Wednesday, 22 August 2007

Sveitalegur kvöldverður á haustlegum degi, nýjar kartöflur, bakaður camenbert, rjómalöguð tómatsúpa og gróft salat.

Það eru augljós merki í loftinu að það er farið að hausta. Það er farið að kólna aðeins og maður tekur eftir því að er eitthvað farið að hvessa. Eilífar auglýsingar verslanna um að maður eigi að undirbúa sig fyrir skólann og veturinn eru líka ákaflega áberandi teikn. Eftir ég ég byrjaði að stunda skotveiði gat maður farið að hlakka til haustsins og vetrarins. Haustin eru líka svo fallegur tími.

Ég er að fara að kíkja út á akur á morgun. Rétt svona til að sjá hvernig landið liggur. Sólarupprás er klukkan hálf sex þannig að maður þarf aldeilis að vera snemma á ferðinni. Þannig að ég þarf eiginlega að fara að drífa sig í bælið. Það er allt tilbúið, kaffikannan reddí, smurt brauð í boxi, suðusúkkulaðiplata, kókómjólk og gallinn hrein og nærri því pressaður.

Ég vaknaði í einhverjum haustfílíng í morgun, var eitthvað annað hægt?; rok, rigning og þungskýjað. Ég hef aftur verið að glugga í bók Nigel Slater, The Kitchen daires (sem er eiginlega bókin sem veitti mér innblástur til að gera þessa síðu). Hann er alltaf að minna mann á að nota hráefni sem tilheyra hverri árstíð og hvað annað passar betur núna en nýjar kartöflur. Öll máltíðin var svo spunninn upp til að gera eitthvað heildstætt í kringum soðnar nýjar kartöflur.

Sveitalegur kvöldverður á haustlegum degi, nýjar kartöflur, bakaður camenbert, rjómalöguð tómatsúpa og gróft salat

Fór að versla og valdi fallegar nýjar kartöflur. Notaði rauðauga í þetta sinn. Þær voru soðnar á hefðbundinn hátt í söltuðu vatni þar til auðvelt er að renna hníf í gegnum þær. Á meðan þær suðu tók ég camenbert ost, gataði hann með gafli að ofan, skrapaði með hvítlauk og setti smá skvettu af hvítvíni ofan á. Hann var svo lokaður í álpappír og bakaður við 180 gráður á meðan kartöflurnar suðu.

Með þessu var ég með rjómalagaða tómatsúpu - hef áður gert tómatsúpu á blogginu en þessi var ennþá einfaldari. 700 ml af vatni voru hitaðir að suðu og viðeigandi magni af grænmetistengingum var leyst upp í vatninu. Svo var tveimur dósum af söxuðum niðursoðnum tómötum bætt saman við og suðunni hleypt upp aftur. Blandað svo vel saman með töfrasprota. Svo var bragðbætt með einni tsk af þurrkuðu oregano, 1/2 tsk af pimento pipar 250 ml af matreiðslurjóma, salti og pipar og leyft að sjóða áfram. Blandað vel saman.

Útbjó einfalt salat - allt hráefni var skorið gróflega niður; klettasalat, plómutómatar, agúrka, grillaðar eggaldin sneiðar, brieostur, þurrristaðar furuhnetur og steinselju. Borið fram með baguette brauði, pedersen salami, skinku og brieosti.

Kartöflunum er svo dýpt ofan í bráðin ostinn - og smjattað - ekkert annað er mögulegt því þetta er algera frábærlega góður réttur.


No comments:

Post a Comment