Er ansi ánægður með afrakstur eldhúsins í kvöld. Eina sem ég þurfti að kaupa inn í dag var 2 dósir af hreinni jógúrt - annað var eldað út úr skápunum...og ég náði að elda þennan mat á 45 mínútum (frágangur mun sennilega taka lengri tíma-dow!!!). Okkur hjónunum þykir indverskur matur ákaflega góður. Elda hann alltof sjaldan - á oft í erfiðleikum með að slíta mig frá ítalska matnum (sem er eiginlega bara ýsa og kartöflur okkar kynslóðar).
Maður þarf að eiga svolítið af kryddi í skápnum til að gera indverskan mat - það er gott að fara í matreiðslubækur og oft á fyrstu síðunum er listi yfir krydd sem gott er að eiga. Þetta eru þó nokkrar krukkur til viðbótar í skápinn en þetta geymist von úr viti - þannig að þetta er góð fjárfesting. En betra er að kaupa fræ - þau munu geymast en lengur en muldar kryddjurtir. Mörg indversk krydd eru kryddblöndur (masala = blanda) og eru mörg hver ansi góð þó fátt sé betra en að búa til sín eigin í morteli.
Indversk innblásin lambabollukássa með nanbrauði og haldi-basmati.
500 gr af lambahakki, 1 brauðsneið, tætt, 1/3 búnt steinselja, 1 tsk kóríander duft, 1 tsk paprikuduft, 1 tsk garam masala, 1/2 tsk túrmerik, salt, pipar, 1 egg, 1 smátt saxaður laukur, 5 söxuð hvítlauksrif er blandað saman og hnoðað í kjötbollur (golfboltastærð).
Olía hituð á pönnu og smávegis túrmerik, kóríanderduft og papríkuduft hitað í olíunni. Bollurnar steiktar báðu megin.
Sósan er útbúin á þann hátt að smávegis olía er hituð í potti og 4 söxuð hvítlauksrif, 1 tsk túrmerik, 1 tsk kóríander duft, 1 tsk paprikuduft, 1/2 tsk kúmenduft og smávegis hvítlauksduft er hitað í olíunni. Svo er 2 niðursneiddum laukum (í laukhringjum) bætt við og þeir steiktir þannig að þeir taki aðeins lit. Svo er einni dós af hökkuðum tómötum, 1 dós af hreinni jógúrt bætt út í. Saltað og piprað eftir smekk. Lambabollunum bætt útí og öllum vökva af pönnunni. Blandað vel saman. Oft verður svona kássa aðeins súr á bragðið vegna niðursoðnu tómatanna og jógúrtarinnar og þarf því að sæta aðeins með annað hvort sykri eða bara smá tómatsósu (maður er ekkert verri kokkur fyrir vikið). Látið malla aðeins á meðan restin af matnum er undirbúinn.
Best er að byrja á nanbrauðinu. 500-600 ml af hveiti er sett í skál, smávegis af fínu salti og svo 2 msk af olíu. 3 tsk sykri er leyst upp í volgri mjólk og svo er gerið sett saman við og vakið í mjólkinni. Mjólkurgerblöndunni er svo blandað saman við hveitið og hrært saman. um 200 ml af Ab mjólk (eða jógúrt, eða fiftyfifty mjólk og Ab mjólk) hrært saman við og smávegis mjólk. Deigið er hnoðað þar til það verður mjúkt og meðfærilegt og hætt að klístrast við hendurnar á manni. Látið hefast í 30 mínútur (lengur ef það er hægt). Smábitar eru svo klippnir af deiginu og flattir út með fingurnum í lófastórar þunnar kökur sem eru pennslaðar með smávegisolíu og saltaðar með Maldon salti og svo þurrsteiktar á heitri grillpönnu.
Basmati hrísgrjón eru soðin eftir leiðbeiningum. Þegar þau eru til er vatninu hellt frá. Svo er 1-2 tsk af olíu af hituð á pönnu og 1 tsk haldi (túrmerik - aðeins að láta þetta hljóma flottar) og 1/2 tsk paprikuduft hitað á pönnunni og hrísgrjónunum svo skellt á pönnuna. Þau munu öll verða fallega gul. Ég bætti svo handfylli af rúsínum og smávegis af hálfum cashew hnetum saman við og steikti í smástund.
Þessi máltíð heppnaðist afar vel - verður án efa elduð aftur. Kássan var alls ekki sterk á bragðið og dóttir mín, sem er sex ara, og vinkona hennar voru mjög hrifnar af matnum.
Sæll.
ReplyDeleteHvað er mikið af geri í Nanbrauðinu?
Sæl Kristrún
ReplyDeleteEf þú ert að nota þurrger ætti 2,5 kúfaðar teskeiðar af geri að vera feikinóg. Setja í volgt vatn með smá sykri/sírópi.
Gangi þér vel!