Tuesday, 20 March 2007

Grænmetissúpa með heimagerðu brauði

Snædís, konan mín, eldaði í kvöld. Eins og ég hef áður sagt þá er hún frábær kokkur og sannaði það enn og aftur í kvöld með þessari máltíð. Ólíkt sjálfum mér, þá er konan mín, afar hrifinn af súpum. Af einhverri ástæðu þá lýst mér aldrei vel á að elda súpu, eða láta elda súpu fyrir mig. Mér finnst súpa, svona theorítískt, aldrei vera máltíð - en svo þegar ég fæ súpu er ég alltaf ferlega glaður. Mér finnst súpa þegar hún er kominn á borðið fyrir framan mig nær alltaf vera góð máltíð. Kvöldið í kvöld hentaði sérstaklega vel fyrir heita súpu og heimagert brauð. Dökkt yfir öllu, rigning eða snjókoma, og ilmurinn af nýbökuðu brauði og heitri súpu fyllti íbúðina. Það var gott að koma heim úr vinnunni í dag!

Grænmetissúpa með heimagerðu brauði

Fyrst var 2 msk af þykkri hvítlauksolíu hituð í potti og einn smátt skorinn rauðlaukur, 1 niðurskorinn kúrbítur, 2 niðurskornar gulrætur, 1 stöng a1f niðurskornu sellerí steikt í olíunni. Á meðan var 1 1/2 líter af kjúklingasoði útbúinn úr teningu. 1 dós af hökkuðum niðursoðnum tómötum var bætt við soðið og látið sjóða upp. Svo voru tómatarnir hakkaðir niður í soðinu með töfrasprota. Svo var þessu blandað saman við steikta grænmetið. 1 lítil flysjuð og niðurskorinn sæt kartafla og þrjár venjulegar niðurskornar kartölfur bætt útí súpuna. Kryddað með salti og pipar. 1/2 búnt af ferskri steinselju, 1 tsk þurrkuðu basil, smá season all, hvítlaukssalt og 1 glas af rauðvíni. Látið sjóða í eina klukkustund. Í lokin var bætt út 2 msk af rjómaosti og svo 100 ml af léttmjólk.

Með þessu var heimagert gróft brauð. 300 gr af heilhveiti, 200 gr af rúgmjöli, 100 gr af spelti, 50 gr af hveitiklíði, 150 gr af haframjöli var blandað saman í skál. Svo var 1 1/2 tsk lyftiduft bætt við, 3 tsk af Maldon salti, 3 msk af hlynssírópi, 3 msk jómfrúarolíu. 1 1/2 dl af súrmjólk og léttmjólk þar til þetta verður að þéttu, klístruðu deigi. Í lokin var svo bætt handfylli af haframjöli til að bæta á grófaleika brauðsins. Þetta var svo fært yfir í smurt form og bakað í 180 gráðu heitum ofni í 20 mínútur, að þessum tíma liðnum er brauðinu snúið í forminu og bakað í 20 mínútur.

Borið fram með smjöri, brauðosti, blárri dalayrju og franski pylsu. Með þessu var drukkið Anakena rauðvín frá Chile. Afar ljúffengt.


No comments:

Post a Comment