Thursday, 5 April 2007

Lax með pecanhnetumulningi í frábærri matarveislu

Magnús Gottfreðsson og konan hans Elín buðu okkur hjónunum ásamt öðrum til matarveislu á heimili þeirra hjóna í suðurhlíðinum. Magnús Gottfreðsson er smitsjúkdómalæknir og er jafnframt leiðbeinandi minn í sérnámi í lyflækningum og við erum einnig að vinna saman að rannsóknarverkefni.

Mér skilst að Elín eigi mestan heiður skilinn fyrir eldamennskuna, sem var framúrskarandi. Í boði var þríréttuð veisla sem ég fékk leyfi kokksins til að greina frá. Ég vona að hún lesi þetta og hjálpi mér með hlutföllinn svo hægt sé að hafa þetta eftir.

Lax með pecanhnetumulningi

Forrétturinn var tvennskonar; bæði tricolore - sem einn af mínum uppáhaldsforréttum - ferskur niðursneiddur tómatur, basillauf og niðursneiddur mozzarellaostur. Aceto di Balsamico di Modena sáldrað yfir. Yndislegt. Þessi réttur er eins góður og hann er einfaldur. Ég hef oft gert þennan rétt fyrir mína gesti og alltaf slær þessi réttur í gegn. Það er eitthvað við hvernig þessi hráefni hreinlega elska hvort annað - ef maður má orða þetta á rómantískum nótum.

Hinn forrétturinn var líka mjög góður - einfaldur og fallegur. Létt soðinn aspas - tvær til þrjár stangir í hverju búnti bundið saman með parmaskinku. Balsamik ediki var einnig sáldrað yfir - alveg ljúffengt.

Í aðalrétt var lax. Hann var hulin grænum mulningi sem samanstóð úr; pecan hnetum, basil, smjör og timian. Elín sagði mér að hún hefði sett saman ca handfylli af hnetum, handfylli af fersku basil, smá vegis af fersku timian og svo 1 msk af smjöri. Þetta var svo sett í matvinnsluvél og blandað saman. Smurt yfir laxinn sem var bakaður í 180 gr heitum ofni í 15 mínútur. Hver portion af pecanhnetumulningi dugði á eitt laxaflak.  Þetta var delisíus!!

Með þessu var svo græn sósa sem innihélt m.a. capers, basil, hvítvín og fleira. Elín sendi mér á vefnum uppskriftina að þessari sósu sem er á þessa vegu. Fimm handfylli af spínati og 2 smátt skornir skalottulaukar eru hitaðir í góðri slettu af hvítvíni á pönnu. Þegar spínatið fer að mýkjast er 2 bollum af rjóma bætt út og safa úr einu lime. Soðið saman í 10 mínútur. Þá er hráefnið sett í matvinnsluvél og maukað. Sett aftur í pottinn og kryddað með hvítum pipar, smakkað til með hvítvíni og limesaga og þvínæst er hálfri krukku af capers bætt saman við. Þessi sósa er ævintýralega góð - eiturgræn og bragðgóð. Á eftir að herma eftir henni Elínu með sósuna.

 Elín hafði séð ílangar kartöflur í Hagkaup sem voru bornar fram í hýðinu, hristar saman eftir suðu með jómfrúarolíu og fersku dilli. Einnig var borið fram ferskt salat; klettasalat, kirsuberjatómatar og fetaostur. 

Með þessu var drukkið fyrirtaks franskt Chablis hvítvín og svo Rosemount Chardonnay. Ljúfengt.

Boðið var upp á dýrindisköku með kaffinu. Þetta var baka með jarðaberja og rabbarafyllingu og svo mjúkt marens lagt ofaná. OMG. Fyrst er að gera botninn. 150 grömm af smjöri, 4 dl af hveiti og 2 msk af vatni er hnoðað saman og þrýst í botninn á formi og forbakað í 15 mínútur við 200 gráður. Svo er fyllingin útbúinn. 200 gr af marsipan er rifið niður og sett í botninn á bökubotninum. 600 gr af rababara er settur í pott með 1/2 dl af sykri og soðið saman. Hellt yfir marsipanið. Nokkur niðursneidd jarðarber sett yfir. Yfir þessa fyllingu er sett marenstoppur. 2-3 eggjahvítur með 1 1/4 dl af sykri eru stífþeyttar saman. Þessu er svo dreift yfir fyllinguna og möndluspæni stráð yfir marensinn. Kakan er svo bökuð við 150 gráðu hita í 20-30 mínútur. Borið fram með þeyttum rjóma og góðu kaffi. Aftur...delisísus.


No comments:

Post a Comment