Sunday, 29 April 2007

Gæsabringur með bláberjasósu

Ég hef undanfarin tvö ár farið í skotveiði. Ég hef bæði farið á svartfugl, hreindýra-, rjúpu- og gæsaveiðar. Allt er þetta mjög gaman og ég er þegar farinn að hlakka til haustsins ... og vorið er varla gengið í garð!

Ég og kollegi minn fórum nokkrar ferðir á tún austan við Selfoss og sátum þar nokkra góða morgna og veiddum nokkrar gæsir. Þetta voru meiriháttar ferðir. Það er fátt magnaðra en sólarupprás á köldum morgni út í sveitinni. Við veiddum ekkert sérstaklega mikið í þessum ferðum, fuglinn virtist oftast vera á leið eitthvað lengra í burtu en á akurinn okkar. Einhverjar gæsir lentu þó hjá okkur og við gátum náð okkur í soðið.

Ég hef áður eldað grágæsabringur. Þar sem heimturnar voru ekki svo miklar þá hef ég reynt að drýgja hráefnið eins og ég hef getað. Ég hef gert grágæsarbringucarpaccio sem ég hef bloggað um áður.  Það hefur alltaf gert mikla lukku.

Þessi uppskrift miðar við að hver bringa dugi fyrir einn, ef ríkulegur forréttur er á matseðlinum þá mætti hugsa sé að hverjar 3 bringur myndu duga fyrir tvo.

Þessi matur tók mið af uppskrift sem er að finna í Veislubók Hagkaupa - uppskriftabækur úr þessari seríu koma verulega á óvart, þær eru ekki fallegar svona á að horfa þ.e.a.s. þegar horft er á kápuna, og ekki sérstaklega aðlaðandi þegar verið er að lesa yfir síðurnar - en þær uppskriftir sem ég hef prófað - eða spunnið eftir eru frábærar.

Grágæsabringur með bláberjasósu.

Þessi matur er hugsaður fyrir tvo. Rómantískur kvöldverður fyrir tvo ... kertaljós og svoleiðis, gott rauðvín.

2 grágæsabringur er hreinsaðar og þurrkaðar. Lagðar í marineringu sem er gerð úr extra jómfrúarolíu, 3 msk af niðurskorinni bergmyntu, 2 msk af niðursneiddri timian, 1/2 búnti af saxaðri steinselju, 5 smátt söxuð hvítlauksrif, smávegis af Maldon salti og nýmöluðum pipar. Gott er að láta þetta liggja amk í 6 klukkustundir en best er að láta þetta vera saman í sólarhring. Það er auðvelt að matreiða bringurnar - bæði er hægt að steikja þær upp úr smjöri á flatri pönnu í 1-2 mínútur á hvorri hlið eða steikja þetta á grillpönnu í svipaðan tíma. Svo er þetta sett í 160 gráðu heitan ofn og látið vera þar til kjarnhiti er orðin um 72 gráður. Það mun taka um 10-12 mínútur.

Með þessu var bláberjasósa. Hún var sérlega ljúffeng. 1/2 líter af gæsasoði sem ég hafði áður útbúið var hitað í potti, svo var 3 msk af bláberjasultu hrært saman við og svo 2-2 1/2 dl rjóma bætt við og suðan látin koma upp. Smakkað til og saltað og piprað eftir smekk. Í lokin er svo einu boxi - ca. 250 gr af ferskum bláberjum bætt saman við ásamt 1 msk af smátt skorinni ferski steinselju. Soðið áfram í skamma stund og þá er sósan tilbúin.

Meðlætið með matnum var að þessu sinni fylltir sveppir sem hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Pabbi gerði þetta fyrst fyrir mörgum árum og það var ljúffengt. Eg hef gert þetta oft áður með mat og það virðist sem að þetta passa með nærri hverju sem er. Stilkurinn var tekin úr og sveppurinn skorinn aðeins til þannig að það verði til lítil skál í honum, spekkað með hvítlauksolíu, klípa af gullosti sett í skálina, salt og pipar, smá brauðmylsna og aftir smávegis hvítlauksolíu. Til að klára er parma osti sáldrað yfir og bakað í ofni við 180 gráður þar til gullið og osturinn farinn að krauma í sveppunum. Við höfum prófað margar aðrar fyllingar - og allt er þetta jafn gott!

Með þessu má bera fram létt salat; nokkur græn lauf, tómatar, rauð paprika, nokkrar muldar heslihnetur með einfaldri vinagrettu úr jómfrúarolíu, Dijon, salti og pipar.

Rauðvínið að þessu sinni var Mentor frá Peter Lehmann frá 1999 - alveg stórkostlegt ... og passaði matnum stórvel.


Wednesday, 25 April 2007

Reykt laxa penne carbonara

Það virðist vera eitthvert laxaþema í gangi í eldhúsinu síðustu tvo sólarhringa. Það varð hálft flak af reyktum laxi afgangs frá því á Færeyingakvöldinu á laugardaginn sem mér datt í hug að koma í not á þennan hátt. Ég hef ekki eldað svona áður a.m.k. ekki svo að ég muni eftir. Ég hef hinsvegar einhvern tíma gert reykt laxapasta en þá í einhverskonar rjómasósu - man þó ekki uppskriftina - það var fyrir tíma bloggsins eða annarar vitrænnar skráningar á eldamennsku minni.

Bróðir minn kom aftur í mat, hann hefur verið mikið erlendis undanfarin ár og það er gott að fá hann heim. Hann er eins og komið hefur fram á vefnum ansi liðtækur í eldhúsinu ... bæði flinkur kokkur og flottur í uppvaskinu!

Spaghetti Carbonara hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá minni fjölskyldu, ætli það hafi ekki verið mamma sem eldaði þennan rétt fyrst fyrir mig þegar ég var unglingur - ljúffengur. Ég hef gert þó nokkrar útgáfur af spaghetti carbonara, með beikoni auðvitað, með og án rjóma, með túnfisk í stað beikons, með kjúklingi í stað beikons og einnig grænmetisútgáfu af þessum rétt. Enginn þeirra náttúrulega eins góður og orginalinn.

Þessi var hinsvegar ansi ljúfengur. Reyktur lax og beikoni er vart hægt að kalla lík hráefni en þau deila einum eiginleika og það er seltan, sem er alveg nauðsynleg til að gera gott carbonara ... og auðvitað hellingur af nýrifnum parma osti og nýmuldum svörtum pipar - jippí.

Reykt laxa penne carbonara

400 gr af góðum reyktum laxi er skorið niður í fremur litla bita. Svo er fjórum stórum eggjum hrært saman í skál ásamt 50-70 gr af parma osti, kannski smávegis af venjulegum rifnum osti, Maldon salti, hellingi af möluðum pipar og skvettu af mjólk (eða rjóma - það má líka sleppa mjólkinni og reyndar rjómanum líka). Í lokin er 1/3 búnti af smátt skorinni ferskri steinselju bætt saman við.

