Konan mín bauð samnemendum sínum í cand.psych námi í partí í gærkvöldi. Hún bað mig að vera með pizzuveislu fyrir gestina - sem var alveg sjálfsagt.
Ég hafði ráð á því að undirbúa deigið fyrr um daginn. Þannig fékk það að hefast vel og verða mjúkt og meðfærilegt. Það passar vel þegar það þarf að gera þunnbotnapitsur sem eiga að fara á grillið. Ég notaði pizzagrilldisk sem er teflonhúðuð plata með götum á. Ég hef gert þetta nokkrum sinnum áður og þetta er langsamlega besta leiðin til að gera pizzur.
Það að grilla pizzurnar er eins nálægt því og það verður að eldbaka eins og þeir gera á Eldsmiðjunni - sem eru án efa bestu pitsur bæjarins. Eini gallinn við að elda pitsur á grilli eru afköstin. Ég á talsvert stórt grill þannig að ég get komið 2 tólftommu pitsum fyrir á grillinu. Það er hinsvegar betra að vera bara með eina á í einu og þá getur maður slökkt undir öðru megin og fengið svona hitahringrás á grillið.
Þetta gekk samt furðuvel og ég held að ég hafi búið til allavega 10-12 flatbökur ofan í mannskapinn. Gat ekki betur séð en að þær runnu ljúflega niður.
Ég gerði deig úr rúmlega 2 kg af hveiti - það var allt allt alltof mikið og átti ég afgang í dag bæði til að búa til 20 bollur og ólívubrauð. Ekki sem verst. Ég hef nýlega sett inn uppskrift af pitsabotni en læt hann flakka enn og aftur.
Grillaðar pizzur fyrir verðandi sálfræðinga
Útí 250 ml af ylvolgu vatni er sett 2 tsk þurrger og 30 g af sykur eða hunangi . Blanda saman vatninu, gerinu og sykri (eða hunangi) saman og leyfi gerinu að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur svona 10-15 mín. 500-700 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olían blandað saman við. Mikilvægt er að leyfa gerinu að vakna vel og rækilega og ekki setja saltið þarna úti - þar sem saltið hamlar aðeins gerjunarferlinu. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hræra deigið vel - þannig hefast það mikið betur og bragðast líka betur. Ég vil að deigið dúi vel undan fingri og þegar áferðin er þannig að deigið jafnar sig hratt þegar maður ýtir fingri í það breiði ég viskastykki yfir skálina og leyfi að hefast - eins lengi og maður hefur tíma. Deigið er nóg í tvær pizzur.
Ég notaði eins og svo oft áður Hunt roasted garlic tomatosauce - nennti ekki að gera mína eigin sósu - þó að það sé auðvelt. Eins og ég sagði áðan gerði ég rúmlega 10 pitsur - enginn eins, nokkrar bara klassískar en sumar nokkuð frumlegar!
Pizza wakey, wakey - eggs and bakey - Þessi var með eggjum og beikoni - ég braut bara 3 hrá egg á pitsuna, stráði osti svo í kring og setti svo beikon ofan á. Ég er sannfærður um að svona pitsa hljóti að hafa stuðlað að því að þynnkan var í lágmarki í morgun - svona þynnkumorgunverðar-forvörn í pizzuformi.
Sexostapizza- sérstaklega ljúfeng - en öllu má ofgera - það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að oftast er það bara fjögraostapitsa. Þessi var með Mozzarella, gouda, rjómaosti, parmesan, gullosti og gráðaosti - ekki hægt að borða nema eina litla sneið af þessari - hún er svo rich.
Pizza carnivore - Nautahakk, skinka, og beikon - hefði ég átt pepperoni hefði það fengið að fljóta með líka - þessi var sérstaklega fyrir strákana.
Pizza neuvo quattro staggioni - skinka, kúrbítur, capers, sveppir (og smá gráðaostur - þannig að þetta er í raun ekkert quattro neitt!)
Pizza mexicana - Nautahakk, paprika, gular baunir. Hefði einnig sett jalapeno hefði ég átt það til.
Svo voru hinar bara ósköp venjulegar - en þær voru líka alveg ljúfengar.
Svili minn kom í heimsókn í dag og stakk upp á þeirri hugmynd að setja viðarbita til að fá svona smokey bragð. Frábær hugmynd - ég á til Jack Daniels - hickory chips. Þetta eiga vera vískítunnur sem hafa verið hakkaðar niður - hef notað þetta nokkrum sinnum áður og það kemur "smokey" bragð af matnum. Þessir viðarbitar eru pakkaðir inn í álpappir með smávegis vatni og svo er álpappírinn gataður þannig að það myndist reykur. Geri þetta næst.
No comments:
Post a Comment