Tuesday, 30 January 2007

Í hálfgerðri útlegð - Pastaréttur Nigel Slater

Hugmyndin að þessari heimasíðu er fengin úr bók Nigel Slater - the kitchen daires - bók sem ég eignaðist í fyrra og hefur reynst mér afar vel. Nigel skrifar frábærar bækur (ég held að ég eigi þær allar) og það sést langar leiðir að hann er nautnaseggur fram í fingur góma - hann er svona karlkyns Nigella Lawson. Ég hef einnig séð nokkra sjónvarpsþætti - sem eru líka góðir. Uppskriftirnar hans eru einfaldar og gott hráefni látið bera uppi réttinn. Ástæðan fyrir því að ég er að babla um þetta núna er sú að maturinn sem ég gerði í kvöld var svo slappur/einfaldur að ég verð að láta eina uppskriftum sem er innblásinn af honum fylgja með til að réttlæta færsluna. Ekki það að maturinn hafi verið bragðvondur - því fer fjarri - hann var bara svo einfaldur að það er varla hægt að kalla þetta uppskrift, svona eins og að gefa uppskriftina af brauðsneið með osti.

Fékk mér kjúklingatortillu með tómötum, gúrku og blönduðu salati. Kjúklingabringa steikt (án olíu - engin olía til hér - bara lýsi), smávegis niðursoðnir tómastar, smávegis tilbúinn salsasósa hellt yfir og kjúklingur fékk aðeins að sjóða í tömötunum. Raðað á heita tortillu með smá vegis ferskri steinselju, osti og sýrðum rjóma. Alveg ágætt. En varla hægt að kalla þetta uppskrift.

 Sumarpastaréttur Nigel Slater - við verðum að gera eitthvað til að stytta veturinn.

Þá er best að réttlæta þessa færslu. Sá réttur er einnig einfaldur - en bragðið af honum alveg frábært. Þennan rétt hentar samt best að elda að sumri til þegar tómatauppskeran stendur sem hæst. En núna er vetur - og það verður líka að borða að vetri til. Það er í raun hægt að svindla; kaupa kirsuberjatómata og nokkra plómutómata nokkrum dögum áður en á að elda þá og láta þá standa útí á borði - þannig verða þeir aðeins sætari - og það skiptir máli.

Tveir kassar (250 gramma) af kirsuberjatómötum og kannski nokkrum plómutómötum er raðað í eldfast mót. 4 msk jómfrúarolíu er hellt yfir og 6 smátt söxuðum hvítlauksrifjum dreift yfir. Saltað með Maldon salti og nýmöluðum svörtum pipar. Ofn er hitaður í hámark og kveikt á grillinu. Eldfastamótið sett ca 15 cm frá og eru tómatarnir grillaðir í nokkrar mínútur þar til þeir taka lit. Sumir verða gullbrúnir, sumir örllítið dekkri. Eldfastamótið er tekið út og tómatarnir stappaðir með gaffli - misvel. 30 rifin basilikulauf er blandað saman við og 4 msk af rjóma sömuleiðis. Saltað og piprað eftir smekk.

Gott pasta er soðið í miklu söltuðu vatni skv leiðbeiningu. Þegar pastað . Borið fram með góðu brauði - helst heimagerðu foccacia, með ólívum, góðu salati. Mikilvægt er að hafa nóg af parmesan osti - og ekki sakar að fá sér gott rauðvín með þessu.


Sunday, 28 January 2007

My father strikes back - return of the nattemad

Eftir að ég las fyrir pabba hvað ég var að blogga um niðurlög nattemads í sumarbústaðnum - snéri hann hann aftir í eldhúsið og snaraði fram ansi vígalegum næturverði til að gleðja allt heimilisfólkið.

Hann skar niður svartan danskan kastalaost sem hann svo baðaði í hrærðu eggi og brauðraspi og svo steikti á pönnu uppúr heitri olíu. Jafnframt steikti hann sveitabrauð í olíunni.

Þetta var borið fram með heimagerði krækiberjasultu - heimtur frá síðasta hausti - þar söfnuðu foreldrar mínir nokkrum krækiberjum og bjuggu til afbragðssultutoyj. Þessi sulta er afar einföld; 1 kíló af krækiberjum var sett í pott og soðin í nokkrar mínútur. Þar næst eru þau síuð þannig að vökvinn skilst frá og hratið verður eftir í sigtinu. Vökvinn er settur aftur í pottinn ásamt sama magni af sykri (g=ml) og soðið upp með sultuhleypi (skv. leiðbeiningum). 1 msk af acasíusírópi sett saman við. Sett í dauðhreinsaðar krukkur - faðir minn setur alltaf örlítið af víni ofan á sultuna - sherrý eða koníak eftir því hvernig stemmingu hann er í - í þetta sinn smávegis Calvados (sem er eplakoníak).

Sérlega gott.


Í sumarbústað foreldranna - pabbi eldar og eldar

Foreldrar mínir keyptu sér sumarbústað fyrir rúmum 6 árum síðan. Ég held að það sé besta fjárfesting sem þau hafa gert. Bústaðurinn er á Grjóteyrartanga við Meðalfellsvatn - sem er eiginlega vin rétt hjá höfuðborginni. Hérna höfum við fjölskyldan oft varið frábærum helgum með foreldrum mínum þar sem þau galdra fram stórkostlega rétti. Hér var á árum áður alltaf galdraður fram náttverður (nattemad) fyrir svefninn - pate og sultur með grilluðu brauði - sú hefð hefur að mestu lagst af þar sem við erum farin að borða kvöldmat svo seint á kvöldin.