Því næst er penne pasta soðið skv. leiðbeiningum í miklu söltuðu vatni þar til það er orðið al dente (sem þýðir að það er smá bit í miðjunni á pastanu). Þegar pastað er soðið er vatninu hellt frá og eggjablöndunni og reykta laxinum blandað saman við og hrært vandlega saman þannig að pastað sé vel þakið með eggjasósunni. Mikilvægt er að hafa hraðar hendur svo að pastað kólni ekki um of því að það er hitinn frá pastanu sem á eftir að elda egginn. Lok er svo sett á pottinn og látið standa í mínútu eða tvær.

Borið fram með hvítlauksbrauði, baguette smurðu með heimagerðri hvitlauksolíu og smávegis af rifnum osti og fersku salati - ég er þessa daganna með fremur einföld salöt; í þetta sinn var notast við klettasalat, nokkur spínatblöð, 1 niðurskorinn tómat, 1/3 smátt skorna agúrku, fetaost og svo nokkur ristuð graskersfræ og hálfa handfylli af furuhnetum.

Þetta var alveg ljúfeng máltíð og fljótleg að elda, tók sennilega innan við 30 mínútur frá því hafist var handa þar til máltíðin var borin á borð. Vesgú


Monday, 23 April 2007

Sírópssinnepsgljáður lax með hrísgrjónasalati

Fremur rólegur dagur í dag. Svefndagur eftir vakt og allt gerist fremur hægt á svoleiðis dögum. Ég verð alltaf dáldið myglaður eftir næturvaktir. Ætli það sé ekki aldurinn að segja til sín. Náði að skreppa á fund með undirbúningshóp fyrir árshátið lyflækningasviðs I á LSH sem verður á föstydagskvöldið næstkomandi og svo skella mér í skvass. Kunningi minn Benedikt fékk að flengja mig rækilega í dag...ekkert nýtt þar á ferðinni.

Maturinn í kvöld var svona samsuða úr ólíkum áttum. Við vorum með lax í matinn í kvöld og bauð bróður mínum í mat, svo átti bara að hafa hrísgrjón og ferskt salat með. Hrísgrjónin breyttu aðeins um stefnu á síðustu stundu og urðu talsvert betri en til stóð - pössuðu kannski ekkert sérstaklega vel með laxinum en það kom þó ekki við kaunin á neinum, ætli væntingar manns til veislumáltíða séu ekki minni á mánudögskvöldum.

Laxauppskriftin er ekkert ósvipuð því og ég bloggaði um fyrir nokkrum mánuðum sem var undir nafninu - Lax á fjóra vegu - þar notaði ég hunang í stað síróps núna. Hrísgrjónasalatið er þó nýtt á nálinni. Pabbi er mjög lúnkinn við að gera hrísgrjónasalöt - hefði ég ekki nefnt hann á nafn í sömu andrá og ég geri hrísgrjónasalat hefði ég fengið símtal - í það minnsta tölvupóst til áminningar.

Sírópssinnepsgljáður lax með hrísgrjónasalati

Eitt kíló af sjóöldum laxi var hreinsaður og bein plokkuð út með flísatöng. Svo er rósmaríni, í þetta sinn þurrkuðu (ferskt er betra, þó er rósmarín ein af þeim kryddjurtum sem nokkuð vel heldur bragði sínu við þurrkun) sáldrað yfir laxaflakið. Því næst er sírópssinneps gljáinn útbúinn, 2 msk af Djion sinnepi er blandað saman við 3 msk af hreinu hlynsírópi. Svo er sírópssinnepsgljáanum dreift yfir laxinn. Laxinn er svo bakaður við 180 gráðu hita í 12 mínútur.

Með þessu átti að vera hrein Basmati hrísgrjón - en svo fór ég í einhvern gír og fór að reyna að hressa aðeins upp á þetta. Á meðan ég sauð hrósgrjónin þá skar ég niður einn lítil lauk, 3 hvítlauka, 3 cm af engifer fremur smátt og hitaði í jómfrúarolíu. Svo var 1/3 af niðursneiddum kúrbít, 10 sveppum sneiddum í fjórðunga, 1/3 af niðurskornum blaðlauk, og heil rauð papríka í fremur smáum bitum bætt á pönnuna og steikt í smástund. Saltað og piprað. Svo var 4 bollum af soðnum basmati hrísgrjónum bætt á heita pönnuna og velt samanvið grænmetið. 2-3 msk af kikkoman soya sósu var svo hellt útí, saltað og piprað, 1/6 búnt af smátt skorinni ferskri steinselju bætt við og 1-2 tsk af hvítum sykri. Í lokin er 1 hrært egg blandað saman við og steikt í smástund. Fært á disk og skreytt með ferskri steinselju.

Borið fram með einföldu salati, blönduð grænlauf, tómatar og fetaostur. Einfalt. Laxinn heppnaðist afar vel en hrísgrjónasalatið var meiriháttar gott - hefði í raun getað verið máltíð í sjálfu sér.


Sunday, 22 April 2007

Fimm fyllt lambalæri fyrir söngelska Færeyinga

Þetta er búið að vera ansi þéttur laugardagur. Snædís ræsti mig í fyrra fallinu og við hjónin fórum með börnin í sund. Vorum kominn um tíuleytið í morgun og það kom mér á óvart hve margir voru í laugunum. Svo vann ég að rannsókninni minni ásamt Inga Karli læknanema og Magnúsi Gottfreðssyni smitsjúkdómalækni. Eftir það lá leiðin í ræktina rétt til að hressa sig við fyrir fjörið sem var á döfinni.

Ingvar, faðir minn, er í blakfélagi og þeir spila árlega við félaga sína frá Færeyjum. Þetta hafa þeir gert undanfarin ár. Þeir hafa farið til Færeyja og Færeyingarnir hafa tekið á móti þeim með miklum veislum. Nú var komið að Íslendingunum að bjóða heim í annað sinn og kom það í hlut föður míns að skipuleggja veisluna eftir blakmótið. Hann bað mig fyrir nokkru að aðstoða með eldamennskuna sem var bara sjálfsagt. Mamma, Kjartan bróðir og Snædís hjálpuðu líka til - meira að segja börnin voru á staðnum!

Þetta reyndist vera hörkuveisla, 30 íslenskir og færeyskir blakspilarar á miðjum aldri. Hressari en ég veit ekki hvað. Sungu stanslaust og frábært undirspil; gítar, bassi og píanó. Sérstaklega gaman að elda fyrir svona góðan og glaðan og síðast en ekki síst þakklátan hóp af körlum.

Við höfum verið að skipuleggja matseldina undanfarin mánuð - hugmyndir hafa verið samþykktar og hafnað aftur og aftur. Við enduðum með nýjan forrétt - sem ég hef eldað áður og hef sett á bloggið og svo klassískt lambalæri - troðið með góðgæti. Ég hef eldað svona lambalæri oft áður en ég held að ég hafi ekki sett það á bloggið áður. Reynið þessa uppskrift - þið verðið ekki svikin af þessu læri.

Í forrétt var laxacarpaccio sem ég hef áður sett á vefinn. Læt það aftur í þetta sinn. Eina sem ég breytti í þetta sinn var að skipta út rifsberjum fyrir bláber - ekki verra - gaman að sjá að hvernig litirnir spila saman.

Ferskt og reykt Laxacarpaccio með bláberjum og chilli
350 gr af ferskum laxi (helst villtum náttúrulega - en ég keypti sjóalinn eldislax) er skorinn niður í næfurþunnar sneiðar og lagður á flatan disk sem hefur verið pennslaður með jómfrúarolíu og smávegis af Maldon salti dreift yfir. Safi úr 1 sítrónu og 1 limealdin er hrært saman og laxinn er pennslaður með safanum (sýran eldar í raun fiskinn og maður sér hvernig hann breytir um lit eftir nokkrar mínútur. Reyktum lax (sem tengdafaðir minn veiddi í sumar) var einnig skorinn í þunnar sneiðar og lagður með ferska laxinum. Svo var fínt saxaðri steinselju sáldrað yfir og svo smátt söxuðum chilli. Því næst var bláberjum dreift yfir. 



(Myndin sýnir þegar ég gerði þetta seinast og notaði rifsber í staðin fyrir bláber núna - bláberin voru ekki síðri).

Borið fram með crema de balsamico og heimagerðu baguette brauði. Meiriháttar.

Fimm fyllt lambalæri fyrir söngelska Færeyjinga

Pabbi keypti fimm 2,5-3,0 kg lambalæri sem hann kom með til mín í gærkvöldi. Við höfðum borðað grillaðar pizzur um kvöldið og drukkið gott rauðvín og vorum í stuði fyrir eldamennsku. Mamma og Snædís fóru í leikhús og við feðgarnir undirbjuggum matinn á meðan. Fyrst voru lærin skoluð og þurrkuð. Síðan voru lærin sem á bretti og stungið á þau með beittum grönnum hníf svona 3-4 cm djúp sár í kjötið. Svo er vísifingur settur ofan í sárið og poki útbúinn. Í hann má setja hvaða kryddjurtir og í raun hvaða hráefni sem er - allt sem hugurinn girnist.

Í þetta sinn girntist hugurinn eftirfarandi; hvítlauk, döðlur, gráðostur, fersk bergmynta, basil, steinselja. Fyrir fimm lambalæri voru 5 heilir hvítlaukar niðursneiddir, 300 gr af döðlum sneiddar niður í bita, 2 plöntur af ferskri bergmyntu, 1 búnt af ferskri steinselju, 1 búnt af ferskru basil, 1 planta af blóðbergi. Lömbin voru fyllt með hvítlauk, döðlum, ferskum kryddjurtum - basil, steinselju, bergmyntu, gráðosti - svo var götunum lokað með meiri döðlum. Lærin voru svo smurð með olíu, kryddað með salti og piprar og var blóðbergi sáldrað yfir. Vafið inn í álpappír og svo látið standa. Í þetta sinn yfir nótt í ísskáp.

Bakað við 180 gráður þar til kjarnhiti náði um 65-70 gráðum, þá var álpappírinn tekin af og lömbin látin vera í ofninum við hærri hita þar til þau brúnuðust aðeins.

Borið fram með frábæru sósunni hennar mömmu (fæ hana til að senda mér uppskriftina), heimagerðum sultum sem pabbi gerði í haust og ofnsteiktu rótargrænmeti; kartöflum, sætum kartölfum, lauk, hvítlauk, engiferrót og gulrótum með jómfrúarolíu, garðablóðbergi, salti og pipar.

Saturday, 21 April 2007

Roastbeef ala Kjartan Þór



Fórum í mat til foreldra minna í kvöld. Bróðir minn sá um eldamennskuna. Kjartan bróðir er kokkur af guðs náð. Hann hefur eins og restin af fjölskyldunni mjög gaman af því að elda. Hann er listamaður - búið mikið erlendis við kröpp kjör - og hann kann að búa til veislu úr litlu...Bull fighter's beef stew, indverskan korma með nautakjöti (indverjar myndu æsast úr öllu valdi ef þetta kæmist í hámæli - þannig að við skulum halda þessu bara á þessari vefsíðu). En hvað um það hann stóð fyrir þessari meiriháttar veislumáltíð á kveldi fyrsta sumardags. Konan mín gerði sína rómuðu Bernaise sósu og allir voru glaðir.

Roast beef ala Kjartan Þór
2 kg af fallegum nautavöðva eins og innralæri er smurt með blöndu af 1 msk af hveiti, 2 msk af Dijon sinnepi og 1/2 tsk af Maldon salti. Kryddar kjötið svo ríkulega með nýmuldum svörtum pipar. Svo er ofn forhitaður í 230 gráður og þegar hann er orðin heitur þá er vöðvinn steiktur í 15 mínútur. Þá er ofnhitinn lækkaður í 200 gráður og kjötið steikt í 25 mínútur í viðbót. Því næst er kjötið tekið út ofninum og lagt til hliðar vafið í álpappír og látið standa í 15 mínútur.

Búinn var til variant af Bernaise sósu Snædísar. Konan mín er ansi föst á því að nota Knorr Hollandaise sósugrunn í Bernaise sósuna sína en í 1011 var bara til Toro og því fannst henni allt vera upp á móti sér hvað sósugerðina snerti, þetta heppnaðist samt alveg frábærlega hjá henni enda kominn af fjölskyldu mikilli sósusnillinga. Snædís er ekki hrifinn af því að ég sé að blogga mikið um sósuna hennar - henni finnst eitthvað lousy að gera sósu úr pakka - en ég hef verið að reyna að segja henni að það er sama hvaðan gott kemur - þessi sósa er meiriháttar. Ég hef áður bloggað um sósuna hennar - henni ekki til mikillar ánægju!!!

Ég held að hún hafi gert úr 1 sósupakka - sósan í pökkunum er gerð eftir leiðbeiningum - með smjöri og mjólk og tilheyrandi en svo þarf að djassa hana upp. Bernaise essens, salt, pipar, fersk steinselja og svoleiðis. Til þess að sósan fengi á sig fallegri lit hræðri hún einnig tvær eggjarauður saman við...svona aðeins til að vera trú upprunanum. Sósan var svo soðin upp og var alveg meiriháttar. Ég vona að Snædís láti mig fá nákvæmari leiðbeiningar.

Með þessu voru svo katalónskar kartöflur - ættu raunverulega að heita kjartanþórskar kartöflur þar þar sem hann gerir þær best. Kartöflur eru flysjaðar, sneiddar niður þunna báta. Olía er hituð á pönnu og kartöflurnar eru steiktar þar til þær verða gullnar og fallegar. Þá er byrjað að hella smávegis af vökva á pönnuna (auðvelt er að nota bara vatn en einnig má nota blöndu af hvítvíni og vatni....eða bara hvítvíni (hef bloggað um það áður)) og steikt um stund með lokið á. Við og við þarf að róta í kartöflunum svo að þær festist ekki við pönnuna. Svo er saltað ríkulega með sjávarsalti og piprað með nýmöluðum pipar.

