Thursday, 23 August 2007

Sumarleyfi í Skandinavíu

Matarbloggið mitt fer í stutt sumarleyfi næstu 12 daganna þar sem fjölskyldan er að fara til Skandinavíu að skoða mögulega staði til að stunda framhaldsnám á næsta ári.

Með kveðju,


Wednesday, 22 August 2007

Sveitalegur kvöldverður á haustlegum degi, nýjar kartöflur, bakaður camenbert, rjómalöguð tómatsúpa og gróft salat.

Það eru augljós merki í loftinu að það er farið að hausta. Það er farið að kólna aðeins og maður tekur eftir því að er eitthvað farið að hvessa. Eilífar auglýsingar verslanna um að maður eigi að undirbúa sig fyrir skólann og veturinn eru líka ákaflega áberandi teikn. Eftir ég ég byrjaði að stunda skotveiði gat maður farið að hlakka til haustsins og vetrarins. Haustin eru líka svo fallegur tími.

Ég er að fara að kíkja út á akur á morgun. Rétt svona til að sjá hvernig landið liggur. Sólarupprás er klukkan hálf sex þannig að maður þarf aldeilis að vera snemma á ferðinni. Þannig að ég þarf eiginlega að fara að drífa sig í bælið. Það er allt tilbúið, kaffikannan reddí, smurt brauð í boxi, suðusúkkulaðiplata, kókómjólk og gallinn hrein og nærri því pressaður.

Ég vaknaði í einhverjum haustfílíng í morgun, var eitthvað annað hægt?; rok, rigning og þungskýjað. Ég hef aftur verið að glugga í bók Nigel Slater, The Kitchen daires (sem er eiginlega bókin sem veitti mér innblástur til að gera þessa síðu). Hann er alltaf að minna mann á að nota hráefni sem tilheyra hverri árstíð og hvað annað passar betur núna en nýjar kartöflur. Öll máltíðin var svo spunninn upp til að gera eitthvað heildstætt í kringum soðnar nýjar kartöflur.

Sveitalegur kvöldverður á haustlegum degi, nýjar kartöflur, bakaður camenbert, rjómalöguð tómatsúpa og gróft salat

Fór að versla og valdi fallegar nýjar kartöflur. Notaði rauðauga í þetta sinn. Þær voru soðnar á hefðbundinn hátt í söltuðu vatni þar til auðvelt er að renna hníf í gegnum þær. Á meðan þær suðu tók ég camenbert ost, gataði hann með gafli að ofan, skrapaði með hvítlauk og setti smá skvettu af hvítvíni ofan á. Hann var svo lokaður í álpappír og bakaður við 180 gráður á meðan kartöflurnar suðu.

Með þessu var ég með rjómalagaða tómatsúpu - hef áður gert tómatsúpu á blogginu en þessi var ennþá einfaldari. 700 ml af vatni voru hitaðir að suðu og viðeigandi magni af grænmetistengingum var leyst upp í vatninu. Svo var tveimur dósum af söxuðum niðursoðnum tómötum bætt saman við og suðunni hleypt upp aftur. Blandað svo vel saman með töfrasprota. Svo var bragðbætt með einni tsk af þurrkuðu oregano, 1/2 tsk af pimento pipar 250 ml af matreiðslurjóma, salti og pipar og leyft að sjóða áfram. Blandað vel saman.

Útbjó einfalt salat - allt hráefni var skorið gróflega niður; klettasalat, plómutómatar, agúrka, grillaðar eggaldin sneiðar, brieostur, þurrristaðar furuhnetur og steinselju. Borið fram með baguette brauði, pedersen salami, skinku og brieosti.

Kartöflunum er svo dýpt ofan í bráðin ostinn - og smjattað - ekkert annað er mögulegt því þetta er algera frábærlega góður réttur.


