Sunday, 22 April 2007

Fimm fyllt lambalæri fyrir söngelska Færeyinga

Þetta er búið að vera ansi þéttur laugardagur. Snædís ræsti mig í fyrra fallinu og við hjónin fórum með börnin í sund. Vorum kominn um tíuleytið í morgun og það kom mér á óvart hve margir voru í laugunum. Svo vann ég að rannsókninni minni ásamt Inga Karli læknanema og Magnúsi Gottfreðssyni smitsjúkdómalækni. Eftir það lá leiðin í ræktina rétt til að hressa sig við fyrir fjörið sem var á döfinni.

Ingvar, faðir minn, er í blakfélagi og þeir spila árlega við félaga sína frá Færeyjum. Þetta hafa þeir gert undanfarin ár. Þeir hafa farið til Færeyja og Færeyingarnir hafa tekið á móti þeim með miklum veislum. Nú var komið að Íslendingunum að bjóða heim í annað sinn og kom það í hlut föður míns að skipuleggja veisluna eftir blakmótið. Hann bað mig fyrir nokkru að aðstoða með eldamennskuna sem var bara sjálfsagt. Mamma, Kjartan bróðir og Snædís hjálpuðu líka til - meira að segja börnin voru á staðnum!

Þetta reyndist vera hörkuveisla, 30 íslenskir og færeyskir blakspilarar á miðjum aldri. Hressari en ég veit ekki hvað. Sungu stanslaust og frábært undirspil; gítar, bassi og píanó. Sérstaklega gaman að elda fyrir svona góðan og glaðan og síðast en ekki síst þakklátan hóp af körlum.

Við höfum verið að skipuleggja matseldina undanfarin mánuð - hugmyndir hafa verið samþykktar og hafnað aftur og aftur. Við enduðum með nýjan forrétt - sem ég hef eldað áður og hef sett á bloggið og svo klassískt lambalæri - troðið með góðgæti. Ég hef eldað svona lambalæri oft áður en ég held að ég hafi ekki sett það á bloggið áður. Reynið þessa uppskrift - þið verðið ekki svikin af þessu læri.

Í forrétt var laxacarpaccio sem ég hef áður sett á vefinn. Læt það aftur í þetta sinn. Eina sem ég breytti í þetta sinn var að skipta út rifsberjum fyrir bláber - ekki verra - gaman að sjá að hvernig litirnir spila saman.

Ferskt og reykt Laxacarpaccio með bláberjum og chilli
350 gr af ferskum laxi (helst villtum náttúrulega - en ég keypti sjóalinn eldislax) er skorinn niður í næfurþunnar sneiðar og lagður á flatan disk sem hefur verið pennslaður með jómfrúarolíu og smávegis af Maldon salti dreift yfir. Safi úr 1 sítrónu og 1 limealdin er hrært saman og laxinn er pennslaður með safanum (sýran eldar í raun fiskinn og maður sér hvernig hann breytir um lit eftir nokkrar mínútur. Reyktum lax (sem tengdafaðir minn veiddi í sumar) var einnig skorinn í þunnar sneiðar og lagður með ferska laxinum. Svo var fínt saxaðri steinselju sáldrað yfir og svo smátt söxuðum chilli. Því næst var bláberjum dreift yfir. 



(Myndin sýnir þegar ég gerði þetta seinast og notaði rifsber í staðin fyrir bláber núna - bláberin voru ekki síðri).

Borið fram með crema de balsamico og heimagerðu baguette brauði. Meiriháttar.

Fimm fyllt lambalæri fyrir söngelska Færeyjinga

Pabbi keypti fimm 2,5-3,0 kg lambalæri sem hann kom með til mín í gærkvöldi. Við höfðum borðað grillaðar pizzur um kvöldið og drukkið gott rauðvín og vorum í stuði fyrir eldamennsku. Mamma og Snædís fóru í leikhús og við feðgarnir undirbjuggum matinn á meðan. Fyrst voru lærin skoluð og þurrkuð. Síðan voru lærin sem á bretti og stungið á þau með beittum grönnum hníf svona 3-4 cm djúp sár í kjötið. Svo er vísifingur settur ofan í sárið og poki útbúinn. Í hann má setja hvaða kryddjurtir og í raun hvaða hráefni sem er - allt sem hugurinn girnist.

Í þetta sinn girntist hugurinn eftirfarandi; hvítlauk, döðlur, gráðostur, fersk bergmynta, basil, steinselja. Fyrir fimm lambalæri voru 5 heilir hvítlaukar niðursneiddir, 300 gr af döðlum sneiddar niður í bita, 2 plöntur af ferskri bergmyntu, 1 búnt af ferskri steinselju, 1 búnt af ferskru basil, 1 planta af blóðbergi. Lömbin voru fyllt með hvítlauk, döðlum, ferskum kryddjurtum - basil, steinselju, bergmyntu, gráðosti - svo var götunum lokað með meiri döðlum. Lærin voru svo smurð með olíu, kryddað með salti og piprar og var blóðbergi sáldrað yfir. Vafið inn í álpappír og svo látið standa. Í þetta sinn yfir nótt í ísskáp.

Bakað við 180 gráður þar til kjarnhiti náði um 65-70 gráðum, þá var álpappírinn tekin af og lömbin látin vera í ofninum við hærri hita þar til þau brúnuðust aðeins.

Borið fram með frábæru sósunni hennar mömmu (fæ hana til að senda mér uppskriftina), heimagerðum sultum sem pabbi gerði í haust og ofnsteiktu rótargrænmeti; kartöflum, sætum kartölfum, lauk, hvítlauk, engiferrót og gulrótum með jómfrúarolíu, garðablóðbergi, salti og pipar.

No comments:

Post a Comment