Með þessum rétt var ljúffengt salat; klettasalat, tómatar, vínber, mulin fetaostur í kryddolíu og balsamic edik og smávegis salt og pipar.

Með matnum var drukkið Beringer Founder's Estate Merlot frá 2004 - ljúfengt og passaði mjög vel með matnum.


Wednesday, 18 April 2007

Kjúklinganúðlur með litskrúðugu grænmeti

Við hjónin vorum eiginlega búin að skipuleggja matinn fyrir kvöldið. Ég var - eins og svo oft áður - búinn að taka það að mér að sjá um matinn. Planið var að hafa kjúklinganúðlur í matinn, það er langt síðan að við höfum eldað núðlur í matinn - ég held að það hafi seinast verið í nóvember - allavega man ég ekki eftur því að hafa bloggað um svoleiðis.

Ég var hins vegar alltof seinn heim þar sem ég tafðist á fundi Læknafélags Reykjavíkur. Snædís var því byrjuð að elda - og eiginlega það langt komin að hún verður að fá heiðurinn af máltíðinni. Ég fékk þó að taka við í lokin - rétt svona til að halda andliti. Tengdaforeldrar mínir komu í mat. Þau eru nýkomin úr tveggja vikna páskafríi á Spáni og voru ansi brúnn og sælleg miðað við okkur hin sem komum grá og guggin undan íslenskum vetri.

Kjúklinganúðlur með litskrúðugu grænmeti. núðlur

Fyrst voru 600 gr af kjúklingabringum sem höfðu verið skornar í strimla marineruð í 100ml soya sósu með sex mörðum hvítlauksrifjum og 2 msk sírópi í tvær klukkustundir. Svo var grænmetið; 1 kúrbítur, 4 gulrætur, 1 laukur, 1/2 paprika, 1/2 blaðlaukur - flysjað, skolað og þurrkað eins og lög gera ráð fyrir - og skorið í munnbitastóra bita. 3 egg voru hrærð saman og við þau bætt 1/4 búnt af ferskri niðursneiddri steinselju. Þá er fyrsti hluti matseldarinnar kominn.

Því næst er eggjablandan steikt á pönnu þar til hún er tilbúin og svo er eggjakakan lögð til hliðar. Svo er kjúklingurinn steiktur með allri marineringunni á blússheitum wok þar til hann er steiktur í gegn og síðan lagður til hliðar. Því næst var grænmetið steikt í stutta stund og lagt til hliðar. Þá er annar hluti matseldarinnar tilbúinn.

Næst eru 3 plötur af núðlum soðnar í 4 mínútur og þegar þær eru tilbúnar er vatninu hellt af. Þá er allt tilbúið til að setja réttinn saman.

Þrír sentimetrar af engilferrót skorið smátt niður og einnig 4 hvítlauksrif. 2 msk af olíu er hitað á pönnu og hvítlaukurinn og engiferrótinni bætt útí og steikt þar til gljáandi. Þá er kjúklingnum, grænmetinu, núðlunum bætt á pönnunna og blandað vel saman. Mikilvægt er að pannan sé vel heit. 40-50 ml af soya sósu er bætt útí og svo 2-3 skvettum af sætu sherríi. Steikt saman í skamma stund og svo fært yfir á flatan disk.

Skreytt með eggjakökunni sem hefur verið skorin í bita og rifnu fersku kóríander. Bon appetit.


Tuesday, 17 April 2007

Endurtekning í eldhúsinu - ljúffeng endurtekning

Búinn að vera á vöktum undanfarna viku eins og fram hefur komið á blogginu mína. Það þýðir að lítið er búið að vera í eldhúsinu. Síðasta vaktin í bili var í gærkvöldi og það var fremur mikið að gera á vaktinni. Hvað um það, svaf lítið í dag eftir vaktina og svo vaknaði í algeri stemmingu fyrir steik og bernaise sósu - sem hefur lengi verið uppáhald okkar hjóna. Það varð úr.

Ég er að fara að baka köku fyrir brúðkaupsveislu vinahjóna. Dögg vinkona mín og kollegi og unnusti hennar Grímur eru að fara að ganga í hjónaband 12. maí næstkomandi og báðu mig um að sjá um desertinn í veislunni. Mín verður ánægjan. Þau komu í svona prufukeyrslu á kökuna með kvöldkaffinu.

Þau hafa áður komið í mat hjá okkur hjónum og fengið Pavlovu í desert. Ég hef áður sett inn blogg um þessa uppskrift undir heitinu eftirmatur guðanna. Eins og mér sjálfum fannst þeim þessi marenskaka alveg frábær...sem hún er. Venjulega hef ég gert tvöfalda uppskrift af þessari köku þar sem ég hef oftar bakað hana fyrir stór matarboð en núna gerði ég einfalda uppskrift og þau komu í svona desertsmakk til að undirbúa brúðkaupið. Einföld uppskrift dugir sennilega fyrir 10-12 manns - en oftar skiptir engu máli hve stóra uppskrift maður gerir - hún virðist alltaf klárast sama hvað fáir eða margir eru um hítuna.

Eftirmatur guðanna - endurtekning - þó með aðeins minna sniði.

4 eggjahvítur eru þeyttar í skál, með smá salti, þartil þær fara að freyða vel. Þá er 250 gr af sykri bætt útí - ekki allt í einu - gott að setja eins og 50g í einu, og þeyttar þartil marensinn er orðin stífur og gljáandi. Því næst er 1/2 tsk af vanillu dropum, 2 matskeiðar af maizenamjöli, 1 tsk af hvítvínsediki og hrært blandaðsamanvið. Bökunarpappir er lagður á ofnplötu og marensinum dreift yfir plötuna. Ofn er forhitaður í 180 gráður og þegar marensinn er settur inni er hitinn lækkaður í 150 gráður og marensinn er bakaður í 1 klst 15 mínútur - 1 klst 30 mínútur. Marensinn mun blása út og verða gullinn og fallegur. Þegar marensinn er tilbúinn er marensinn tekinn út og leyft að kólna. Nigella slekkur á ofninum eftir 1 klst og korter og leyfir marensinum að kólna í ofnunum. Ég hef venjulega tekið kökuna út úr ofninum og leyft henni að kólna á borði undir viskastykki.

 250- 500 ml af rjóma er þeyttur og dreift yfir marensinn (marensinn mun aðeins falla saman við þetta - og það er allt í lagi). Því næst er einhverjum fallegum berjum stráð yfir. Ég hef gert þessa köku með ástaraldinum, jarðaberjum, brómberjum, hindberjum og þetta hefur aldrei klikkað. Í þetta sinn var 300 gr af niðurskornum jarðaberjum dreift yfir. Þetta var alveg frábært sem endranær.

