Dóttur minni finnst ákaflega gaman að hjálpa mér í eldhúsinu. Sérstaklega hefur hún gaman af því að hjálpa mér að baka. Í kvöld á meðan ég var að undirbúa matinn fékk hún að leika sér við baksturinn. Hún er 6 ára gömul og lék sér að þessu - eina sem ég gerði var að segja henni hvað mikið af hinu og þessu átti að fara í brauðið. Við ákváðum saman að gera hvítt formbrauð - gerum kannski næst heilhveitibrauð. En þetta var svo einfalt að hún lék sér að þessu - og brosti út af eyrum.
2 tsk af geri er vakið í 300 ml af volgu vatni. 3 tsk af sykri er bætt saman við og gerið er vakið í sykurvatninu. 500-600 gr af hveiti er sett í skál, 2 tsk af salti og svo 2 msk af olíu. Gerinu er svo bætt hægt og bítandi á meðan hveitinu er hrært. Þegar deigið er orðið fallegt og mjúkt er það látið hefast í 45 mínútur. Svo er deigið lamið niður og flatt aðeins út, rúllað upp og sett í form og látið hefast í 30 mínútur á meðan ofninn er að hitna. Bakað í 30 mínútur við 200 gráðu hita.
P.s. Þetta brauð heppnaðist alveg rosalega vel. Dóttir mín var ákaflega stolt. Ég rifjaði upp ferð okkar hjóna til Nizza Monferato í Piemonte héraði í Norður Ítalíu. Þar bjó vinafólk okkar og var að reyna fyrir sér í víngerð - við fórum oft á fallegt kaffihús við aðaltorg þessa litla bæjar og ég fékk mér nokkrum sinnum samloku - panini e mozzarella, pomodore, basilico - kalde. Ég reyndi að herma eftir og fékk mér samloku (úr Valdísarbrauði) í grilli með mozzarellasneiðum, tómat og basil, salti og pipar. Eina sem vantaði var Spumante og tvöfaldur expresso. Magnifico
No comments:
Post a Comment