Sunday, 28 January 2007

Í sumarbústað foreldranna - pabbi eldar og eldar

Foreldrar mínir keyptu sér sumarbústað fyrir rúmum 6 árum síðan. Ég held að það sé besta fjárfesting sem þau hafa gert. Bústaðurinn er á Grjóteyrartanga við Meðalfellsvatn - sem er eiginlega vin rétt hjá höfuðborginni. Hérna höfum við fjölskyldan oft varið frábærum helgum með foreldrum mínum þar sem þau galdra fram stórkostlega rétti. Hér var á árum áður alltaf galdraður fram náttverður (nattemad) fyrir svefninn - pate og sultur með grilluðu brauði - sú hefð hefur að mestu lagst af þar sem við erum farin að borða kvöldmat svo seint á kvöldin.

Núna var faðir minn eins og svo oft áður við grillið og útbjó girnilega rétti. Þau hjónin slá aldrei slöku við í matargerðinni.

Í forrétt var hörpuskel sem var vafin parmaskinku og grilluð á heitu grilli og einnig nokkrir humrar sem voru penslaðir með hvítlauksolíu og grillaðir eins og hörpuskelin. Bæði hörpuskelin og humarinn voru að auki smurðir heimagerðu pestói. Forrétturinn var borin fram á beði af klettasalati og með grilluðu sveitabrauði. Algerlega dásamlegt. Pabbi fær 10 í einkunn fyrir forréttinn.

Ekki gekk þeim gamla verr með aðalréttinn. Ekki var feilnóta slegin þar heldur.  Elduð var nautalaund og lambainnralæri. Nautalundin var söltuð og pipruð og síðan pensluð með Dijon sinnepi. Fékk að liggja við herbergishita í sinnepsbaði í rúmar 2 klukkustundir. Á sama tíma var lambið undirbúið, sem var marinerað í olíu, sítrónusafa, hvítlauk og lambakryddi frá Jónasi í gallerí Kjöt (mér finnst alltaf fremur slappt að kaupa tilbúnar kryddblöndur - en þessi var ansi góð). Kjötið var því næst grillað þar til það var medium rare (kokkar tala um að það sé hægt að elda kjöt á þrjá vegu; rare, medium rare og ruined).

Með þessum mat var boðið upp á þrennskonar meðlæti. Tvö salöt, annars vegar bláberjasalati sem ég útbjó. Salatið var gert á þá vegu að klettasalat var lagt á flatan disk (ég er afar hrifinn af því að hafa salat á flötum disk - þá er það bæði fallegra á að horfa og jafnframt dreifist dressingin jafnt á salatið en safnast ekki bara á botninn eins og gerist svo oft þegar salat er borið fram í skál). Ofan á klettasalatið lagði ég íslenskan mozzarella ost (sem er oft frekar bragðlaus og krefst eiginlega þess að dressing sé útbúin með). Hellti smávegis jómfrúarolíu yfir, svo svo rauðvínsediki (ætlaði að nota balsamico - en það var því miður búið - but so what) og niðursneiddan graslauk, salt og pipar. Svo skar ég niður tvo plómutómata og stráði síðan bláberjum yfir salatið.

Hitt salatið var gert á þann hátt að þrír  tómatar voru niðurskornir sem og 2 rauðlaukar. Settir í skál og kryddaðir með nokkrum niðurskornum graslauksstönglum, 3 msk af olíu, 1/6 búnt af steinselju, 1 hvítlauksrif, safi af 1/2 sítrónu, 1/2 msk hlynsírópi og salti og pipar.

Kartöflurnar voru forsoðnar í 10 mínútir. Skornar í helminga og svo penslaðar með hvítlauksolíu, saltaðar og pipraðar og svo grillaðar þar til gullinbrúnar. Ferskri steinselju stráð yfir.

Sósan var gerð með því að steikja einn smátt skorin rauðlauk og þrjú smátt skorinn hvítlauksrif í potti - laukurinn er nánast látin brúnast í pottinum. Svo voru nokkrum litlum þunnt sneiddum sveppum bætt útí og látnir taka aðeins lit með lauknum. Svo var bætt útí 1 glasi af rauðvíní, og svo 1 glasi af vatni ásamt kjötkrafti eftir smekk. Saltað og piprað rækilega og soðið vel niður. Svo er bætt útí rauðvín, rjóma eftir smekk þar til maður er ánægður með niðurstöðuna. Gráðaostur eða annar bragðmikill ostur er oft settur útí þessa sósu - ca 1 msk af osti - þó ekki gert núna.

Með forréttinum var drukkið hvítvín - Glen Carlou Chardonnay 2003 frá Suður Afríku og með aðalréttnum var drukkið rauðvín Benchmark gran burge Shiraz frá Ástalíu frá 2005. Absolutely faboulus.

No comments:

Post a Comment