Núna var faðir minn eins og svo oft áður við grillið og útbjó girnilega rétti. Þau hjónin slá aldrei slöku við í matargerðinni.

Í forrétt var hörpuskel sem var vafin parmaskinku og grilluð á heitu grilli og einnig nokkrir humrar sem voru penslaðir með hvítlauksolíu og grillaðir eins og hörpuskelin. Bæði hörpuskelin og humarinn voru að auki smurðir heimagerðu pestói. Forrétturinn var borin fram á beði af klettasalati og með grilluðu sveitabrauði. Algerlega dásamlegt. Pabbi fær 10 í einkunn fyrir forréttinn.

Ekki gekk þeim gamla verr með aðalréttinn. Ekki var feilnóta slegin þar heldur.  Elduð var nautalaund og lambainnralæri. Nautalundin var söltuð og pipruð og síðan pensluð með Dijon sinnepi. Fékk að liggja við herbergishita í sinnepsbaði í rúmar 2 klukkustundir. Á sama tíma var lambið undirbúið, sem var marinerað í olíu, sítrónusafa, hvítlauk og lambakryddi frá Jónasi í gallerí Kjöt (mér finnst alltaf fremur slappt að kaupa tilbúnar kryddblöndur - en þessi var ansi góð). Kjötið var því næst grillað þar til það var medium rare (kokkar tala um að það sé hægt að elda kjöt á þrjá vegu; rare, medium rare og ruined).

Með þessum mat var boðið upp á þrennskonar meðlæti. Tvö salöt, annars vegar bláberjasalati sem ég útbjó. Salatið var gert á þá vegu að klettasalat var lagt á flatan disk (ég er afar hrifinn af því að hafa salat á flötum disk - þá er það bæði fallegra á að horfa og jafnframt dreifist dressingin jafnt á salatið en safnast ekki bara á botninn eins og gerist svo oft þegar salat er borið fram í skál). Ofan á klettasalatið lagði ég íslenskan mozzarella ost (sem er oft frekar bragðlaus og krefst eiginlega þess að dressing sé útbúin með). Hellti smávegis jómfrúarolíu yfir, svo svo rauðvínsediki (ætlaði að nota balsamico - en það var því miður búið - but so what) og niðursneiddan graslauk, salt og pipar. Svo skar ég niður tvo plómutómata og stráði síðan bláberjum yfir salatið.

Hitt salatið var gert á þann hátt að þrír  tómatar voru niðurskornir sem og 2 rauðlaukar. Settir í skál og kryddaðir með nokkrum niðurskornum graslauksstönglum, 3 msk af olíu, 1/6 búnt af steinselju, 1 hvítlauksrif, safi af 1/2 sítrónu, 1/2 msk hlynsírópi og salti og pipar.

Kartöflurnar voru forsoðnar í 10 mínútir. Skornar í helminga og svo penslaðar með hvítlauksolíu, saltaðar og pipraðar og svo grillaðar þar til gullinbrúnar. Ferskri steinselju stráð yfir.

Sósan var gerð með því að steikja einn smátt skorin rauðlauk og þrjú smátt skorinn hvítlauksrif í potti - laukurinn er nánast látin brúnast í pottinum. Svo voru nokkrum litlum þunnt sneiddum sveppum bætt útí og látnir taka aðeins lit með lauknum. Svo var bætt útí 1 glasi af rauðvíní, og svo 1 glasi af vatni ásamt kjötkrafti eftir smekk. Saltað og piprað rækilega og soðið vel niður. Svo er bætt útí rauðvín, rjóma eftir smekk þar til maður er ánægður með niðurstöðuna. Gráðaostur eða annar bragðmikill ostur er oft settur útí þessa sósu - ca 1 msk af osti - þó ekki gert núna.

Með forréttinum var drukkið hvítvín - Glen Carlou Chardonnay 2003 frá Suður Afríku og með aðalréttnum var drukkið rauðvín Benchmark gran burge Shiraz frá Ástalíu frá 2005. Absolutely faboulus.

Friday, 26 January 2007

Besta lasagna í heimi - Konan mín sigrar eldhúsið

Þar sem ég er afar fyrirferðamikill maður - þá sérstaklega í eldhúsinu - hefur það komið til minna kasta að sjá um eldhúsverkin. Þegar við hjónin vorum að byrja okkar búskap þá var það samkomulagsatriði okkar á milli að ég fengi að sjá um eldhúsið og Snædís konan mín tæki að sér þvottanna. Þetta eru sennilega bestu samningar sem ég hef náð. Konan mín er hinsvegar engin liðleskja í eldhúsinu - hún bara kemst varla að fyrir mér. Hún hefur hinsvegar eignast nokkra rétti þar sem ég kemst ekki með tærnar þar sem hún er með hælana. Ég hef talið þetta upp á vefnum mínum. Lasagnaið hennar er frábært en það hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum árin. Í fyrstu var borið fram snakk með matnum (saltaðar marud flögur) og einnig hefur hún alltaf gert Bechamel sósu til að nota á milli laga en uppásíðkastið hefur hún sett sýrðrjómasósu.
Sem betur fer hefur snakkið fengið að fjúka og í staðin reynum við að gera bragðgott salat og jafnframt hefur hún fengið hugmynd úr einum af bókum Jamie Oliver - mig minnir að það hafi verið Jamie's dinner's sem er afbragðs góð matreiðslubók - að gerð þessarar sýrðrjómasósu. Nýja útgáfan af lasagna hefur heppnast afar vel, samt í dag ákvað hún að gera gömlu útgáfuna and with a vengance - afar bragðgott.