Friday, 17 August 2007

Indverskur masalabræðingur með sinnepsfræjakartöflum og fjölbreyttu naan brauði

Konan mín var að koma frá Bandaríkjunum í dag þar sem hún hafði verið burtu yfir tvær nætur. Mér finnst húsið alltaf vera mjög tómlegt án hennar. Því var lítið eldað á meðan. Það er einhvern veginn ekki eins gaman að elda þegar það er enginn til að njóta afrakstursins með manni. Hún kom heim snemma í morgun og náði aðeins að sofa eftir langa nótt í vinnunni. Ég ákvað því að reyna að gera almennilega við hana í mat...svona einu sinni.

 Litli bróðir minn (til að aðgreina hann frá... - tjaa, engum öðrum þar sem hann er eini bróðir minn) kom og var með mér í eldhúsinu. Hann er mikill listakokkur og er mikill sérfræðingur í indverskri matargerð. Ég fékk hann því lánaðan til að gera masalað. Þetta endaði sem einn allsherjar bræðingur. Ég bjó til nautahakksbollur (sem myndi varla gerast í Indlandi) til að setja í kássuna og bróðir minn bjó til sósuna sem þær svo fengu að malla í. Þetta heppnaðist vel.

Ég ákvað að fara með naanbrauðið í aðeins nýjar víddir. Hef nokkrum sinnum áður bloggað um naanbrauð og þó hafa eiginlega alltaf verið með einfaldasta móti. Núna var spýtt í lófana og reynt að gera eitthvað sniðugt. Þegar maður fer út af borða á indverska veitingastaði er oftast hægt að panta fjölbreytilegt úrval af naanbrauði. Það besta sem ég hef smakkað var á Austur Indía félaginu á Hverfisgötunni - frábær veitingastaður, en þar fékk ég bæði kirjuberjanaan og svo einnig möndlunaan - yfirgengilega gott. Hef oft reynt að herma eftir þessu en ekki haft erindi sem erfiði. En núna virðist ég hafa ratað á ansi góða uppskrift.

Indverskur masalabræðingur með sinnepsfræjakartöflum og fjölbreyttu naan brauði

Sósan var útbúinn þannig að fyrst var steiktur 1 stór smátt skorinn hvítur laukur og einn smátt skorinn rauðlaukur í um 10 mínútur við meðalhita. Svo voru fimm þunnsneidd hvítlauksrif steikt með í nokkrar mínútur. Því næst var fjórum niðurskornum tómötum, ásamt nokkrum kryddum; 1 msk muldum kardimommum, 1 msk muldum kóríanderfræjum, 1 tsk garam masala, 1 tsk túrmerik, 1 tsk paprika og svo salt og pipar. Á þessu stigi hefði verið í lagi að setja 1 niðurskorinn chilli - en það voru börn í mat svo að við slepptum því,  bætt saman við og steikt í 10 mínútur. Svo er bolla af vatni, 1 dós af kókósmjólk bætt útí og soðið upp. Maísmjöl er svo sáldrað yfir til að fá viðunandi þykkt á sósuna. Á þessum tímapunkti setti ég kjötbollurnar - sjá næstu málsgrein. Oft þarf að djassa sósuna í lokin til að fá rétta bragðið; 1 hrein jógúrtdós var bætt saman við ásamt 2 tsk af garam masala. Saltað aðeins og piprað og soðið aðeins áfram.

Útí sósuna voru svo settur kjötbollur - reyndar úr nautahakki sem er eins óindverskt og hugsast getur. En hvað um það - við erum á Fróni, frystirinn fullur af hakki og þá fá prinsippinn að fjúka - sérstaklega þegar þau eru bragðgóð. 500 gr af nautahakki sett í skál ásamt, 1/2 búnti af saxaðri steinselju, 1 egg, 1 tsk garam masala, 1 tsk papríku duft, 1 tsk kóríanderduft, 1 lítill rauður laukur, einn smátt skorinn garlic noble og svo 2 msk af möndlflögum. Þetta var allt blandað saman og látið standa á meðan sósan var undirbúinn. Hakkið var svo hnoðað í golfboltastórar bollur og svo  steiktar og þegar farnar að brúnast að utan var þeim bætt útí sósuna og fengu að klára sína eldun þar.

