Náði að elda eiginlega í fyrsta skiptið í vikunni. Ég sakna þess þegar ég næ ekki að elda reglulega. Veit fátt betra en að slappa af með hníf í annarri og pönnu í hinni. Dóttir mín sat og málaði á meðan og sonurinn lék á alls oddi við að herma eftir öllu sem fyrir augu hans bar. Gott kvöld. Þurfti þó að vera mættur í vinnuna kl 21. Kvöldið hefði auðvitað mátt vera lengra.
Uppskriftin sem þessi réttur er byggður á er fengin úr bókinni The Silver Palate - ég hef áður sagt frá þessari matreiðslubók - en hún er alveg frábær - ætti eiginlega að vera skyldueign allra áhugakokka. Mamma hefur mikið stuðst við þessa bók og stundum lánað mér hana, en seinast þegar ég pantaði bækur á netinu kippti ég henni með - gat eiginlega ekki verið þekktur fyrir annað en að eiga þessa bók. Á sama tíma fékk ég mér nýju Jamie Oliver bókina, Cook, nýju Nigellu bókina - Feast og svo eina bók frá dömunum á River Cafe. Þessar fjórar hafa verið á náttborðinu mínu síðustu vikurnar og hef ég gluggað aðeins í þær fyrir svefninn - tryggir ljúfenga drauma. En hvað um það.
Þessa uppskrift hef ég aldrei gert áður. En eftir lesturinn var alveg ljóst að þennan varð að reyna. ég átti ekki alveg sömu hráfefnin og nefnd voru í uppskriftinni og breytti aðeins hlutföllum eftir mínum smekk - er þetta þá ekki orðið að nýrri uppskrift . Var eitthvað að reyna að leita að uppruna þessa réttar á netinu - hann er með svo flott nafn - en fann eiginlega ekki neitt.
Monteray kjúklingur með steinseljuhrísgrjónum
1,5 kg af kjúklingabitum (eða stór kjúklingur hlutaður niður) er þveginn og þurrkaður og lagður á disk. Saltaður og pipraður á báðum hliðum. 3 msk af jómfrúarolíu er hituð á pönnu eða í stórum potti og kjúklingurinn svo lagður á pönnuna. Mikilvægt að brúna ekki kjúklinginn heldur bara þannig að hann taki gullinn lit. Það ætti ekki að taka nema 4-5 mínútur á hvorri hlið. Svo er kjúklingurinn settur til hliðar. 1 smátt skorinn hvítur laukur, 3 niðursneiddar gulrætur og 5 smátt skorinn hvítlauksrif eru sett útí heita olíuna - hitinn er lækkaður - eiginlega niður í botn - og svo fær grænmetið að krauma í olíunni í 15-20 mínútur. Ilmurinn verður eiginlega sætur og alveg dásamlegur.
Að 20 mínútum liðnum er 1 1/2 bolla af kjúklingasoði (ég átti heimagert í frystinum - sem er alltaf 100x betri en það sem maður býr til úr tengingum - en teningarnir eru alveg okei). 2/3 bolla af ferskum appelsínusafa og 2/3 bolla af hökkuðum niðursoðnum tómötum. Kryddað með salti og pipar og 1 tsk af þurkkuðu rósmaríni bætt útí. Suðunni er leyft að koma upp og svo er þetta látið krauma í 15 mínútur án pottloks þannig að það sjóði aðeins niður. Þá er kjúklingum bætt aftur útí og leyft að krauma í 25 mínútur.
Þegar um 15 mínútur eru eftir af eldunartímanum er grænmetið sem á að fara í réttinn undirbúið. Ein rauð paprika er hreinsuð að innan og sneidd í strimla (julienne) og steikt á pönnu í 2 msk af olíu. 1/2 niðursneiddur kúrbítur og 2 litlar niðursneiddar (og flysjaðar) sætar kartöflur er svo bætt útí og steikt á miðlungs hita þar til það er orðið mjúkt en heldur ennþá lagi sínu - tekur um 7-10 mínútur. Bætt útí pottréttinn og látið sjóða áfram í 5 mínútur með lokið á.
Pottrétturinn er svo færður yfir í skál og börkur (zest) af einni appelsínu - smátt skorinnu - dreift yfir ásamt 1/2 búnti af smátt skorinni steinselju.
Með þessu sauð ég hrísgrjón - notaði basmati hrísgrjón sem ég sauð skv. leiðbeiningum nema hvað ég setti einn tening af grænmetiskrafti í vatnið og smá jómfrúarolíu. Þegar hrísgrjónin voru tilbúin af 1/2 búnt af smátt skorinni ferskri steinselju bætt útí og hrært vel saman við.
Þessi réttur var alveg ljúffengur - höfundar The Silver Palate svíkja mann aldrei - eina sem vantaði var að fá sér smá rauðvín með þessu - það hefði verið fullkomið - en skyldan kallaði.
No comments:
Post a Comment