Eiginkona mín Snædís gerði súpu á miðvikudagskvöldið sem reyndist alveg stórgóð - ekki að það hefði komið neitt á óvart - hún er afar lunkinn í allri súpugerð, jafnframt gerir hún besta lasagna í heimi og gúllasið hennar er á heimsmælikvarða. Ég hugsa að hún myndi gera margt meira á heimsmælikvarða í eldhúsinu ef ég væri ekki svona fyrirferðamikill.
Ítölsk súpa með heimagerðu brauði.
Fyrst var kjúklingasoð útbúið. Tveir lítrar af vatni voru hitaðir og 4 kjúklingatengingar leystir upp í vatninu. 2 sellerístangir, 1 laukur, 4 hvítlauksrif voru niðurskorinn og steikt í heitri olíu. Þvínæst var niðurskornu beikoni bætt útí. Saltað og piprað. 2 dósir af niðursoðnum tómötum var bætt í soðið og tvær niðurskornar bökunarkartöflur (skornar í teninga). Steikta grænmetið og beikonið var bætt útí sem og ferskum kryddjurtum - í þetta sinn 10-12 blöð basil og 1 lúka af steinselju, niðurskorið, og 1 tsk af þurrkuðu oregano - Þetta var látið malla í rúmlega 1 klst - því lengra því betra. Þetta þarf svo að bragðbæta eftir smekk; útí þetta má svo setja rauðvín, þess vegna púrtvín, rjómaost - hvaðeina sem manni dettur í hug. Í þetta sinn var til matreiðslurjómi - og 1 dl var bætt útí og dash af soya sósu.
Á meðan súpan er að sjóða var brauðið útbúið.
500 gr af heilhveiti og 400 gr af hveiti var blandað í skál. Svo var 3 dl af haframjöli bætt útí, 1 1/2 tsk lyftiduft, 2 msk hlynsírópi, 1 1/2 msk Maldon salt, 1 1/2 bolli af léttri AB mjólk og vatn þar til að deigið er orðið blautt ca, 1-2 dl. Ofn var hitaður í 180 gráður. Formið var smurt með olíu. Deiginu var smurt í formið og bakað í heitum ofninum í tæpa klukkustundið. Borið fram með ostum og smjöri...og súpuni auðvitað.
Frábær máltið í miðri viku - fátt betra til að ylja manni á svona frostkvöldum annað en heit súpa og heitt brauð með ostum.
No comments:
Post a Comment