Tuesday, 29 May 2007

Grísakótilettur að hætti Normandíbúa með steiktum eplum

Eldhúsið Eins og fram kom á síðunni minni vorum við fjölskyldan í bústað foreldra minna við Meðalfellsvatn. Faðir minn fékk nýverið frábæra matreiðslubók að gjöf. Las í gegnum hana í gærkvöld og í dag. Bókin heitir Sælkeraferð um Frakkland - 135 uppskriftir að hamingjunni á franska vísu eftir Sigríði Gunnarsdóttur. Algerlega frábær bók. Ekki annað hægt en að vilja elda allt sem á þessum síðum stendur. Sigríður hefur lengi búið í Frakklandi og bókin er ferð um Frakkland, staðháttum lýst sem og frægum uppskriftum hvers svæðis. Dóttir hennar Sigríðar, Silja Sallé tekur ljósmyndirnar, allar myndirnar mjög lystugar.

Ég opnaði bókina af handahófi og fyrsta uppskriftin sem ég rak augun í var sú sem mín er að miklu leyti byggð á - Cotes de porc á la Normande á bls 21. Ekkert smá girnileg. Mamma, pabbi og Kjartan komu í mat og allir voru hrifnir. Ég breytti uppskriftinni aðeins - ekki vegna þess að mér leist illa á það sem stóð í bókinni, heldur vegna þess að ég þurfti að stækka uppskriftina til að mæta fjöldanum, ég fékk heimaræktaðan graslauk í gjöf frá föður mínum og mig langaði til að hafa uppskriftina aðeins blautari.

 Grísakótilettur að hætti Normandíbúa með steiktum eplum gratín e eldun

Uppskriftin er huxuð fyrir allavega átta manns. Fyrst var 1,5 kg af grísakótilettur þvegnar og þurrkaðar. Saltaðar með Maldon salti og pipraðar með nýmöluðum pipar og svo steiktar örstutt á hvorri hlið í heitri jómfrúarolíu - rétt þannig að þær tóku lit beggja vegna. Lagðar í eldfast mót. 1 1/2 dós af 10% sýrðum rjóma var hrært saman við 300 gr af rifnum gratínosti og 200 ml af mateiðslurjóma. Jafnframt var 1/2 búnti af söxuðum graslauk sáldrað yfir kótiletturnar. Þessari blöndu var svo dreift yfir kótiletturnar þannig að þær eru nærri því alveg huldar. Bakaðar í 20 mínútur við 180 gráður. Þegar þessi tími er liðinn er eldfasta mótið tekið úr ofninum - kjötinu lyft á annað fat og 3 msk af sýrðum rjóma, 2 kúfaðar matskeiðar af Dijon sinnepi, og 1,5 dl eplaciderediki hellt útí vökvann í fatinu og blandað vel saman við. Kótiletturnar lagðar aftur í fatið og smá osti sáldrað yfir og sett aftur í ofninn undir grillið rétt til að fá gullinn lit á ostinn.

Með matnum var þrennt meðlæti. Fyrst voru 5 græn epli flys epli jum og skorið í skífur. 100 gr af smjöri brætt á pönnu og þegar froðan hvarf var laufum af 4 greinum af fersku rósmarín hellt útí. Því næst eru eplin sett á pönnuna og steikt þar til mjúk.

Einnig var með þessu kartöflur sem voru eldaðar á svipaðan hátt. Fyrst voru þær hlut-soðnar í 10 mínútur, sneiddar niður í báta og steiktar á pönnu með smá jómfrúarolíu. Saltaðar vel og pipraðar. Um það leiti sem þær voru að verða tilbúnar var 1 glasi af hvítvíni bætt saman við og látið sjóða niður.

Með matnum var einfalt salat. Salat tricolore - Fyrst blönduð græn lauf lögð á flatan disk, svo nokkur lauf af rifnu basil, 1 mozzarella kúla rifin yfir og 2 niðurskornir tómatar. Extrajómfrúarolíu sáldrað yfir, crema de balsamico og graskersfræ.

Þetta reyndist algerlega frábær máltíð.  

salat


1 comment:

  1. Sæll, kótiletturnar og meðlætið komu dável út en okkur fannst öllum of mikið edik bragð af sósunni, var að spá hvort þessi epla edik væru mismunandi í bragðstyrk, ég var með ítalskt (acidity 5%) bestu kv . Jóhanna

    ReplyDelete