Kartöflurnar voru afar einfaldar. Ég hafði keypt nýjar íslenskar kartöflur sem ég flysjaði og skar niður í 4-6 bita og sauð í söltuðu vatni. Þegar þær voru tilbúnar var vatninu hellt frá og smá smjör sett í pott ásamt smá jómfrúarolíu. Ein teskeið af túrmerik er svo sett útí og "brennt" í fitunni og svo er 2 msk af sinnepfræjum bætt útí og látið poppast. Þegar fræin poppast er kartöflunum svo bætt útí og velt uppúr krydd blöndunni.

Með matnum var ég svo með heimagert naanbrauð. Eins og ég nefndi áður þá hef ég áður birt uppskrift af nanbrauði og "copy-paste"yfir í þessa færslu. 500-600 ml af hveiti er sett í skál, smávegis af fínu salti og svo 2 msk af olíu. 3 tsk sykri er leyst upp í volgri mjólk og svo er gerið sett saman við og vakið í mjólkinni. Mjólkurgerblöndunni er svo blandað saman við hveitið og hrært saman. Um 200 ml af Ab mjólk (eða jógúrt, eða fiftyfifty mjólk og Ab mjólk) hrært saman við og smávegis mjólk. Deigið er hnoðað þar til það verður mjúkt og meðfærilegt og hætt að klístrast við hendurnar á manni. Látið hefast í 30 mínútur (lengur ef það er hægt). Smábitar eru svo klipnir af deiginu og flattir út með fingrunum.

Hérna kemur svo breytingin - ég tók einn meðalstóran rauðlauk, saxaði niður fremur gróft og steikti í olíu á pönnu þar til hann varð mjúkur - þá hellti ég 2 msk af góðu sírópi yfir og leyfði að malla um stund. Þetta var svo fært af pönnunni og leyft að kólna. Tók nokkra brauðhleifa sem höfðu verið flattir vel út og smurði lauknum yfir, braut svo saman og flatti út aftur þannig að laukurinn var innan í brauðinu. Því næst tók ég nokkra aðra brauðhleifa og gerði eins nema hvað ég setti kókósskafninga (litlar ræmur) og lokaði innan í brauðinu. Brauðhleifarnir voru svo penslaðir með smávegisolíu og saltaðar með Maldon salti og svo grillaðar úti á grilli.

Borið fram með Basmati hrísgrjónum og Mangó Chutney.

Bon appetit.


Monday, 13 August 2007

Grillað lambaribeye með brie kartöflugratíni og nýrri sveppasósu

Ég átti alveg frábæran dag í dag. Í gærkvöldi fórum við hjónin í matarboð til vinafólks, Barkar og Hjördísar. Börkur hefur verið einn af mínum bestu vinum síðan úr menntaskóla en við kynntust þegar við unnum saman við gerð skólablaðs Menntaskólans við Hamrahlíð, Beneventum. Þau buðu okkur heim til sín á Þórsgötuna og elduðu fyrir okkur ítalska kjötsósu, uppskrift sem Börkur lærði hjá mér, en hefur svo sannarlega betrum bætt. Hann ætlar einhvern tíma að senda mér sína útgáfu.

Þrátt fyrir að við hjónin vorum frameftir kvöldi að sötra rauðvín vaknaði ég í rosastuði í morgun. Fór snemma með krökkunum og leit með þeim á morgunsjónvarpið. Hver verður ekki hress þegar Pósturinn Páll syngur fyrir mann í annað eyrað. Börkur og Hjördís komu svo til okkar í brunch um hádegisbilið og við fengum okkur egg, beikon, pylsur, tómatsafa, appelsínusafa og amerískar pönnukökur...dásamlegt. Seinnipartinn fór ég svo í hjólatúr með guttanum mínum. Svo þegar heim var komið, á meðan hann fékk sér lúr, náði ég aðeins að lesa. Þegar halla fór að kvöldi eldaði ég fyrir fjölskylduna.

Í kvöld gerði ég kartöflugratín sem heppnaðist afar vel. Ég hef áður sett gratín uppskrift á bloggið - en þá gerði ég mjög svipaða uppskrift nema þá notaði ég camenbert ost. Hann bráðnaði eiginlega alveg og varð að vökva en brie osturinn er öðruvísi - hann verður mjúkur og teygjukenndur - alveg frábær. Ég hef áður gert svona briegratín nema þá var það matreitt á grilli - kartöflurnar fyrst grillaðar og svo raðaðar á álpappír með ostinum og álpappírnum svo lokað og bakað á grilli í 20 mínútur.