 


Friday, 13 April 2007

Ofngrilluð ýsa á þriggja lauka beði

Átti frídag milli vakta í dag, þetta eru alltaf súrir dagar. Vaknar seint eftir næturvaktina - ekki alveg útsofinn. Einhvern vegin er allt ansi grátt á svona dögum. Reyndi þó að hressa mig við og skreppa í skvass með kollega mínum. Vorum báðir hálfdasaðir - en þetta hressti við, nóg til þess að ég nennti að elda kvöldverð.

Ég og konan mín erum að reyna að venja son okkar á alvöru mat. Hann borðar allan mat hjá dagmömmunni sinni, hjá frænkum og ömmum en ekki hjá okkur. Við höfum klárlega verið að klúðra uppeldinu og nú á að fara að taka á honum stóra sínum. Snædísi datt í hug að maturinn væri kannski fullframandi - ég veit nú ekki um það - en við ákváðum að tóna þetta niður alveg. Og ekki er hægt að tóna matseld meira niður en að sjóða ýsu. Ég hef einu sinni áður soðið ýsu. Þá gufusauð ég ýsuflak og það var bragðlaust og minnti hreinlega á mötuneytismat, dapurlegan.

Nú var ýsan soðið í söltuðu vatni fyrir drenginn en ég breytti þessu aðeins fyrir restina af fjölskyldunni. Rétturinn var huxaður sem twist á soðna ýsu með kartöflum sem er leiðinlegasti matur sem borin er á borð - við réttu kringumstæðurnar getur þessi matur verið bragðgóður - en aldrei girnilegur, hvaðþá eitthvað sem mig langar til að elda.

 Ofngrilluð ýsa á þriggja lauka beði ofnbökuð ýsa

Einn púrrulaukur, 5 hvítlauksrif, 2 litlir skalottulaukar voru skornir í sneiðar og lagðir í eldfast mót með 1 msk af jómfrúarolíu. Saltað og piprað og svo 5-6 mjög litlum klípum af smjöri lagt með. 600 gr af ýsu beinhreinsuð en samt með roðinu var lagt ofan á laukinn þannig að roðið snéri upp. Roðið var pennslað með smá hvítlauksolíu, saltað og piprað og svo ofngrillað við 250 gráður í 8-10 mínútur. Maður sér alveg hvernig fiskur verður gljáandi hvítur og roðið stökkt og girnilegt.

Með þessu bar ég fram soðnar kartöflur ca. átta miðlungsstórar kartöflur. Eftir suðu voru þær flysjaðar og lagðar í skál. Ég útbjó dressingu sem samanstóð af 2 msk 10% sýrðum rjóma, 1 tsk Dijon sinnep, 2 tsk síróp, salt og pipar og svo 1/5 búnt af gróf skornu fersku dilli. Dressingunni var svo hellt yfir kartöflurnar og þær hjúpaðar með henni.

Með matnum var einfalt salat, blönduð grænlauf, 3 niðurskorin jarðaber, 1/2 avócadó og nokkrir bitar af muldum kryddfeta osti. kartöflur með dressingu

Alveg ljúffengur matur.


Thursday, 12 April 2007

Fyllt veislubrauð og ólívubrauð

Er á vöktum þessa vikuna og því verður lítið um að vera í eldhúsinu mínu þessa daganna. Mötuneyti landspítalans mun halda í mér lífinu þessa næstu daga? Það hefur lítill metnaður verið í mér síðustu kvöld- sennilega hefur það eitthvað með það að gera að maður var í stanslausu veisluhaldi um páskana. Það var nú ekki lítið borðað af góðum mat og með því drukkin góð vín.

Ég og konan mín fórum með dóttur mína á skíði í gær - eftir skíðaferðina fórum við heim í foreldrahús þar hafði Kjartan bróðir minn eldað fyrir okkur. Hann hafði útbúið bragðgóða tómatsósu með ólívum og beikoni sem var borið fram með góðu pasta, hvítlauksbrauði og einföldu salati - afar ljúfengt hjá Kjartani ...hann er eins og restin af fjölskyldunni - metnaðarfullur í eldhúsinu - hann er þó ekki eins montinn og ég sem sett allt á netið. Kannski að hann leggi til uppskriftina að þessari ljúfu pastasósu.

Við hjónin höfum nokkrum sinnum haldið veislur á okkar heimili, afmæli, útskriftir og svoleiðis. Ég hef fengið hjálp frá pabba og mömmu þegar um stórar veislur er um að ræða og við höfum séð um mest af veitingunum, í smærri veislum höfum við hjónin nú klárað okkur sæmilega. Ég hef alltaf verið hrifnari af brauðréttum í svona veislum frekar en kökum og tertum og hef því reynt að leggja áherslu á að vera með heimagerð brauð, gott úrval af ostum og pylsur og mikið af heitum réttum - ég algerlega elska brauð og heita rétti.

Ég hef nokkrum sinnum gert þetta brauð - það byggir eins og svo oft áður á svipaðri uppskrift og ég hef oft gert áður, hlutföllin breytast ekki - bara magnið. Svo er gott að láta svo brauð hefast vel - þá verða þau létt og bragðgóð.

Fyllt veislubrauð og ólívubrauð

Fyrst er gerið vakið í ylvolgu vatni. 2-3 tsk af þurrgeri er sett í 400 ml af ylvolgu vatni og við það er bætt 30-40 gr af sykri eða 4 tsk af hunangi. Hrært vel saman og beðið þar til vatnið fer að freyða og þá er gerið tilbúið. Þá er 800-1000 g af hveiti sett í skál og við það blandað 4 msk af jómfrúarolíu og 40 gr af salti. Svo er gervatninu blandað hægt saman við og þegar vökvinn er allur kominn saman við er deigið hnoðað. Stundum þarf að bæta smávegis af vatni ef deigið er of þurrt eða hveiti er of blautt. Hnoðað í nokkrar mínútur og svo látið standa í 2 klst til að hefast. Á þeim tíma mun það tvöfaldast að stærð. fyllt brauð1

Þegar deigið hefur hefast er það barið niður og flatt út í langan - rúman meter á lengd og sirka 20 cm á breidd. Þegar svo er komið við sögu er byrjað að raða á deigið. Nú er bara að setja í brauðið það sem manni lýst best á, ég hef sett pepperoni, skinku, góða osta, þistilhjörtu, pestó, hvítlauksolíu, lauk, sveppi - bara það sem passar vel saman. Stundum hef ég haft breytilegt álegg á 25 cm millibili þannig að hægt er að fara nokkrar ferðir í brauðið og það er samt breytilegt.

Svo er deigið brotið saman og snúið í hring þannig að það passi á ofnplötu, pennslað með jómfrúarolíu, og bakað í 30-40 mínútum við 180 gráður þar til gullið og fallegt. Berist fram heitt.

