Wednesday, 21 February 2007

Gufusoðin bleikja með grænmeti





Þessi uppskrift er að nokkru leiti fengin úr bók Rick Stein - Seafood. Rick Stein er breskur kokkur sem fyrir 30 árum síðan stofnaði fiskveitingahús í Padstow í Bretlandi. Hann varð fljótt afar vinsæll og vinsældir þessa veitingastaðar leiddu til þess að hann opnaði fleiri veitingastaði, gistihús og matreiðsluskóla. Hann byrjaði fyrir nokkrum árum í sjónvarpi og hefur gert nokkrar frábærar sjónvarpsseríur og gefið út nokkrar matreiðslubækur - sem ég á eitthvað af. Hann hefur verið með þætti sem leggja áherslu á sjávarfang en seinustu ár hefur hann verið að ferðast um Bretland og kynna breska matargerð - sem mörgum finnst ansi fátækleg - en er í raun alveg mögnuð. Eins og þið heyrið - þá fíla ég þennan kokk alveg í ræmur.

Bókin Seafood fjallar um hvernig umgangast á sjávarfang - hvernig á að verka það og svo fylgir fjöldinn allur af uppskriftum. Auðvelt er að læra hvernig á að matreiða fisk, ég hef gert nokkrar uppskriftir úr þessari bók og þær eru allar ofboðslega góðar.

Gufusoðin bleikja með grænmeti.

 

Fyrst voru 4 litlar gulrætur flysjaðar og niðursneiddar, svo 2/3 kúrbítur skorinn niður í sneiðar og svo í fernt, 1 rauðlaukur skorinn í sneiðar og svo 3 sellerí stangir í bita. Fyrst voru 5 smátt söxuð hvítlauksrif hituð í 10 gr af smjöri og olívuolíu og þegar hann var farinn að steikjast var grænmetinu skellt útáf. Steikt í smástund þar til það var gljáandi og þá var 1 glasi af góðu hvítvíni (Alsace - Gentil Hugel) sett útá grænmetið og soðið niður. Svo var 500 ml af kjúklingasoði hellt yfir. Saltað og piprað og soðið nær alveg niður - þannig að vökvinn rétt umlyki grænmetið. Svo er fjórum silungsflökum ca 120 gr hvert raðað ofan á. Saltað og piprað og niðurskornum basillaufum dreift yfir. Lækkað undir hitanum og látið malla (simmer) í ca 7-10 mínútur með lokið á - eða þar til bleikjan er tilbúinn. 

Þá er bleikjan lögð á diska og smávegis af ferskum sítrónusafa er kreist yfir. Þvínæst er örlítil smjörklípa (10 gr) sett útí grænmetið/soðið á pönnunni og hitað hratt upp aftur. Við þetta þykkist sósan og verður gljáandi og falleg.

Grænmetinu og sósunni er síðan dreift yfir fiskinn og er þetta borið fram með hrísgrjónum og smábrauðhleif.

Þetta er ákaflega góður réttur - eiginlega það góður að það mætti alveg bera hann fram sem aðalrétt í matarboði og allir væru glaðir.
Njótið vel! 

No comments:

Post a Comment