Í kvöld tókust á þessar tvær stefnur - hefðbundið lasagna Snædísar eða Lasagna Snaedís nouveau. Set inn báðar uppskriftirnar í þessu bloggi - og báðar útgáfurnar eru afar góðar.

Kjötsósan er alltaf hin sama. Í heitri ólíu er steikt einn smátt saxaður rauðlaukur, 3 gulrætur, 1 sellerístöng, 2 hvítlauksrif og 125 gr af niðurskornum sveppum. Saltað og piprað. Svo er 500 gr af nautahakki sett á pönnuna og steikt áfram þar til allt er vel eldað. Kryddað með hvítlaukssalti, og smá pipar. 1 dós af niðursoðnum hökkuðum tómötum, 5 msk tómatsósu, 1/2 búnt af ferskri steinselju, 20 lauf af fersku basil og 1 msk oregano er bætt útí og hrært vel saman. Látið malla í 20-30 mínútur - en meiri tími mun ekki skemma kjötsósuna. Í lokin er bætt útí smá nýmjólk og matreiðslurjómi og látið malla áfram í 10 mínútur.

Nýja Bechamel sósan: 1 stór dós af kotasælu, 1 dós af sýrðum rjóma er blandað saman við 6 sneiðar af hökkuðum ansjósum (í olíu). Saltað og piprað. Raðað á milli laga. Margir munu undra þessar ansjósur - en þær gera réttinn bara betri - þær eru eins og náttúrulegt þriðja kryddið og getur gert kraftaverk í mat (það kemur ekkert fiskibragð af matnum - ég lofa) . Raðað á milli laga eins og gert er með venjulega Bechamel sósu.

Old school Bechamél: 100 gr af smjöri er hitað í potti. Þegar það er bráðnað er hveiti hrært útí þar til komin er smá klumpur sem er mjúkur og meðfærilegur. Því næst er farið að bæta mjólk útí,  ca 300 ml, þar til að sósan er orðin eins og þykkt vöffludeig. Stundum er sett múskat útí og stundum er settur smá parmesan - allt eftir smekk.

Lasagnað er búið til með að raða kjötsósu, Bechamel sósu aðlægt lasagne plötunum hæð eftir hæð þartil að búið er að fylla mótið. Rifnum osti eða parmesan osti er sáldrað yfir og bakað inn í ofni þar til að osturinn er fallega gullinn, ca 20 mínútur.

Borið fram með smávegis fersku salati, litlum baguette (konan mín fékk sér smá snakk). Með þessu var drukkið Val Sotillo crianza 2001. Ágætis vín sem hæfði matnum vel.

Thursday, 25 January 2007

OMG - Enn og aftur redding

Þetta er búinn að vera nokkuð stressandi dagur. Í gærkvöldi leit hann bara vel út...en klukkan 1130 sprakk á dekki á bílnum mínum og það var erfiðara en andskotinn að losa það af. Þetta setti daginn hálftíma á eftir áætlun - sem ég náði síðan aldrei að leiðrétta fyrr en núna - um það leiti sem maður er að fara í ró.

Það skýrir líka kannski eldamennskuna - öllu má nú nafn gefa - því þetta var engin eldamennska - hráefnum var bara raðað saman í skál. Smá salat útbúið...vesgú. Þegar maður er í tímahraki og allir eru farnir að öskra úr svengd - þá eru bara stundum góð ráð dýr - og ódýr ráð bara nokkuð bragðgóð.

Maður á eiginlega að skammast sín fyrir að láta svona flakka á netinu. Enn ef maður á að reyna að halda nokkuð raunsanna dagbók af eldhúsinu þá þarf líka þetta slappa að fá að fljóta. Ég held að ég hafi látið svipaða uppskrift á netið um daginn.

1 kjúklingur - tilbúinn úr búð - var hreinsaður af beinunum. 1 piparostur var hitaður í örbylgju (ég þoli ekki að nota örbylgju í matargerð - finnst það einhver lágkúra - en hvað um það). Blandað saman við kjúklinginn.

Ferskt basil, ca 15 lauk, skorið julienne (varð að skjóta einhverju flottu inn í þessa lágkúru) og timian tekið af 2 greinum. Saltað aðeins og piprað. Smávegis af soðinu af kjúklingum var látið með til að bleyta í blöndunni. 300 gr af pasta var soðið skv. leiðbeiningum og þegar það var tilbúið var því blandað útí í blönduna.

Borið fram með sveitabaguette, og smávegis salati. Sonur minn sem er 18 mánaða var himinlifandi - hann lítur aðallega bara við mjólkurvörum - enda þekktur sem drengurinn sem borðaði bara skyr!