 Ólívubrauðið er ekki eins glamorous og því sem lýst að ofan. Hægt er að nota sömu uppskrift af brauði og svo þegar verið er að hnoða deigið er 2 krukkum af ólífum blandað saman við. Svo er brauðinu annað hvort rúllað upp eða fléttað og ólívur settar í allar fellingar brauðsins. Bakað við 180 gráður í 30-40 mínútur þar til gullið. Borið fram með pestó og ostum.

fylltbrauð

ólívubrauð


Sunday, 8 April 2007

Foccacia fyllt með karmelliseruðum rauðlauk

Snædís konan mín gaf mér frábæra bók í jólagjöf núna síðastliðin jól. Það er bók eftir Giorgio Locatelli sem er ítalskur kokkur sem rekur veitingastað í London. Hann hefur einnig gert sjónvarpsþætti sem eru alveg þokkalegir. Bókin er miklu betri en sjónvarpsþættirnir. Bókin heitir Italian food and stories og er "auðvitað" matreiðslubók - sem leggur mikla áherslu á að fara í uppruna réttanna. Í bókinni rekur hann skemmtilegar sögur um hvernig hann lærði að elda réttina sem hafa haft áhrif á hann og eldhúsið sem hann rekur.

Það er sérstaklega gaman að lesa hvernig hann fer í gegnum hverja uppskrift og kennir manni hvernig matreiðslan, hvert skref fyrir sig, hefur áhrif á réttinn sem verið er að elda. Þessi bók er virkalega eiguleg og á eftir að verða mér innblástur áfram.

Hann fer í gegnum gerð ítalskra brauða mjög ýtarlega. Eitt af brauðunum sem hann tekur fyrir er foccacia sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan að ég sá Jamie Oliver elda það í fyrstu sjónvarpsseríu sinni The Naked Chef...meiriháttar. Georgio fyllir sitt brauð með ferskum lauk - en ég leyfi mér að breyta þessu aðeins - eldamennska gengur nú út á svoleiðis lagað!

 Foccacia fyllt með karmelliseruðum lauk.

500 gr af hveiti er sett í skál með 30 gr af salti og 3 msk af jómfrúarolíu. Svo er 300 ml af ylvolgu vatni blandað saman við 15-20 gr af geri og 30 gr af sykri. Gerinu er svo leyft að vakna í vatninu, sem sést best á því að vatnið freyðið hressilega. Þegar gervatnið er tilbúið er því síðan blandað hægt og rólega við hveitið og hnoðað vandlega saman í mjúkan deighnött. Deiginu er svo leyft að hefast í 1-2 klukkustundir eftir því sem tíminn leyfir.

 Tveir rauðlaukar eru skornir niður í sneiðar. 15 gr af smjöri ásamt smá skvettu af olíu er hitað á pönnu og svo er rauðlaukurinn steiktur rólega þar til að hann er mjúkur og glansandi. Gætið þessa að brúna ekki laukinn. Svo er hálfu glasi af rauðvíni hellt yfir og saltað og piprað. Rauðvínið er soðið nær alveg niður þannig að það rétt eymir eftir af því. Í lokin er svo 2 msk af Agave sírópi hellt yfir og steikt í smástund í viðbót - eins og áður gæta sín að brúna ekki laukinn.

Þegar deigið er búið að hefast vel er það lamið niður og flatt vel út. Karmelliseraði rauðlaukurinn er svo dreift yfir helminginn af deiginu og svo er hinn helmingurinn af deiginu breitt yfir. Pressað vel saman. Pennslað með olíu og saltað með Maldon salti. Bakað í ofni í 15-20 mínútur við 180 gráðu hita, einnig má gera tilraun og grilla á grilli eins og ég gerði í bústaðnum á fimmtudaginn en þá væri rétt að hluta foccociað niður í minni brauðhleifa svo auðveldara sé að elda það.

Þetta brauð var borið fram með Spaghetti Bolognese sem mamma útbjó - mamma gerir rosalega góða kjötsósu - kannski sendir hún mér uppskriftina þegar hún sér að ég er búinn að monta mig af henni.


Saturday, 7 April 2007

Grilluð hreindýrasteik með rauðvínssósu

Við fjölskyldan erum í sumarbústað hjá foreldrum mínum við Meðalfellsvatnið. Hérna er yndislegt að vera og veðrið lék við okkur í dag. Pabbi, Valdís og ég fórum að veiða út á bát seinnipartinn í dag fengum tvo dágóða urriða - held bara að þetta séu stærstu fiskar sem við feðgar höfum náð upp úr vatninu.

Ég og pabbi höfðum lagt línurnar fyrir kvöldið í gær og ég byrjaði að undirbúa kvöldverðinn um hádegisbilið í dag. Ákveðið var að elda hreindýrasteik. Ég fór á hreindýraveiðar með Bergþóri kollega mínum og vini síðastliðið haust og við deildum bráðinni. Ég hef ekki verið nógu duglegur að elda hreindýrið og mun reyna að bæta þar úr - byrjaði um daginn með hreindýrahamborgurunum sem voru meiriháttar.

 Grilluð hreindýrasteik með rauðvínssósu hreindýrasteik marinering

Tók klump - sem er vöðvi nokkuð vel útlítandi - sem að ég held að vöðvinn sé neðan við innra lærið. Hann er ekki fituríkur vöðvi en fallega útlítandi - kannski myndi hann henta betur sem ofnsteik en á grillið en annað kom daginn.

 Eins og ég nefndi þá byrjaði matseldin um hádegið í dag. Ég sneiddi klumpinn niður í ca 2,5 cm sneiðar og lagði í skál. Svo var sex mörðum hvítlauksrifjum, 8 msk af extra jómfrúarolíu, 2 glösum af rauðvíni, 3 cl af Larsens koníaki, laufum af fjórum greinum af fersku rósmaríni, 2 msk af timian, 1 msk af þurrkuðu óreganó, hálf handfylli af íslensku blóðbergi, Maldon salt og nýmalaður pipar. Þetta fékk svo að standa útí í vorveðrinu fram að kvöldmat. Þá var steikin grilluð á rjúkandi grilli þar til hún var miðlungssteikt.

Með þessu var ágætissósa. Ég steikti fimm smátt skorinn hvítlauksrif, 1/4 af hvítum lauk í 15 g af smjöri og 1 msk af jómfrúarolíu. Þegar laukurinn var orðin gljáandi setti ég 6 niðursneiddasveppi út í og steikti þar til þeir voru mjúkir og fallegir. Þá setti ég 800 ml af vatni útí og Oscars nautakraft skv leiðbeiningum og 300 ml af góðu rauðvíni, eina grein af rósmarín útí sem og salt og pipar og sauð í um 30-45 mínútur í opnum potti. Við þetta sauð sósan aðeins niður. Svo var smjörbolla útbúinn í öðrum potti. 30 gr af smjöri hitað í potti og smávegis af hveiti sáldrað yfir þar til að blandan verður eins og mjúkur leir. Þá er sósunni blandað varlega saman við. Við þessa meðferð þykkist sósan og verður fallega gljáandi. Þá er smakkað til og sósan djössuð til. 2 tsk af bláberjasultu bætt útí, svo 1 tsk af gráðaosti og svo ca 100 ml af matreiðslurjóma. Söltuð og pipruð eftir smekk - perfecto. kartöfluréttur

Með matnum voru grillaðar kartöflur og sætar kartöflur með rauðlauk, tómötum og sveppum. Kartöflurnar voru fyrst forsoðnar í 15 mínútur og svo flysjaðar. Raðað í álpappír með niðursneiddum rauðlauk, tómötum og sveppum. Jómfrúarolíu sáldrað yfir og saltað með Maldon salti og nýmöluðum pipar. Ferskri steinselju, timian, og hvítlauk dreift yfir. Álpappírnum svo lokað og grillað í 20-30 mínútur við háan hita. Snúið einu sinni á eldunartímanum.

