Öll góð matarboð enda í eftirrétt - og eftirrétturinn að þessu sinni var jarðaberja og brómberjakrumbl með vanillusósu.
Eins og ég greindi frá á vefnum þá fórum við fjölskyldan til Glasgow til að hitta vinafólk og eitt kvöldið fórum við út að borða á stað sem heitir Stravaign - held að þetta sé rétt skrifað. Maturinn var frábær og þjónustan fyrsta flokks. Þar pantaði konan mín eftirrétt sem var rabbabaracrumble with vanilla custard. Hann var "heavanly" - ég lýg því ekki.
Ég hef séð svona rétti í matreiðslubókum - en af einhverri ástæðu aldrei drifið í að búa þetta til - nóg er þetta nú girnilegt þegar maður sér þetta á myndum.
Ég fann síðan góða uppskrift á netinu frá breskum kokki sem heitir James Martin og er með sjónvarpsþætti á BBC food sem heita Sweet ásamt fleiri þáttum. Hann rekur víst einnig delicatessen í Cornwall.
Mín útgáfa var á þessa leið. Ég gerði reyndar fyrir 18 manns en uppskriftin sem ég gef upp er fyrir 6.
Jarðaberja og brómberjakrumbl með heimagerðri vanillusósu.
225 gr af hveiti er blandað saman við 130 gr af Demerera sykri (eða bara hvítum sykri og smá púðursykri) og ca 115 gr af smjöri við herbergishita. Deigið á að vera eins og þremur þurr leir. Ég bætti við aðeins dash af mjólk og smá vanilludropum til að fá þetta aðeins blautara.
Því næst tók ég jarðaber 500 gr og 2 kassa af brómberjum og lagði í ofnskúffu, stráði smá sykri yfir og smá skvettu af vatni og bakaði aðeins í 200 gráðum heitum ofni í 10 mínútur. Tók þetta svo út - berin er þarna orðið heit og mjúk og sykurinn aðeins farinn að karmelliserast. Þetta lagði ég svo í lítil eldföst mót og muldi síðan deigið yfir. Þetta var svo sett aftur inn í heitan ofninn í svona 15 mínútur þar til deigið var orðið gullið og fallegt.
Ég gerði vanillusósuna fyrr um daginn - og það verður að segjast að gerð á vanillusósu er það sem kallast á enskunni "labour of love" því það þarf að hræra ansi mikið.
600 ml af nýmjólk var hitað að suðu í þykkbotnapotti. Þegar mjólkin er alveg að ná suðu er slökkt undir og 2 vanillustöngum sem hafa verið klofnar upp og innhaldið skrapað út sett út í ásamt útskrapinu. Hrært vel saman og látið standa í 15 mínútur. Á meðan eru 6-8 eggjarauður hrærðar við ca 50-75 gr af sykri þar til það verður eins og þykkur rjómi - fallegt og gljándi. Vanillustangirnar eru fjarlægðar úr mjólkinni og henni svo varlega blandað saman við eggjablönduna. Hrært vel saman. Því næst er sósunni hellt í þykkbotnapott og hituð við lága/meðalhita og hrært stöðugt í þar til að sósan þykknar- má alls ekki sjóða - því þá hleypur hún í kekki (maður er með potential í vanilluommilettu ef maður passar sig ekki) - nóg er að hún þykkist aðeins og þá er hún tekin af hitanum og borðuð strax eða kæld. Ef hún hleypur í kekki þá er hægt að sigta hana en hún verður alltaf aðeins kornótt - bragðið versnar þó ekki. Hinn möguleikinn er að byrja aftur á byrjun.
Jarðaberja og brómberja krumblið er borið fram heitt og ég bar sósuna fram kalda með - algerlega delisísus.
No comments:
Post a Comment