Þegar skrifað er um nýja sveppasósu - er raun lítið nýtt á ferðinni nema hvað ég notaði creme de funghi porcini e noci - sem er puré af ítölskum sveppum og valhnetum, mjög ljúffengt. Ég keypti lambaribeye í Nóatúni - ætlaði að kaupa lambafille sem hafði verið auglýst í blaðinu í dag með einhverjum afslætti - en þegar ég kom á staðinn hafði allt selst upp daginn áður - en samt auglýst í dag. Ömurleg afgreiðsla...og ekkert gert til að bæta fyrir!

Grillað lambaribeye með brie kartöflugratíni og nýrri sveppasósu.

Kannski var gott að lambafilleið hafi selst upp því að í staðinn keypti ég lambaribeye sem er aðeins feitari biti og þegar kemur að því að grilla gerir meiri fita í kjötinu gæfumuninn. Ég lagðikjötið í marineringu af hvítlauksolíu og rósmarín. Þetta var látið standa í um þrjá klukkutíma. Grillað á heitu grilli þar til kjarnhiti er orðin um 60-62 gráður.

Sósuna gerði ég á eftirfarandi máta. Tvær sellerístangir, 1 hvítur laukur, 1 gulrót og 1 noble hvítlaukur var saxaður niður mjög smátt. Steikt í potti með 2 msk af jómfrúarolíu. Þegar grænmetið var búið að svitna um stund var 1 L af vatni bætt saman við og tveimur lambateningum og soðið svo soðið upp í um 40 mínútur með lokið á. Þegar þetta var búið að sjóða var grænmetið í soðinu maukað með töfrasprota. Í öðrum potti var 1 msk af olíu hituð og 140 gr af niðurskornum sveppum steikt þar til þeir fóru aðeins að brúnast. Svo var 2 tsk af creme de funghi porcini e noci bætt saman við og steikt áfram. Svo var um helmingum af grænmetissoðinu bætt saman við og soðið um stund. 100 ml af matreiðslurjóma var svo bætt saman við og saltað og piprað eftir smekk. Soðin niður í um 20 mínútur til að þykkja sósuna aðeins.

Kartöflugratínið var útbúið þannig að 700 gr af nýjum gullauga kartöflum voru flysjaðar og skornar óreglulega niður. Eldfast mót var penslað með olíu og kartöflum dreift í mótið ásamt einum niðurskornum rauðlauk, noble hvítlauks og hálfum niðursneiddum brie osti. Svo var nokkrum smjörklípum dreift yfir (í heild um 30 gr) og svo í lokin var smávegis af rifnum osti sáldrað yfir. Bakað í fimm korter.

Með matnum var borið fram salat; klettasalat, tómatar, smáttskorinn rauðlaukur, rauð vínber og fersk mynta. Smávegis af olíu, ferskum sítrónusafa dreift yfir. Með matnum var svo drukkið ágætis rauðvín, Tommasi Ripasso Valpolciella frá 2004, afar bragðgott vín.

Bon appetit.

IMG_0636


Saturday, 11 August 2007

Stórkostlegur bakaður sjávarréttapastaréttur - Gestakokkur á blogginumínu


Ég hef oft áður greint frá því hverslags gæðakokkar foreldrar mínir eru. Ég held að ég hafi sagt nokkrum sinnum frá því að þau eru fyrirmyndir mínar í matargerð - algerir matgæðingar. Þessi uppskrift sem á eftir kemur skýrir í raun hvers vegna svo er. Móðir mín bauð í mat á miðvikudagskvöldið síðastliðið og eldaði alveg ljúffengt sjávarréttapasta. Það var eiginlega alveg frábært. Svo gott að ég skoraði á hana að skrifa uppskriftina upp og leyfa mér að setja hana á bloggið. Hún var svo sannarlega til. Mamma hefur áður verið gestakokkur á síðunni en þá sagði hún netverjum frá óborganlegum kjúklingarétt með sérstakri sósu - hana er að finna á netinu.