Wednesday, 24 January 2007

Vetrargúllassúpa með hafrakexi og mogginn í heimsókn

Það var hringt í mig frá morgunblaðinu í vikunni og ég var beðinn um að veita viðtal. Þá hafði einhver á morgunblaðinu lesið bloggið mitt - það var þá hann sem var að hreyfa teljarann hjá mér. Mér fannst þetta bara skemmtilegt og ræddi við Sigrúnu Ásmundardóttur blaðamann. Við ræddum stuttlega saman og svo spurði hún mig hvort að ég hefði ekki áhuga á því að fá ljósmyndara til að taka myndir af réttum sem ég væri að elda þennan daginn - mér leist bara vel á það - heimsyfirráð eða dauði!!! Mamma og pabbi eru að koma í mat. Það verða bara fjórir í mat í kvöld en ég er viss um að maturinn dugi fyrir 8 - ég er alveg vonlaus í að áætla rétt hvað magn varðar. Skýrir sennilega hvað ég þarf alltaf að vera að böðlast í ræktinni.

Fyrir valinu varð réttur sem ég eldaði fyrst í fyrra. Hugmyndin frá þessum rétt er fengin frá Michael Smith sem er kandískur kokkur - sem starfar mikið í sjónvarpi, hefur gefið út þrjár matreiðslubækur og á veitingastað í Halifax sem er í Kanada. Ég hef séð tvo þætti með honum - annars vegar Chef at large sem er frekar leiðinlegur ferða/matar þáttur og svo annar sem heitir Chef at home - sem er mjög góður. Sá þáttur fjallar um það hve auðvelt það er að spinna fram uppskriftir án þess að fara svo mikið eftir uppskriftum. Mjög skemmtilegur.

Allavega sá ég hann gera svona nautagúllaskássu sem tók fremur stuttan tíma að elda þar sem hann brytjaði grænmetið afar smátt og náði þannig góðum krafti upp á skömmum tíma.

Fyrst er 1 kíló af nautagúllasi steikt í heitri olíu. Bitarnir munu festast aðeins við - það er allt í lagi - þeir munu líka losna frá pönnunni þegar þeir eru tilbúnir (ráð frá Michael Smith). Á meðan þeir eru að brúnast eru 2 litlir laukar, 2 gulrætur, 3 sellerí stangir og 5 hvítlauksrif hökkuð með svona töfrasprota eða í magimix (eða bara því sem fólk á). Kjötið er sett til hliðar í skál og smá olíu bætt í pottinn og grænmetið sett útí og steikt aðeins. Þegar grænmetið er orðið fallega glært og ilmurinn mjúkur og góður er kjötinu bætt útí með öllum vökva sem fylgir. Saltað og piprað. Steikt í smástund og leyft að blandast vel. Því næst er 1, 5-1,7 L af vatni bætt útí og einnig hálfri flösku af rauðvíni. Svo er nautakjötkrafti bætt útí - skv leiðbeiningum miðað við vatnsmagnið. 1 lítil dós af tómatpure er sett útí, 6 meðalstórar kartöflur sem hafa verið flysjaðar og skornar í fernt, 250 af sveppum sem hafa verið sneiddir í helminga og tvær niðurskornar gulrætur. 3 lárviðarlauf og ferskt rósmarín - af einni grein - saxað niður.  Saltað og piprað aftur.  Þetta var svo soðið í 30 mínútur með lokið á og svo í um 1 klukkustund við lágan hita - og soðið þannig niður um nær helming.

Á meðan var kexið undirbúið. 2 bollar af hveiti, 2 bollar af heilhveiti, 1 1/2 msk lyftiduft, smá haframjöl, 1 1/2 bolli af léttmjólk og síðast en ekki síst 100 gr af smjöri (sem hefur verið fryst aðeins og brytjað niður með grófu rifjárni) er blandað saman og hrært vel þannig að úr verði þétt deig sem er örlítið blautt viðkomu en þó ekki þannig að það límist við. Bitnar eru klipnir af deiginu og flatt vel út og svo stungið á kexið með gaffli. Raðað á ofnplötu og bakað í heitum ofni í ca 8 mínútur við 190 gráðu hita.

Salatið var einfalt. Klettasallat var lagt á flatan disk. Pera var flysjuð og sneidd niður í langar grannar sneiðar og lagt ofan á. Því næst var blár kastali sneiddur niður og lagt ofan á. Plómutómatur var skorin niður og lagður með. Fersku basil og kóríander var svo dreift yfir. Smá extra virgin ólífuolíu var dreift yfir og svo saltað og piprað.

Ég er ekki vanur að hafa eftirrétt á virkum dögum en fyrst að maður verður á síðum dagblaðanna var nú ekki annað hægt en að hafa smá desert. 250 gr af hveiti, 90 gr af dökkum Muscovado sykri, 60 gr af hvítum sykri, 100 gr af smjöri, 1 tsk vanilludropar og 50 ml af mjólk var blandað saman í hrærivél. 350 gr  (1 1/2 box) jarðaberjum voru hreinsuð og tekin í tvennt og 150 gr af bláberjum (1 box) er blandað saman. Berin eru blaut eftir að hafa verið skoluð og eru þau sett í eldfast mót og sykruð með smá hvítum sykri og bakað í 190 gráðu heitum ofni í 10 mínútur. Þegar þau eru tilbúinn eru berin flutt yfir í minni eldföst mót (1 á mann) og deiginu sáldrað yfir. Bakað aftur í um 10 mínútur. Borið fram með rjóma eða vanillu ís. Í þetta sinn var vanillu ís.

