Sunday, 29 April 2007

Gæsabringur með bláberjasósu

Ég hef undanfarin tvö ár farið í skotveiði. Ég hef bæði farið á svartfugl, hreindýra-, rjúpu- og gæsaveiðar. Allt er þetta mjög gaman og ég er þegar farinn að hlakka til haustsins ... og vorið er varla gengið í garð!

Ég og kollegi minn fórum nokkrar ferðir á tún austan við Selfoss og sátum þar nokkra góða morgna og veiddum nokkrar gæsir. Þetta voru meiriháttar ferðir. Það er fátt magnaðra en sólarupprás á köldum morgni út í sveitinni. Við veiddum ekkert sérstaklega mikið í þessum ferðum, fuglinn virtist oftast vera á leið eitthvað lengra í burtu en á akurinn okkar. Einhverjar gæsir lentu þó hjá okkur og við gátum náð okkur í soðið.

Ég hef áður eldað grágæsabringur. Þar sem heimturnar voru ekki svo miklar þá hef ég reynt að drýgja hráefnið eins og ég hef getað. Ég hef gert grágæsarbringucarpaccio sem ég hef bloggað um áður.  Það hefur alltaf gert mikla lukku.

Þessi uppskrift miðar við að hver bringa dugi fyrir einn, ef ríkulegur forréttur er á matseðlinum þá mætti hugsa sé að hverjar 3 bringur myndu duga fyrir tvo.

Þessi matur tók mið af uppskrift sem er að finna í Veislubók Hagkaupa - uppskriftabækur úr þessari seríu koma verulega á óvart, þær eru ekki fallegar svona á að horfa þ.e.a.s. þegar horft er á kápuna, og ekki sérstaklega aðlaðandi þegar verið er að lesa yfir síðurnar - en þær uppskriftir sem ég hef prófað - eða spunnið eftir eru frábærar.

Grágæsabringur með bláberjasósu.

Þessi matur er hugsaður fyrir tvo. Rómantískur kvöldverður fyrir tvo ... kertaljós og svoleiðis, gott rauðvín.

2 grágæsabringur er hreinsaðar og þurrkaðar. Lagðar í marineringu sem er gerð úr extra jómfrúarolíu, 3 msk af niðurskorinni bergmyntu, 2 msk af niðursneiddri timian, 1/2 búnti af saxaðri steinselju, 5 smátt söxuð hvítlauksrif, smávegis af Maldon salti og nýmöluðum pipar. Gott er að láta þetta liggja amk í 6 klukkustundir en best er að láta þetta vera saman í sólarhring. Það er auðvelt að matreiða bringurnar - bæði er hægt að steikja þær upp úr smjöri á flatri pönnu í 1-2 mínútur á hvorri hlið eða steikja þetta á grillpönnu í svipaðan tíma. Svo er þetta sett í 160 gráðu heitan ofn og látið vera þar til kjarnhiti er orðin um 72 gráður. Það mun taka um 10-12 mínútur.

Með þessu var bláberjasósa. Hún var sérlega ljúffeng. 1/2 líter af gæsasoði sem ég hafði áður útbúið var hitað í potti, svo var 3 msk af bláberjasultu hrært saman við og svo 2-2 1/2 dl rjóma bætt við og suðan látin koma upp. Smakkað til og saltað og piprað eftir smekk. Í lokin er svo einu boxi - ca. 250 gr af ferskum bláberjum bætt saman við ásamt 1 msk af smátt skorinni ferski steinselju. Soðið áfram í skamma stund og þá er sósan tilbúin.

Meðlætið með matnum var að þessu sinni fylltir sveppir sem hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Pabbi gerði þetta fyrst fyrir mörgum árum og það var ljúffengt. Eg hef gert þetta oft áður með mat og það virðist sem að þetta passa með nærri hverju sem er. Stilkurinn var tekin úr og sveppurinn skorinn aðeins til þannig að það verði til lítil skál í honum, spekkað með hvítlauksolíu, klípa af gullosti sett í skálina, salt og pipar, smá brauðmylsna og aftir smávegis hvítlauksolíu. Til að klára er parma osti sáldrað yfir og bakað í ofni við 180 gráður þar til gullið og osturinn farinn að krauma í sveppunum. Við höfum prófað margar aðrar fyllingar - og allt er þetta jafn gott!

Með þessu má bera fram létt salat; nokkur græn lauf, tómatar, rauð paprika, nokkrar muldar heslihnetur með einfaldri vinagrettu úr jómfrúarolíu, Dijon, salti og pipar.

Rauðvínið að þessu sinni var Mentor frá Peter Lehmann frá 1999 - alveg stórkostlegt ... og passaði matnum stórvel.


No comments:

Post a Comment