Þessi réttur er fengin úr ansi góðri matreiðsubók sem heitir The complete Italian cooking encyclopedia. Þetta er bók sem mér þykir alltaf mjög vænt um. Það er auðvelt að elda úr henni og það er gaman að skoða hana. Hvert skref matreiðslunnar er sýnt þannig að það er auðvelt að ná góðum árangri. Þetta var ein af fyrstu matreiðslubókum sem ég eignaðist. Vinir okkar hjóna, Rakel og Magnús (alltaf kallaður Zúnki), gáfu okkur þessa bók fyrir að vera níu árum síðan. Rakel og Zúnki eru mikið ævintýrafólk, um tíma áttu þau heima á Norður Ítalíu, rétt fyrir utan lítin bæ Nizza Monferato, rétt hjá Asti, sem er í Piemonte héraði. Þetta er mikið vínræktarhérað og var sérstaklega gaman að heimsækja þau, en við fórum til þeirra tvisvar sinnum. Þau eru núna flutt heim og Zúnki starfar sem einn af aðal vínráðgjöfunum í ÁTVR - hef aldrei fengið annað en góð vín hjá honum.

Ég hef einu sinni gert tilraun til að elda þennan rétt. Það er ansi langt síðan og það verður að segjast að hann heppnaðist talsvert betur hjá móður minni. Ég var með of mikið af heimagerðri tómatsósu og eiginlega of lítið af sjávarfangi á móti. Mömmu tókst að finna heppilega millileið í þessum málum og úr varð alveg meiriháttar matur. Eina sem ég saknaði úr hennar rétt var að hún sleppti því að nota krækling í skel eins og hefðin er, en hún var með nóg af öðru í staðinn. Eina sem kræklingurinn hefði bætt við væri að skapa fallegar litaandstæður í réttinum. En henni finnst kræklingar ekki bragðgóðir og því setti hún önnur hráefni í staðinn - ekkert að því. Hvet fólk eindregið til að reyna þennan rétt.

Núna tekur svo mamma við - mamma, take it away;

Bakað sjávarréttapasta í pökkum með óvenjulegu salati Sjávarréttapastapakkar
Ég fann eftirfarandi uppskrift í biblíu þeirra sem elska ítalska matargerð (The Italian Cooking Encyclopedia, 1997, bls.232 og 438). Ég fór náttúrlega ekki alveg eftir uppskriftinni, bæði vegna þess að ég geri það yfirhöfuð ekki og hins vegar vegna þess að mig langaði ekki í allt sem þar átti að vera. Hér er þá uppskriftin nokkurn veginn eins og hún varð í minni útgáfu.

Fyrst bjó ég til þessa tómatsósu:

Einn meðalstór laukur smátt niðurskorinn

2-4 hvítlauksrif, gróflega söxuð

Þetta látið steikjast í ólífuolíu í 5-6 mín, má taka smá lit (gefur auka bragð).

Ein dós af maukuðum niðursoðnum tómötum og nokkrum gróft söxuðum basilblöðum blandað saman við, kryddað með nýmöluðum svörtum pipar og góðu salti.

Sósan látin malla í 20 – 30 mínútur, síðan sett í blandara og maukuð.

Meðan sósan mallaði tók ég sjávarréttina til.

Ég ákvað að nota rækjur, risahörpuskel og svo kallaðan súpuhumar, en þetta átti ég allt til í frystinum. Rétturinn átti að vera fyrir fjóra þannig að ætli ég hafi ekki notað

ca 300 gr. rækjur

8 stk. risahörpuskeljar

ca 12 humarhala

Auðvitað má hafa meira eða minna af þessu hráefni.

Ég snöggsteikti þrjú pressuð hvítlauksrif í heitri olíu, henti hörpuskeljunum út á pönnuna, steikti í ca 2 mín og tók þær frá. Steikti svo hreinsaða humarhalana á sömu pönnu, einnig í ca 2 mín og tók þá frá. Þá hitaði ég olíuna betur, steikti humarskeljarnar í vel heitri olíunni, kryddaði með nýmöluðum svörtum pipar, góðu salti, klippti um fjórar greinar af steinselju yfir - og bætti svo ca 2 dl af vatni út í. Lét þetta sjóða aðeins niður. Úr þessu varð til úrvalssoð.