Með þessu var einfalt salat. Klettasalat, flysjaðar og niðursneiddar perur, blár kastali og niðursneiddir tómatar. Dressingin var samansett úr einn hlutur jómfrúarolíu, 1/4 hlutur rauðvínsedik, 1/4 hlutur sítrónusafi, eitt mulið hvítlauksrif og smávegis af fersku dilli.

Með þessu var uppáhalds vínið mitt - Montes Alpha Cabernet Sauvignion frá 2005. Það er frá Chile og var lengi vel flutt inn í trékössum sem voru ákaflega eigulegir. Þetta er ekki alveg það besta vín sem ég hef smakkað en það er alltaf mitt uppáhald vegna þess að það var fyrsta vínið sem ég keypti sem svona "flott" vín á mínum yngri árum og það hefur einhvern veginn haldið sess sínum síðan þá. Svíkur aldrei!!!

hreindýrasteik


Thursday, 5 April 2007

Lax með pecanhnetumulningi í frábærri matarveislu

Magnús Gottfreðsson og konan hans Elín buðu okkur hjónunum ásamt öðrum til matarveislu á heimili þeirra hjóna í suðurhlíðinum. Magnús Gottfreðsson er smitsjúkdómalæknir og er jafnframt leiðbeinandi minn í sérnámi í lyflækningum og við erum einnig að vinna saman að rannsóknarverkefni.

Mér skilst að Elín eigi mestan heiður skilinn fyrir eldamennskuna, sem var framúrskarandi. Í boði var þríréttuð veisla sem ég fékk leyfi kokksins til að greina frá. Ég vona að hún lesi þetta og hjálpi mér með hlutföllinn svo hægt sé að hafa þetta eftir.

Lax með pecanhnetumulningi

Forrétturinn var tvennskonar; bæði tricolore - sem einn af mínum uppáhaldsforréttum - ferskur niðursneiddur tómatur, basillauf og niðursneiddur mozzarellaostur. Aceto di Balsamico di Modena sáldrað yfir. Yndislegt. Þessi réttur er eins góður og hann er einfaldur. Ég hef oft gert þennan rétt fyrir mína gesti og alltaf slær þessi réttur í gegn. Það er eitthvað við hvernig þessi hráefni hreinlega elska hvort annað - ef maður má orða þetta á rómantískum nótum.

Hinn forrétturinn var líka mjög góður - einfaldur og fallegur. Létt soðinn aspas - tvær til þrjár stangir í hverju búnti bundið saman með parmaskinku. Balsamik ediki var einnig sáldrað yfir - alveg ljúffengt.

Í aðalrétt var lax. Hann var hulin grænum mulningi sem samanstóð úr; pecan hnetum, basil, smjör og timian. Elín sagði mér að hún hefði sett saman ca handfylli af hnetum, handfylli af fersku basil, smá vegis af fersku timian og svo 1 msk af smjöri. Þetta var svo sett í matvinnsluvél og blandað saman. Smurt yfir laxinn sem var bakaður í 180 gr heitum ofni í 15 mínútur. Hver portion af pecanhnetumulningi dugði á eitt laxaflak.  Þetta var delisíus!!

Með þessu var svo græn sósa sem innihélt m.a. capers, basil, hvítvín og fleira. Elín sendi mér á vefnum uppskriftina að þessari sósu sem er á þessa vegu. Fimm handfylli af spínati og 2 smátt skornir skalottulaukar eru hitaðir í góðri slettu af hvítvíni á pönnu. Þegar spínatið fer að mýkjast er 2 bollum af rjóma bætt út og safa úr einu lime. Soðið saman í 10 mínútur. Þá er hráefnið sett í matvinnsluvél og maukað. Sett aftur í pottinn og kryddað með hvítum pipar, smakkað til með hvítvíni og limesaga og þvínæst er hálfri krukku af capers bætt saman við. Þessi sósa er ævintýralega góð - eiturgræn og bragðgóð. Á eftir að herma eftir henni Elínu með sósuna.

 Elín hafði séð ílangar kartöflur í Hagkaup sem voru bornar fram í hýðinu, hristar saman eftir suðu með jómfrúarolíu og fersku dilli. Einnig var borið fram ferskt salat; klettasalat, kirsuberjatómatar og fetaostur. 

Með þessu var drukkið fyrirtaks franskt Chablis hvítvín og svo Rosemount Chardonnay. Ljúfengt.

Boðið var upp á dýrindisköku með kaffinu. Þetta var baka með jarðaberja og rabbarafyllingu og svo mjúkt marens lagt ofaná. OMG. Fyrst er að gera botninn. 150 grömm af smjöri, 4 dl af hveiti og 2 msk af vatni er hnoðað saman og þrýst í botninn á formi og forbakað í 15 mínútur við 200 gráður. Svo er fyllingin útbúinn. 200 gr af marsipan er rifið niður og sett í botninn á bökubotninum. 600 gr af rababara er settur í pott með 1/2 dl af sykri og soðið saman. Hellt yfir marsipanið. Nokkur niðursneidd jarðarber sett yfir. Yfir þessa fyllingu er sett marenstoppur. 2-3 eggjahvítur með 1 1/4 dl af sykri eru stífþeyttar saman. Þessu er svo dreift yfir fyllinguna og möndluspæni stráð yfir marensinn. Kakan er svo bökuð við 150 gráðu hita í 20-30 mínútur. Borið fram með þeyttum rjóma og góðu kaffi. Aftur...delisísus.


Tuesday, 3 April 2007

Sjávarréttapasta á þriðjudagskvöldi

Var á vakt í gærkvöldi - landspítalinn bauð upp á sinn hefðbundna mötuneytismat sem er eldaður fyrir 2000-5000 þúsund manns. Hver á von á góðu þegar svo er. Maður sér þetta hálfpartinn fyrir sér - kokkurinn (eða bara starfsmaðurinn) stendur fyrir framan mörghundruðlítra sósupott, smakkar aðeins til, finnst eitthvað vanta, og bætir svo við 5 kg af sósukraft eða salti eða einhverju. Ekki beint girnileg nákvæmniseldamennska. Þetta fær mann til að elska skyr, salatbarinn (sem er allaf eins - amk síðastliðinn 4 ár) og auðvitað júmbó samlokur. Borðaði hrökkbrauð með osti í kvöldmat í gær og fannst í staðinn að ég ætti eitthvað gott inni á móti í kvöld.