Vesigú.

Lax á fjóra vegu - New Scandinavian cooking og svo mín leið

Okkur hjónunum hefur alltaf þótt lax afar góður - erum sennilega ekki ein um það - vorum þó kominn í svona stemmingu að detta alltaf í sama farið þegar átti að elda lax. Ekki slæm uppskrift þó.

Mitt vers. Lax með roðinu lagður í eldfast mót, smurður með smá olíu, saltaður og pipraður. Blöndu af Kikkoman soya sósu og Teriaki sósu og smá ferskum sítrónusafa hellt um kring þannig að blandað náði svona uppá laxinn ca. 0,5 cm. Erfitt að segja til um hlutföllin - kannski tveir hlutar soya á móti 1 af teriaki og svo safi úr einni sítrónu? Sesam fræjum stráð yfir og sett í heitan ofn ca 180 gráður í ca 12 mínútur. Ferskum kóríander svo stráð yfir. Þetta var svo borið fram með Basmati hrísgrjónum og fersku salati.

New Scandinavian cooking

Þennan laxarétt hef ég eldað tvisvar sinnum áður. Þessi réttur er undir miklum áhrifum frá ungum norskum kokki sem heitir Andreas Viestad. Hann er skemmtilegur sjónvarpskokkur og hefur gefið út matreiðslubækur undir nöfnunum New Scandinavian cooking, hann rekur einnig heimasíðu ásamt kollega sínum Tina Nordström sem er Svíi - www.scandcook.com - hvað sem því líður - sá ég uppskrift eftir hann sem var alveg heillandi.

Þessi leið er sérstaklega góð þegar maður er að fá fólk í mat - mjög smart að vera með nokkrar tegundir af laxi þegar gesti ber að garði. Gott er að kaupa eitt stórt laxaflax og hluta það niður í þrennt eða bara kaupa þrjú jafnstór stykki. Álpappír er lagður á ofnplötu og brot sett í hann þannig að mismunandi sósur renni ekki á milli fiskbita.

Fyrsta vers. Laxinn er lagður á álpappir á ofnskúffu. Fersku rósmarín sem hefur verið lamið aðeins í morteli er stráð yfir laxinn. Svo er Dijion sinnep blandað við smávegis hunang þannig að úr verður honeymustard. Þessu er svo hellt yfir laxinn þannig að hann sé vel hulinn.

Annað vers. Laxinn er lagður á álpappir á ofnskúffu, smá skil eru sett í álpappírinn þannig að sósan renni ekki á milli. Soyasósa - helst einhver almennilega, eins og kikkoman, er soðin niður í potti um ca 2/3 - þannig að 1/3 er eftir. Þannig verður hún þykk og kröftug á bragið. Þessu er pennslað á laxaflakið og svo er sesamfræjum - stráð yfir.

Þriðja vers. Búið um laxaflakið eins og í fyrsta og öðru versi. Ostrusósu er hellt yfir flakið og dreift úr henni þannig að hún þekji flakið vel. Ferskur chilli er klofin niður og fræin fjarlægð - nema að maður vilji hafa þetta mjög sterkt. Chillinn er skorinn niður og stráð yfir flakið.

Laxinn er svo bakaður í heitum ofni í 12-14 mínútur við ca 180 gráðu hita.

Með þessu má svo bera fram hvað sem er. Ég hef borið fram Jasmín hrísgrjón með þessu, ferskt salat og einnig epli - sem hafa verið flysjuð,sneidd niður í skífur og  steikt með fersku rósmaríni í nokkrar mínútur úr ólívuolíu - afar gott.

Monday, 22 January 2007

Sunnudagssteikin - The Sunday Roast

Í minni fjölskyldu er mikil hefð að hafa matarboð á sunnudagskvöldum. Yfirleitt er það fjölskyldan sem kemur saman – oftast heima hjá mömmu og pabba, mamma eldar lambalæri eða kjúkling, en ég er farinn að bjóða heim í ríkari mæli. Í gær gerði ég undantekningu á og bauð ekki fjölskyldunni heldur bauð góðum vinum mínum í mat sem ég hef ekki hitt síðan einhvern tíma fyrir jól. Við hjónin eigum ansi náinn vinahóp þannig að kannski má segja að maður hafi verið að bjóða fjölskyldumeðlimum.  

Börkur vinur minn var að flytja ásamt konu sinni og fyrst var hitað upp með smá húsgagnaflutningum. Við vorum orðin ansi svöng þegar maturinn var snæddur – klukkan þá að verða hálf níu. Það voru sex manns í mat.

Ég eldaði kjúkling í matinn í þetta sinn. Kjúklingur er mikill uppáhaldsmatur hjá mér, sérstaklega að steikja heilan kjúkling í ofni, fylla hann með einhverju góðgæti og krydda vel. Maturinn í gærkvöldi helgðist dáldið af því að ég átti talsvert af hráefni eftir frá því matarboðið seinustu helgi og því ber matarboðið dáldin keim af matarboðinu sem var haldið rúmri viku fyrr.  

Ég keypti tvo kjúklinga. Undirbúningurinn á þeim var nú frekar einfaldur. Ég átti afgang af ristuðu heslihnetu og kóríandersmjöri sem ég útbjó seinustu helgi. Smjörið fékk að ná herbergishita þannig að það var mjúkt og meðfærilegt og tróð ég því undir skinnið/haminn hjá bringunum og svo gerði ég smá skoru í lærin og tróð smá af smjörinu þar inn. Kjúklingurinn var svo pennslaður með smávegis ólívuolíu og saltaður og pipraður rækilega. Inni í holið setti ég svo hálfan flysjaðan hvítlauk, heilan rauðlauk skorinn í 8 bita og hálfa sítrónu. Þetta var svo sett í forhitaðan ofn og steikt í einn klukkutíma og korter – eða þar til hiti í bringunum var orðin 82 gráður (mikilvægt að nota hitamæli – þá klikkar aldrei neitt). Hvítlaukurinn sem var bakaður inni í holinu á fuglinum varð mjúkur og sætur - einstaklega góður þegar maður borðar rifin heil - það á víst einnig að verja mann frá kvefpestum - ekki verst á þessum síðustu og verstu tímum.

 Ég skar niður 2 sætar kartöflur og 2 bökunarkartöflur í munnbitastærð og blandaði vel saman. Hellti yfir þær um 3 msk af jómfrúarolíu og salti og pipar. Raðaði þessu í eldfastmót. Setti ferskt rósmarín með helmingum og svo ferskan chilipipar með hinum helmingum. Fjarlægði reyndar fræin innan úr honum – þau eru sterkasti hluti piparsins. Bakað í ofni í tæplega klukkustund.  
1 haus af rauðkáli var sneiddur niður. 1 pakki af beikoni var skorinn í bita og steikt í potti og tveimur söxuðum grænum eplum var því næst sett útí ásamt rauðkálinu. Þetta fékk aðeins að mýkjast í pottinum. Svo var 30-50 ml af Balsamic vinegar bætt saman við sem og 2 msk af Maple sýrópi. Saltað og piprað. Rauðkálið, eplin og beikonið er því nánast soðið niður í edikinu.

Ég útbjó ferskt salat – oftast geri ég einföld salöt – þetta var engin undantekning – það var bara aðeins betra en venjulega. Klettasalat var lagt á flatan disk, niðursneiddar perur lagðar ofan á og svo blá dalayrja í þunnum sneiðum. Því næst var ferskum kóríander stráð yfir.  


Sósan með matnum var ansi rich – ég geri yfirleitt ekki miklar rjómasósur – bæði vegna þess hve fitandi þær eru (maður er alltaf að reyna að grenna sig – erfitt þegar aðal áhugamálið er að elda) og líka vegna þess að það er meiri ögrun að gera góða soðsósu – það þarf meiri elju til. En rjómi er líka góður...og eyðileggur engan mat. Fjögur maukuð hvítlauksrif og 1 smátt skorin rauðlaukur var hitaður í potti með smá olíu. Þegar laukurinn var orðin gljándi setti ég 250 gr af niðursneiddum sveppum og steikti vel – leyfði þeim að taka aðeins lit. Hálfum líter af vatni er bætt útí, og tveimur kjúklingakraftstengingum. Einnig hellti ég því sem lak af kjúklingum útí sósuna. Saltað og piprað vel og soðið aðeins niður – kannski í rúman hálftíma. Svo var 300 ml af rjóma bætt í sósuna og soðið áfram niður. Smá gráðaosti var bætt útí og smáttskorinni steinselju. Saltað og piprað þar til gott jafnvægi var komið á sósuna.  

Þetta var svo borið fram með Vicar’s choice Pinot Noir 2005 og Tommasi Ripasso rauðvíni. Maturinn heppnaðist mjög vel – og því miður voru engir afgangar til að hafa í kvöld.  

Saturday, 20 January 2007

Úr súpu í góða kjötsósu

Á fimmtudaginn var talsvert eftir af súpunni frá því kvöldið áður. Súpur eins og þessar verða bara betri á því að bíða yfir nóttina. Við vorum samt ekki alveg í stuði til að endurtaka leikinn alveg frá því kvöldinu áður heldur ákváðum við að söðla aðeins um en nota súpuna góðu sem grunn í kjötsósu.

Súpukjötsósa.

500 gr af hakki var steikt úr heitri ólívu olíu og smá hvítlauk. Á meðan var súpan hituð. Þegar hakkið var steikt var hakkið sett útí sem og 1 dós af tómatpaste og smá tómatsósu til að sæta núna kjötsósuna. Þetta þurfti að sjóða aðeins niður til að fá góða þykkt á þetta. Á meðan var pasta soðið skv leiðbeiningum þar til að það var al dente - sem þýðir að pastað er ennþá smá seigt í miðjunni - "has a little bite to it". Þegar pastað er tilbúið er vatninu hellt frá og þess stað smávegis af sósunni hellt yfir og hrært vel í. Þannig dregur pastað í sig sósuna og verður þeimmun betra á bragðið.

Borið fram með brauði, fersku salati með tómötum, mozzarellaosti og balsamico, og auðvitað smá parmesanosti. Heppnaðist afar vel.

Dásamleg súpa og heimagert brauð

Eiginkona mín Snædís gerði súpu á miðvikudagskvöldið sem reyndist alveg stórgóð - ekki að það hefði komið neitt á óvart - hún er afar lunkinn í allri súpugerð, jafnframt gerir hún besta lasagna í heimi og gúllasið hennar er á heimsmælikvarða. Ég hugsa að hún myndi gera margt meira á heimsmælikvarða í eldhúsinu ef ég væri ekki svona fyrirferðamikill.

Ítölsk súpa með heimagerðu brauði.

 Fyrst var kjúklingasoð útbúið. Tveir lítrar af vatni voru hitaðir og 4 kjúklingatengingar leystir upp í vatninu. 2 sellerístangir, 1 laukur, 4 hvítlauksrif voru niðurskorinn og steikt í heitri olíu. Þvínæst var niðurskornu beikoni bætt útí. Saltað og piprað. 2 dósir af niðursoðnum tómötum var bætt í soðið og tvær niðurskornar bökunarkartöflur (skornar í teninga). Steikta grænmetið og beikonið var bætt útí sem og ferskum kryddjurtum - í þetta sinn 10-12 blöð basil og 1 lúka af steinselju, niðurskorið,  og 1 tsk af þurrkuðu oregano - Þetta var látið malla í rúmlega 1 klst - því lengra því betra. Þetta þarf svo að bragðbæta eftir smekk; útí þetta má svo setja rauðvín, þess vegna púrtvín, rjómaost - hvaðeina sem manni dettur í hug. Í þetta sinn var til matreiðslurjómi - og 1 dl var bætt útí og dash af soya sósu.

Á meðan súpan er að sjóða var brauðið útbúið.

500 gr af heilhveiti og 400 gr af hveiti var blandað í skál. Svo var 3 dl af haframjöli bætt útí, 1 1/2 tsk lyftiduft, 2 msk hlynsírópi, 1 1/2 msk Maldon salt, 1 1/2 bolli af léttri AB mjólk og vatn þar til að deigið er orðið blautt ca, 1-2 dl. Ofn var hitaður í 180 gráður. Formið var smurt með olíu. Deiginu var smurt í formið og bakað í heitum ofninum í tæpa klukkustundið. Borið fram með ostum og smjöri...og súpuni auðvitað.
Frábær máltið í miðri viku - fátt betra til að ylja manni á svona frostkvöldum annað en heit súpa og heitt brauð með ostum.

Tuesday, 16 January 2007

Þetta endar allt í eftirrétt

Öll góð matarboð enda í eftirrétt - og eftirrétturinn að þessu sinni var jarðaberja og brómberjakrumbl með vanillusósu.

Eins og ég greindi frá á vefnum þá fórum við fjölskyldan til Glasgow til að hitta vinafólk og eitt kvöldið fórum við út að borða á stað sem heitir Stravaign - held að þetta sé rétt skrifað. Maturinn var frábær og þjónustan fyrsta flokks. Þar pantaði konan mín eftirrétt sem var rabbabaracrumble with vanilla custard. Hann var "heavanly" - ég lýg því ekki.

Ég hef séð svona rétti í matreiðslubókum - en af einhverri ástæðu aldrei drifið í að búa þetta til - nóg er þetta nú girnilegt þegar maður sér þetta á myndum.

Ég fann síðan góða uppskrift á netinu frá breskum kokki sem heitir James Martin og er með sjónvarpsþætti á BBC food sem heita Sweet ásamt fleiri þáttum. Hann rekur víst einnig delicatessen í Cornwall.
Mín útgáfa var á þessa leið. Ég gerði reyndar fyrir 18 manns en uppskriftin sem ég gef upp er fyrir 6.

Jarðaberja og brómberjakrumbl með heimagerðri vanillusósu. 

225 gr af hveiti er blandað saman við 130 gr af Demerera sykri (eða bara hvítum sykri og smá púðursykri) og ca 115 gr af smjöri við herbergishita. Deigið á að vera eins og þremur þurr leir. Ég bætti við aðeins dash af mjólk og smá vanilludropum til að fá þetta aðeins blautara.
Því næst tók ég jarðaber 500 gr og 2 kassa af brómberjum og lagði í ofnskúffu, stráði smá sykri yfir og smá skvettu af vatni og bakaði aðeins í 200 gráðum heitum ofni í 10 mínútur. Tók þetta svo út - berin er þarna orðið heit og mjúk og sykurinn aðeins farinn að karmelliserast. Þetta lagði ég svo í lítil eldföst mót og muldi síðan deigið yfir. Þetta var svo sett aftur inn í heitan ofninn í svona 15 mínútur þar til deigið var orðið gullið og fallegt.

Ég gerði vanillusósuna fyrr um daginn - og það verður að segjast að gerð á vanillusósu er það sem kallast á enskunni "labour of love" því það þarf að hræra ansi mikið.