Á meðan soðið mallaði sauð ég spaghetti fyrir fjóra þar til al dente.

Nú var tómatsósan tilbúin og blandaði ég fyrrnefndu soði vandlega saman við hana. Rækjurnar voru settar út í tómatsósuna, ásamt risahörpuskeljunum og humrinum og blandað varlega saman. Saltað og piprað eftir smekk. Hæfilegt magn af spaghettíi var svo látið saman við allt þetta, - maður þarf eiginlega að leyfa auganu að ráða magninu!

Þá er komið að því að búa til pakkana. Smjörpappír er settur í fjórar skálar (þetta er gert til að varðveita vökvann í réttinum á meðan pakkinn er útbúinn), ein örk í hverja, og réttinum skipt í fjóra jafna hluta. Pakkanum er lokað með því að rúlla jöðrunum upp, og snúið upp á endana sitt hvoru megin. Pakkarnir teknir úr skálunum, settir í eldfast fat og bakað við 175 gráður í ofni í 8 – 10 mín. Reyndar urðu til fimm skammtar hjá mér sem kom sér vel fyrir þá sem vildu ábót. JEinn óopnaður pakki er svo settur á hvern disk. Gott er að rífa parmesan-ost yfir heitan réttinn.

Óvenjulega salatið

12 hvítlausrif (ekki flysjuð) eru böðuð ólívuolíu og bökuð í 190 gráðu heitum ofni í ca 15 mín eða þar til þau eru farin að dökkna á brúnunum.

Volg hvítlauksrifin eru sett í skál, ásamt um 400 gr af hreinsuðu spínati og um 50 gr af ristuðum furuhnetum. Blanda saman. Kreista hálfa sítrónu yfir, ásamt skvettu af ólífuolíu og salta. Mala svartan pipar yfir og blanda vel saman. Um að gera að leyfa matargestum sjálfum að kreista mjúkan hvítlaukinn yfir salatið. (Næst ætla ég að bæta tómötum í salatið, þá verður það fallegra J).

Með þessu var einnig borið fram hvítlauksbrauð sem er útbúið þannig að heitar, ristaðar brauðsneiðar eru raspaðar snögglega með hvítlauksrifi, smurðar strax með smjöri og skornar á ská. (Einnig má nota ólífuolíu, en mér finnst betra að nota smjör).

Verði ykkur að góðu!



Monday, 6 August 2007

Heitir réttir, súpa og heit brauð á afmæli sonarins

ég og villi Sonur minn, Vilhjálmur Bjarki, varð tveggja ára í dag (þann 4. ágúst). Í fyrra stóð þannig á að við héldum ekki afmælisveislu þannig að í ár var í fyrsta afmælisveislan. Hann vissi vart hvaðan á sig stóð veðrið. Hann var afar undrandi á öllum kossunum, söngnum en virtist þó njóta athyglinnar sem hann fékk. Eitthvað líkur föður sínum hvað það snertir.

Við buðum allri stórfjölskyldunni, sem við höfum oft gert áður, nema hvað núna mættu allir. Yfirleitt eru svona 30-40% afföll vegna hins og þessa en nú virtist hver einasta hræða vera í bænum og ekki nóg með það búinn að geta börn. Það var varla þverfótandi fyrir litlum krílum. Þetta var alveg frábært. Sem betur fer er ég stórtækur í eldhúsinu og það breytti litlu þótt allir kæmu, allir fengu að borða og ég held bara að allir hafi gengið út með mettan maga.

