Monday, 26 March 2007

Grillað lambafille með Pecorinokartöflugratín og sveppasósu

Þetta er búið að vera mikil veisluhelgi. Það má eiginlega segja að ég hafi verið í eldhúsinu allan sunnudaginn. Byrjaði um morguninn með dóttur minni en ég var búinn að lofa henni að gera muffins með hvítu kremi. Þetta var voðalega gaman hjá okkur - mesta furða að eitthvað hafi komist í ofninn - okkur fannst deigið svo gott á bragðið. En það hafðist nú. Ég hef áður sett þessa kökuuppskrift á netið - súkkulaðikakan hennar mömmu - nema hvað núna var hún sett í muffinsform og bakað í 15-20 mínútur. Valdís var afar sátt sem og sonur minn - þau borðuðu muffins með bestu lyst.

Bjössi, Unnur, Börkur og Hjördís komu í kvöldmat og það er langt síðan að við borðuðum saman síðast. Við lögðum eiginlega í púkk við innkaup í matinn og vorum ansi flott á því. Var með grágæsarbringur carpaccio með heimagerðu baguette í forrétt- hef áður bloggað þennan rétt.

Uppskriftin var eitthvað á þessa leið; Grágæsarbringa er hreinsuð og lögð í extra virgin ólífuolíu, hvítlauksrif (bara nóg - more the merrier) kreist yfir, fersk bergmynta (oregano - en þurrkuð gengur líka - þar sem oregano er ein af fáum kryddjurtum sem heldur bragði sínu við þurrkun), ferskt timian, söxuð steinselja, Maldon salt og nýmalaður pipar. Þetta er sett í gott ílát og geymt í ísskáp helst yfir nótt. Panna er hituð - þannig að það rjúki af henni - og bringunni velt yfir pönnuna þannig að hún brúnist aðeins á hverri hlið. Þetta á bara að taka augnablik þar sem hugmyndin er ekki að elda bringuna að neinu ráði. Bringan sett til hliðar og fær að hvílast í augnablik. Bringan er skorin í mjóar sneiðar og lagt á matarfilmu og önnur matarfilma lögð yfir. Bringan er pressuð vel með hendinni þannig að stærð hennar nær tvöfaldast. Sneiðarnar eru lagðar á disk og skreytt með ferskum kryddjurtum, ristuðum furuhnetum og spekkaðar með marineringsleginum. Hann heppnaðist mjög vel - breytti aðeins út af og stráði bláberjum yfir niðurskorna bringuna - ljúfengt.

Grillað lambafille með Pecorinokartöflugratín og sveppasósu

Það er nú varla hægt að kalla það svo að ég hafi eldað lambafille - það þarf lítið að gera fyrir gott lambakjöt. Saltaði kjötið með Maldon salti og muldi yfir nýmöluðum pipar. Grillað á heitu grilli - Notaðist bara við hitamæli og það stýrði eldunartímanum - þegar hitinn náði 62 gráðum - var maturinn borinn fram.

Með þessu var ágætis sveppasósa. 4-6 smátt skorinn hvítlauksrif , 1 smáttskorinn rauður laukur og 15 niðurskornir sveppir voru steiktir upp úr 10-15 gr af smjöri og smávegis af jómfrúarolíu. Þegar þetta var orðin mjúkt var þetta saltað aðeins og piprað. 1,5 L af vatni var bætt saman við, Oscars lambakraft miðað við vökvamagn og soðið niður í 1 klst. Svo var sett útí 1/3 af gráðostsfleyg, 1 msk títuberjasulta, 100 ml af rjóma, 1 glas af rauðvíni og saltað og piprað eftir smekk. Soðið áfram þar til þetta fór að þykkna. Þurfti að setja aðeins maizenamjöl til að fá rétta þykkt á sósuna.

Bjó til kartöflugratín - það er langt síðan að ég hef gert svoleiðis. Flysjaði 15 meðalstórar kartöflur og sneiddi í skífur. Pennslaði eldfast mót með jómfrúarolíu, raðaði svo kartöflunum í mótið. Yfir þetta var hellt 1/2 L af matreiðslurjóma. 4 tsk af rjómaosti var sett ofan á og svo 1/2 tsk af múskati. 3 hvítlauksrif voru niðursneidd og raðað með. 50 gr af Pecorínóosti, þessi ostur er fremur saltur harður ostur - útlit ekki ósvipað parmesan, var svo raspað yfir. Bakað í 35 mínútur við 180 gráðu hita.

Bjó til salat með matnum. Salatblanda - svona friseblanda - var lagt á flatan disk. Niðursneidd pera var lagt ofan á og svo grillaður kúrbítur. Svo var nokkrum flísum af gullosti lagt á kúrbítinn og ristuðum graskersfræjum sáldrað yfir.

Með þessu var dreypt á Montes Alpha Cabernet Sauvignion 2003 - sem er eitt af mínum uppáhaldsvínum. Ljúffengt og passaði vel með matnum.

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment