Það er búið að vera fremur mikið að gera undanfarna daga. Búinn að vera á vöktum þessa vikuna og þá er alltaf gaman þegar dregur nær helginni. Helgin er einhvern vegin meira virði þegar vikan er búinn að vera annasöm.
Ég er búinn að vera að leggja drög að þessu matarboði ansi lengi. Við hjónin höfðum boðið vinafólki okkar í mat. Dóttir okkar á vinkonu, bestu vinkonu sína, og við höfum kynnst foreldrum hennar ágætlega. Við höfum fengið þau áður til okkar í mat og þau hafa boðið okkur sömuleiðis. Kristinn og Helga eru miklir sælkerar og nautaseggir fram í fingurgóma. Fátt er betra en að gefa góðu fólki gott að borða. Þau eru að fara flytja til Danmerkur og við ákváðum að bjóða þeim í svona kveðjumatarboð.
Þegar upp var staðið var þetta fjögra rétta máltíð. Og hún heppnaðist ákaflega vel. Við vorum við matarborðið frá um kl 20 til að verða 24 - ekkert er betra en að sitja lengi við að borða - góðan mat og gott vín - I love it!!!
Svartfugl með toffísósu.
Ég fór nýlega á svartfuglsveiðar - heimturnar voru nú ekki beisnar en þeim fáu fuglum sem ég náði að skjóta var gerð góð skil. Átta svartfuglsbringur voru hreinsaðar - öll fita skorin af og himnur hreinsaðar frá, þannig verður ekkert lýsisbragð af fuglunum. 60-70 gr af smjöri eru brædd á pönnu og þegar froðan hverfur eru bringurnar steiktar í skamma stund á hvorri hlið. Rétt áður en þær eru tilbúnar er 2-3 msk af púðursykri bætt á pönnuna og bræddur í smjörinu. Þegar sykurinn er orðin að bráð er 100 ml af rjóma hellt á og leyft að sjóða upp á skömmum tíma og þá eru bringurnar veiddar upp af pönnunni og lagt á disk. Sósunni er síðan hellt í kringum bringurnar. Fersku niðurskornu dilli er svo sáldrað yfir diskinn. Borið fram með góðu rauðvíni.
Grillaðar grágæsarbringur með pecanhnetu- og kóríanderpestói.
Eins og áður hefur komið fram hef ég verið að reyna að veiða aðeins. Skaut nokkrar gæsir síðastliðið haust. Þeim var einnig gerð ágæt skil núna í gærkvöldi. Tvær grágæsarbringur voru hreinsaðar og þurrkaðar. Lagðar í skál og jómfrúarolíu hellt yfir - ca 250 ml. Svo er einu búnti af saxaðri myntu og hálfu búnti af ferskri steinselju ásamt safa af tveimur sítrónum og svo saltað og piprað. Látin marinerast í amk 8 klst helst í sólarhring. Svo eru bringurnar grillaðar á háum hita þar til kjarnhiti er kominn í 55-57 gráður. Látin standa í 10 mínútur til að jafna sig og svo skornar í þunnar sneiðar og lagt á klettasalatsbeð.
Áður en bringurnar eru grillaðar er pestóið útbúið með því að saxa niður tvö búnt af kóríander, 1 búnti af basil, 100 gr af ferskum nýrifnum parmesan osti, safi úr hálfri sítrónu, 1 dós (100 gr) af smátt söxuðum pecan hnetum blandað saman í skál. Saltað með Maldon salti og svo piprað með nýmöluðum pipar. Mjög góðri extra jómfrúarolíu er hrært saman við þar til þykktin á pestóinu er orðin eins og hún á að vera. Þykk og rústic. Pestóið svo lagt yfir skornar bringurnar og chilli stráð yfir.
Ofnbakaður hreindýraframhryggur með bláberjasósu og katalónskum kartöflum.
1,2 kg af hreindýraframhrygg er lagður í marineringu með 1 1/2 smátt skornum hvítlauk, 1 búnti af lömdu fersku rósmaríni, 2 tsk af þurrkðuðu timian (átti ekki ferskt), einu búnti af fersku oregano, nóg af extra jómfrúarolíu, salti og pipar. Látið standa í 8 klst helst lengur. Bakað í ofni í ofnpotti - lyft af botninum með gulrótum, lauk og sellerí. Þetta var svo bakað við 150 gráður þar til kjarnhiti var 62 gráður.
Með þessu voru katalónskar kartöflur sem ég hef sagt frá áður á blogginu mínu. 10 kartöflur eru skornar niður í báta. Steiktar á pönnu í hvítlauksolíu, ásamt einum smátt skornum rauðlauk. Svo eru hvítvíni bætt á pönnuna ca 200 ml og svo lokið sett á. Soðið í 15-20 mínútur og hrært af og til þar til tilbúið. Fersku dilli svo sáldrað yfir tilbúnar kartöflurnar.
Með þessu var bláberjasósa, sérlega ljúffeng. 1/2 líter soði - svona villisoði var útbúið, bara Oscars úr dollu hitað í potti, svo var 2 msk af bláberjasultu hrært saman við og soðið aðeins upp. Svo var nokkrum gulrótarbitum, sellerí, kryddjurtum og lauk sem hafði eldast með hreindýrunu fiskað upp og maukað með töfrasprota. Hrært saman við sósuna og soðið áfram í nokkrar mínútur. Svo var sósan sigtuð og færð aftur í pottinn og 100 ml rjóma bætt við og suðan látin koma upp. Smakkað til og saltað og piprað eftir smekk. Í lokin er svo einu boxi - 100 gr af ferskum bláberjum bætt saman soðið áfram í skamma stund og þá er sósan tilbúin.
Bar fram ferskt salat með aðalréttinum. Græn lauf, niðurskorin blá vínber, ristuð graskersfræ, niðurskornir plómutómatar, þunnt sneiddur kastali. Smá skvettu af jómfrúarolíu yfir og svo salt og pipar.
Með þessu var svo drukkið nokkrar tegundir af góður rauðvíni og spjallað fram eftir kvöldi. Yndislegt veður og góður félagsskapur. Frábær kvöldstund.