Eins og ég sagði þá höfum við hjónin oft haldið fjölskylduboð og það er alltaf gaman að hitta allt slegtið. Ég er meira segja kominn með svona fasta liði eins og venjulega þegar að svona stórum veislum kemur. Nokkrar vel valdar kökur, súkkulaðiköku drengur að hætti móður minnar, saltmöndlukaka sem á rætur að rekja í fjölskyldu Snædísar. Ég geri svo yfirleitt alltaf heita rétti sem hafa verið í miklu uppáhaldi. Svo hef ég gjarna verið með heimabökuð brauð, álegg og osta og núna brá ég á það ráð að vera með súpu...og þó ég segi sjálfur frá þá heppnaðist veislan bara ansi vel.

Heitir réttir, súpa og heit brauð á afmæli sonarins.

heitir réttir Í þetta sinn gerði ég fjóra heita rétti, nokkuð líkir hver öðrum en aðeins blæbrigðamunur á milli. Eldfast mót er smurt með heimagerðri hvítlauksolíu, svo eru brauðsneiðar (skorpan skorinn frá) lagðar þétt í botninn. Núna gerði ég smá nýjung og smurði smurosti, sveppaosti í tvö mót og svo beikonosti í hin tvö mótin. Því næst dreifði ég skinku í þrjú af fjórum mótunum (eitt var designerað grænmetis - svona til að vera pólitískt réttsýnn). Svo skar ég sveppi yfir skinkuréttina, rauðlauk, aspas í dós fór í tvö mót, salvía fór í helming rétta og svo steinselja í hina tvo. Í grænmetisréttinn setti ég kúrbít, lauk, spergilkál, rauða papriku, púrrulauk og svo salvíu. Fyrir hvern heitan rétt setti ég svo 5-6 stór egg, 300 ml af rjóma, smávegis af safanum af aspasnum. Þetta var svo hrært vel saman og hellt yfir réttinn þannig að það náði yfir brauðsneiðarnar og aðeins upp á grænmetið (eggja-rjómablandan þenst svo vel út). Rifnum osti er svo sáldrað yfir og saltað og piprað. Bakað í ofni við sirka 200 gráður í 25-30 mínútur þar til osturinn er fallega gullinn.

hvítlauk og rósmarínbrauð Súpan var einföld en ansi tímafrek. Ég byrjaði að gera súpuna kvöldið áður. Þrjár stórar gulrætur, tveir meðalstórir laukar, þrír garlic noble hvítlaukar og þrjár stórar sellerísstangir voru skornir fremur smátt niður. 4 msk af jómfrúarolíu var hituð í stórum súpupotti og grænmetið svo steikt og látið "svitna" vel í olíunni. Svo er fjórum dósum af niðursoðnum tómötum, 2 dósum af tómatapaste sett útí og hrært saman við. Hráefnið er svo maukað með töfrasprota og síðan er vatni bætt útí súpuna. Þegar þarna er komið er súpan um 7 L. Súpan er svo soðin upp og leyft að malla í nokkra klukkutíma með lokið á. Súpan er smökkuð til, saltað, piprað, krafti bætt saman við. Borið fram með heimagerðu brauði.

Ég gerði þrennskonar brauð. Hvítlauks og rósmarínbrauð, gróft heslihnetu- og fjölkornabollubrauð heilhveiti og heslihnetubrauð og svo ólífubrauð. Fólk er oft að spyrja mig hvernig ég geri þessi góðu brauð. Það er í raun hið einfaldasta mál. Svona hollt og bollt er þetta alltaf það sama. Hlutföll er í raun það eina sem skiptir máli þegar maður er að gera brauð, hvað þú setur svo í brauðið er svo annað mál. Venjulegt brauð sem ég geri er um 500-600 gr af hveiti, 30 gr af salti, 3 msk af jómfrúarolíu. 3 tsk af geri er vakið í 300 ml af ylvolgu vatni með 3 msk af sykri (eða hunangi/sírópi). Gerið er svo vakið í sykurvatninu og blandað rólega við hveitið þar til að það verður að fallegum mjúkum klump. Hnoðað um stund.

