Monday, 17 September 2007

Ofnbakaður villtur lax með heitri sýrðrjómasósu og klassísku salati

Kom heim frá Portúgal í nótt eftir 8 daga dvöl. Eins og kom fram á í fyrri færslu þá var um ráðstefnu í Lisbon um að ræða og stóð algerlega undir væntingum og gott betur. Bæði var þetta ákaflega fræðandi námstefna með afbragðsgóðum fyrirlesurum og eins var frábært að kynnast kollegum frá öðrum löndum sem standa í svipuðum sporum og maður sjálfur en bara í annarri mold. Merkilegast þótti mér að sjá hvað við Evrópubúar eigum margt sameiginlegt þrátt fyrir að menningarlegur bakgrunnur okkar sé oft ólíkur. Ég eignaðist þarna vini sem ég á seint eftir að gleyma og vona að ég eigi eftir að halda tengslum við þetta góða fólk.

Veðráttan í Portugal var frábær, 25-30 stiga hiti og sól nær alla dagana. Ráðstefnan var haldinn í prestaskóla fyrir kaþólska presta og sá bakgrunnur gerði tímann þarna að sérstakri upplifun. Maturinn í skólanum var ekki upp á marga fiska en sjávarfangið á veitingarhúsunum gat verið alveg frábært og hvítvínið sem drukkið var með var ekki síðra.

Á föstudaginn fór eiginkona mín, Snædís, í laxveiðitúr í Álftá og veiddi þennan glæsilega 5 punda lax. Það var því augljóst að hann yrði eldaður við fyrsta tækifæri. Með matnum var heit sýrðrjómasósa sem var með einfaldasta móti. Kollegi minn, hún Magga Dís, gaf mér hugmyndina að því að byggja sósuna alfarið á sýrðum rjóma - ef ég man rétt notaði hún púrrlauksduft í sósuna sína og sagði að hún passaði með öllum fisk. Það var ekkert annað í stöðunni en að reyna.

laxinn Ofnbakaður villtur lax með heitri sýrðrjómasósu og klassísku salati

Eldunin á laxinum gat ekki verið einfaldari, þó svo að beinhreinsa og flaka lax sé langt frá því að vera einfalt! Hvað um það þá hreinsaði ég fiskinn og lagði svo heil flök á alpappír á ofnplötu. Fyrst var laxinn penslaður með smá olíu og svo var nokkrum smjörklípum dreift yfir. Salat og piprað og svo var safi úr heilli sítrónu dreift yfir. Látið standa á meðan ofninn hitnaði og svo var hann bakaður við 180 gráðu hita í 12 mínútur. Þegar sítrónusafi er notaður fyrir eldun verður fiskurinn aðeins öðruvísi bleikur en maður á að venjast - það hefur að gera að sítrónusýran byrjar að elda fiskinn áður en að hitinn gerir það - bragðið verður samt afar gott.

  sýrðrjómasósa Eins og áður sagði var sósan afar einföld. 2 msk af olíu hitaðar á pönnu, og svo hálfur smátt skorinn garlic noble steiktur í olíunni. Þegar hann var farinn að gljáa var safa úr rúmlega hálfri sítrónu bætt saman við og soðið aðeins niður. Þá var heilli dós af sýrðum rjóma hellt út í og suðið upp. Bragðbætt með einni matskeið af sírópi og svo saltað og piprað. Þegar sósan var að verða tilbúinn var 1 msk af smátt skorinni steinselju bætt saman við.

Með matnum var klassískt salat: blönduð græn lauf, plómutómatar, rauðlaukur, olívur og smá mulinn fetaostur. Með matnum var svo einnig soðin hvít hrísgrjón og smá vegis brauð fyrir þá sem vildu. Heppnaðist afar vel. Einfalt og gott.

 


No comments:

Post a Comment