Eins og komið hefur fram í færslu frá því í gær var ég með matarboð í gær - var með þríréttað. Er búinn að blogga um aðalréttinn og eftirréttinn. Forrétturinn að þessu sinni var nýr á nálinni. Ég hef verið að fylgjast með tveimur skandinavískum kokkum upp á síðkastið. Þau eru norðmaður að nafni Andreas Viestad og svo sænsk kona að nafni Tina Nordström. Þetta eru þekktir sjónvarpskokkar. Fyrir nokkrum árum hófu þau sjónvarpsseríu sem fjallar um New Scandinavian cooking - fara í nýjar áttir með gömlu góðu hefðirnar. Ég hef séð nokkra af þessum þáttum á BBC food og þeir eru afar áhugaverðir.
Ég sá Andreas Viestad elda þennan forrétt við bakka einhverrar laxár í Noregi - mjög intressant réttur. Það er talsvert síðan að ég sá þáttinn þannig að ég man ekki alveg hvað hann gerði en ég held að ég sé nokkurn veginn á réttum nótum. Hann notaði Lyngon ber - sem maður getur ekki nálgast nema í sultuformi - ég held að þau séu nokkuð lík ferskum trönuberjum. Hvað um það - ég notaði rifsber í staðinn.
Ferskt og reykt Laxacarpaccio með rifsberjum og chilli
350 gr af ferskum laxi (helst villtum náttúrulega - en ég keypti sjóalinn eldislax) er skorinn niður í næfurþunnar sneiðar og lagður á flatan disk sem hefur verið pennslaður með jómfrúarolíu og smávegis af Maldon salti dreift yfir. Safi úr 1 sítrónu og 1 limealdin er hrærður saman og laxinn er pennslaður með safanum (sýran eldar í raun fiskinn og maður sér hvernig hann breytir um lit eftir nokkrar mínútur. Reyktum lax (sem tengdafaðir minn veiddi í sumar) var einnig skorinn í þunnar sneiðar og lagður með ferska laxinum. Svo var fínt saxaðri steinselju sáldrað yfir og svo smátt söxuðum chilli. Því næst var rifsberjum dreift yfir.
Borið fram með crema de balsamico og heimagerðu hvítlauksbrauði.
No comments:
Post a Comment