og er gullinn og falleg. Bringunum er því næst færðar í eldfast mót og settar í 140 gráðu heitan ofn og látnar vera það í 15 mínútur til að jafna sig. Í lokin látnar hvíla á bretti í nokkrar mínútur áður en þær eru skornar.

rótargrænmeti Með matnum bar ég fram rótargrænmeti - þetta er ekkert ósvipað því sem ég var með í villibráðarblaði gestgjafans (og í bestu uppskriftum ársins 2007 - iii, góður með sig!). Skar niður næpur, romenesco blómkál, sætar kartöflur og venjulegar kartöflur. Velti þessu upp úr smávegis jómfrúarolíu, salti, pipar og dreifði svo smátt söxuðum hvítlauk með. Bakað í ofni í 45-60 mínútur við 180 gráðu hita eða þar til orðið gullinbrúnt og fallegt.

Að sjálfsögðu drukkum við gott rauðvín með þessum mat. Fyrst var drukkið spánskt rauðvín frá Castillo Perelada -  Finca Valapena frá 2002 - ljúffent - djúpt og gott vín (alltof dýrt samt). Svo var einnig opnuð flaska af Masi Campofiorin frá 2004 - líka gott vín.


No comments:

Post a Comment