Ég var að spá í að ofngrilla einhvern hvítan fisk með kartöflum og fersku salati en þegar komið var í fiskbúðina kom í ljós að ég hafði gleymt veskinu mínu einhversstaðar. Það var því ljóst að eitthvað annað þyrfti að vera í matinn í kvöld.

Þetta reyndist verða en besta ískápsredding í háa herrans tíð. Ég átti til dálítið af ágætum smárækjum í frystinum og það var grunnurinn af matnum.

 Sjávar(rækju)réttarpasta á þriðjudagskvöldi.

Tveir litlir skarlottulaukar voru skornir niður smátt ásamt fjórum hvítlauksrifjum og hitaðir á pönnu í ca. 15 gr af smjöri og 2 msk af hvítlauksolíu. Þegar laukurinn og hvítlaukurinn var farinn að glansa var 5 niðursneiddum sveppum bætt á pönnunna og steiktir í smástund. 1 glas af hvítvíni bætt á pönnunna og soðið aðeins niður. 50-70 ml af rjóma er hellt útá og ca 2 glösum af vatni bætt útá og suðunni leyft að koma upp. Saltað aðeins og piprað. Svo var 1 1/2 msk af humarsoðskrafti bætt útá og soðið áfram í nokkrar mínútur. Því næst var 3 tsk af niðurskorinni ferskri bergmyntu bætt út í, sem og 1 msk af rjómaosti. Soðið áfram niður. Þegar 3-5 mínútur voru eftir af eldunartímanum var rækjunum bætt við og leyft að sjóða með í nokkrar mínútur (ekki mikið meira en 3-5 mínútur - annars verða rækjurnar seigar). Sósan var svo þykkt með maizenamjöli og afgangi af gratínosti sem ég átti til inni í ísskáp. Saltað og piprað eftir smekk.

Á meðan var 350 gr af de Cecco penne pasta soðið í miklu söltuðu vatni. Þegar pastað var tilbúið - al dente - var vatninu hellt frá og sósunni blandað saman við. 4-5 tsk af saxaðri ferskri basil sáldrað yfir og borið fram með heimagerðu ólívubrauði sem hafði verið grillað í ofni með hvítlauksolíu og osti.

Sökum leti var ekkert salat með matnum. En afraksturinn var engu að síður ljúffengur.


Monday, 2 April 2007

Grillaðar pizzur fyrir verðandi sálfræðinga

Konan mín bauð samnemendum sínum í cand.psych námi í partí í gærkvöldi. Hún bað mig að vera með pizzuveislu fyrir gestina - sem var alveg sjálfsagt.

Ég hafði ráð á því að undirbúa deigið fyrr um daginn. Þannig fékk það að hefast vel og verða mjúkt og meðfærilegt. Það passar vel þegar það þarf að gera þunnbotnapitsur sem eiga að fara á grillið. Ég notaði pizzagrilldisk sem er teflonhúðuð plata með götum á. Ég hef gert þetta nokkrum sinnum áður og þetta er langsamlega besta leiðin til að gera pizzur.

Það að grilla pizzurnar er eins nálægt því og það verður að eldbaka eins og þeir gera á Eldsmiðjunni - sem eru án efa bestu pitsur bæjarins. Eini gallinn við að elda pitsur á grilli eru afköstin. Ég á talsvert stórt grill þannig að ég get komið 2 tólftommu pitsum fyrir á grillinu. Það er hinsvegar betra að vera bara með eina á í einu og þá getur maður slökkt undir öðru megin og fengið svona hitahringrás á grillið.

Þetta gekk samt furðuvel og ég held að ég hafi búið til allavega 10-12 flatbökur ofan í mannskapinn. Gat ekki betur séð en að þær runnu ljúflega niður.

Ég gerði deig úr rúmlega 2 kg af hveiti - það var allt allt alltof mikið og átti ég afgang í dag bæði til að búa til 20 bollur og ólívubrauð. Ekki sem verst. Ég hef nýlega sett inn uppskrift af pitsabotni en læt hann flakka enn og aftur.

 Grillaðar pizzur fyrir verðandi sálfræðinga

Útí 250 ml af ylvolgu vatni er sett 2 tsk þurrger og 30 g af sykur eða hunangi . Blanda saman vatninu, gerinu og sykri (eða hunangi) saman og leyfi gerinu að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur svona 10-15 mín. 500-700 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olían blandað saman við. Mikilvægt er að leyfa gerinu að vakna vel og rækilega og ekki setja saltið þarna úti - þar sem saltið hamlar aðeins gerjunarferlinu. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hræra deigið vel - þannig hefast það mikið betur og bragðast líka betur. Ég vil að deigið dúi vel undan fingri og þegar áferðin er þannig að deigið jafnar sig hratt þegar maður ýtir fingri í það breiði ég viskastykki yfir skálina og leyfi að hefast - eins lengi og maður hefur tíma. Deigið er nóg í tvær pizzur.

Ég notaði eins og svo oft áður Hunt roasted garlic tomatosauce - nennti ekki að gera mína eigin sósu - þó að það sé auðvelt.  Eins og ég sagði áðan gerði ég rúmlega 10 pitsur - enginn eins, nokkrar bara klassískar en sumar nokkuð frumlegar!

Pizza wakey, wakey - eggs and bakey - Þessi var með eggjum og beikoni - ég braut bara 3 hrá egg á pitsuna, stráði osti svo í kring og setti svo beikon ofan á. Ég er sannfærður um að svona pitsa hljóti að hafa stuðlað að því að þynnkan var í lágmarki í morgun - svona þynnkumorgunverðar-forvörn í pizzuformi.

Sexostapizza-  sérstaklega ljúfeng - en öllu má ofgera - það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að oftast er það bara fjögraostapitsa. Þessi var með Mozzarella, gouda, rjómaosti, parmesan, gullosti og gráðaosti - ekki hægt að borða nema eina litla sneið af þessari - hún er svo rich.

Pizza carnivore - Nautahakk, skinka, og beikon - hefði ég átt pepperoni hefði það fengið að fljóta með líka - þessi var sérstaklega fyrir strákana.

Pizza neuvo quattro staggioni - skinka, kúrbítur, capers, sveppir (og smá gráðaostur - þannig að þetta er í raun ekkert quattro neitt!)

Pizza mexicana - Nautahakk, paprika, gular baunir. Hefði einnig sett jalapeno hefði ég átt það til.

Svo voru hinar bara ósköp venjulegar - en þær voru líka alveg ljúfengar.

Svili minn kom í heimsókn í dag og stakk upp á þeirri hugmynd að setja viðarbita til að fá svona smokey bragð. Frábær hugmynd - ég á til Jack Daniels - hickory chips. Þetta eiga vera vískítunnur sem hafa verið hakkaðar niður - hef notað þetta nokkrum sinnum áður og það kemur "smokey" bragð af matnum. Þessir viðarbitar eru pakkaðir inn í álpappir með smávegis vatni og svo er álpappírinn gataður þannig að það myndist reykur. Geri þetta næst.