Til að gera hvítlauks- og rósmarín brauð er hvítabrauðið formað þannig að það verði til brunnur í brauðinu og svo er hvítlauksolíu hellt í brunninn. Svo er rósmarín sáldrað yfir. Til að gera ólífubrauð er alveg eins brauðklump og áður hefur verið lýst hnoðað saman við 30 spænskar ólívur, vafið upp og bakað. Til að gera gróft bollubrauð er helmingum af hvíta hveitinu skipt út fyrir heilhveiti, smávegis af haframjöli bætt saman við og kannski smá sírópi. Þegar deigið hefur hefast er 100 gr af heslihnetum bætt útí ásamt handfylli af fjölkornafræjablöndu. Deigið er svo klipið niður og hnoðað í litlar bollur sem er svo raðað saman í þyrpingu. Bakað í um 40 mínútur við 180 gráðu hita (á við öll brauðin). Borið fram með ostum og skinku, pylsum og salami og svoleiðis. ólívubrauð


Saturday, 4 August 2007

Grænmetis tempúra með ídýfusósu og ljúfu hvítvíni

elda grænmeti Fengum góða gesti í gærkvöldi. Vinir okkar sem eru búsettir í Danmörku komu í mat til okkar ásamt börnunum sínum. Einkar ljúft kvöld - gott spjall og gott hvítvín. Dóttir mín og dóttir þeirra eru miklar vinkonur og þetta voru sætir endurfundir þessara litlu vinkvenna. Við höfum svo tekið stefnuna til þeirra í byrjun september og munum vera hjá þeim eina helgi. Kristinn og Helga deila áhugamáli okkar hjóna og eru miklir matgæðingar og finnst gott að gera vel við sig með góðum mat. Ég er alltént búinn að lofa að leggja mitt af mörkum í eldhúsinu þeirra.

Ég hef að minnsta kosti einu sinni áður gert þessa uppskrift. Það var fyrir ansi löngu síðan, ég gæti best trúað því að það var fyrir svona 7 árum síðan eða um það leiti sem ég eignaðist fyrstu bók Jamie Oliver, The Naked Chef. Hún var lengi vel ein af mínum uppáhalds matreiðslubókum og ég glugga alltaf í hana aftur og aftur. Það má kannski segja að hr. Oliver hafi haft mikil áhrif á mig og hvernig ég elda. En hvað um það, þessi réttur var fyrsti réttur af nokkrum ansi góðum. Var einnig með Marbella kjúkling og sítrónuböku. Ég hef bloggað um þá rétti áður - ætli ég setji þá ekki inn aftur um helgina - svona revisited færsla.

Grænmetis tempúra er góð leið til að gera mikið af hollu og góðu grænmeti að safaríkri og mjög óhollri máltíð. Grænmetið er skorið niður og velt upp úr deigi sem er svo djúpsteikt. Dásamlegt. Það að djúpsteikja er eiginlega alveg komið úr tísku. Þessi hollustu bylting (sem ég er að sjálfsögðu mikill fylgismaður) hefur eiginlega gengið að djúpsteikingunni dauðri. KFC er eiginlega síðasta vígið...og svo auðvitað franska kartaflan. Hún lengi lifi.

grænmeti Grænmetis tempúra með ídýfusósu (dipping sauce) og ljúfu hvítvín.

Heilmikið af fjölbreytilegu og ljúffengu grænmeti er skorið niður. Sætar kartöflur, kúrbítur, radísur, lauk og púrrulauk er skorinniður í bita. Blómkál og spergilkál er rifið niður í litlabita. Strengjabaunir og salvía er einnig höfð með.

200 gr af hveiti, 100 gr af maizenamjöli er blandað saman í skál. Rétt áður en að á að elda grænmetið er köldu sódavatni hrært saman við þangað til að deigið er eins og svona millistig á milli pönnukökudeigs og vöffludeigs. Grænmetinu er svo dýpt ofan í og hjúpað deiginu og steikt upp úr heitri olíu þar til stökkt og fallegt.

grænmeti3 Borið fram með ídýfusósu. Hálfur bolli af hvítvínsediki, 1/3 bolli af vatni, 1 bolli af sykri er hrært saman í skál. Hálf agúrka er kjarnhreinsuð og skorin smátt niður sem 2 chillipipar. 1/3 búnt af kóríander er svo blandað saman við. Saltað og piprað eftir smekk. Látið standa í eina klukkustund áður en það er borið fram.