600 ml af nýmjólk var hitað að suðu í þykkbotnapotti. Þegar mjólkin er alveg að ná suðu er slökkt undir og 2 vanillustöngum sem hafa verið klofnar upp og innhaldið skrapað út sett út í ásamt útskrapinu. Hrært vel saman og látið standa í 15 mínútur. Á meðan eru 6-8 eggjarauður hrærðar við ca 50-75 gr af sykri þar til það verður eins og þykkur rjómi - fallegt og gljándi. Vanillustangirnar eru fjarlægðar úr mjólkinni og henni svo varlega blandað saman við eggjablönduna. Hrært vel saman. Því næst er sósunni hellt í þykkbotnapott og hituð við lága/meðalhita og hrært stöðugt í þar til að sósan þykknar- má alls ekki sjóða - því þá hleypur hún í kekki (maður er með potential í vanilluommilettu ef maður passar sig ekki) - nóg er að hún þykkist aðeins og þá er hún tekin af hitanum og borðuð strax eða kæld. Ef hún hleypur í kekki þá er hægt að sigta hana en hún verður alltaf aðeins kornótt - bragðið versnar þó ekki. Hinn möguleikinn er að byrja aftur á byrjun.
Jarðaberja og brómberja krumblið er borið fram heitt og ég bar sósuna fram kalda með - algerlega delisísus.

18 manna matarboð - framhald

Það er best að halda áfram að greina frá þessu matarboði. Ég er afar stoltur af því hvað það heppnaðist vel - hef aldrei áður eldað fyrir svona marga - og hvað þá fimm réttað.

Í aðalrétt var ég með grillaðar andabringur. Þær voru eldaðar á eins einfaldan máta og hugsast getur. Látnar þiðna í rólegheitum í ískáp. Þvegnar, þurrkaðar. Því næst saltaðar og pipraðar og steiktar á grillpönnu þar til fitan varð karmelliseruð og knassandi (2-3 mínútur) og svo aðeins á hinni hliðinni. Svo var bringunum skellt í ofn sem var um 170 gráðu heitur í rúmar 10 mínútur. Var með hitamæli í kjötinu.

Með þessu var ágætis villisvepparauðvínssósa sem var elduð á þessa leið; niðurskorinn hvítlaukur, laukur, sellerí og gulrætur steiktar í potti í ólívuolíu. Ég keypti tvennskonar þurrkaða sveppi sem ég lagði fyrst í volgt vatn og svo sjóðandi vatn í nokkrar mínútur. Þegar grænmetið er farið að mýkjast er vatninu af sveppunum hellt í pottinn (ca 1 L), auk þess setti ég hálfa flösku af Vicar's choice Pinot Noir útí og suðan fékk að koma upp. Saltað og piprað. Villibráðakraft að hvaða tagi sem er er sett ofan í og svo meira vatn.  Suðan fær að koma upp og svo soðið niður á nýjan leik. Þetta fékk að sjóða með lokið á í rúma 2 tíma. Næst er grænmetið skilið frá og soðið sett aftur í pott og látið malla. Villisveppunum var núna bætt útí og soðið smakkað til. Saltað og piprað. Þegar sósan var að verða tilbúinn var 2 msk af gullgráðaosti bætt útí ásamt 2 msk af rifsberjasilli og svo pela af rjóma er bætt útí og sósan soðin áfram og þykkt aðeins með maizenamjöli. Ég maukaði grænmetið sem kom úr soðinu með töfrasprota og bragðibætti sósuna með þessu - það bæði bragðbætir og þykkir hana - ég endaði með því að nota um um fjórðung af grænmetinu aftur ofan í sósuna
Meðlætið að þessu sinni var þrennskonar. Fyrst voru kartöflur og sætar kartöflur skornar í bita og lagt í eldfast mót, ólívuolíu hellt yfir, saltað og piprað og nóg af rósmarín sett með. Bakað í ofni í 40 mínútur við ca 200 gráður.

1 1/2 haus af rauðkáli var sneitt niður. 1 pakki af beikoni var skorinn í bita og steikt í potti og tveimur söxuðum grænum eplum var því næst sett útí ásamt rauðkálinu. Þetta fékk aðeins að mýkjast í pottinum. Svo var 100 ml af Balsamic vinegar bætt saman við sem og 2 msk af Maple sýrópi. Saltað og piprað. Rauðkálið, eplin og beikonið er því nánast soðið niður í edikinu. Lyktin er alveg dásamleg sem kemur af þessu.
Í lokin var svo hvítlaukssteiktur aspas. Smár ferskur aspas var snyrtur og skolaður. Smjör hitað á pönnu og 5 smáttskornum hvítlauksrifjum bætt útí og látið mýkjast í smjörinu. Því næst er aspasinn settur útí og látin malla í hvítlaukssmjörinu.

Með matnum var drukkið Vicar's Choice Pinot Noir 2005, sem passaði afar vel með matnum. Bon appetit.

Monday, 15 January 2007

18 manna matarboð - hörkugaman

Ég er stjórnarmaður í Félagi ungra lækna og á hverju ári er kosin ný stjórn og haldin stjórnarskiptafundur. Ég hef fengið leyfi stjórnarmanna að halda þennan fund heima hjá mér bæði í fyrra og núna í ár. Í fyrra voru 14 manns í mat en núna komu einnig fulltrúar læknanema og því voru 18 manns í mat. Það verður að viðurkennast að það er aðeins meira mál að elda fyrir 18 heldur en fyrir 6 manns - en það er líka rosalega gaman - að því gefnu að manni finnst yfir höfuð gaman að elda.

Ég byrjaði í gærmorgun um 10 leytið í gærmorgun að undirbúa matinn. Ég var með fimmréttað í matinn. Fyrst var humarsúpa, svo hörpuskel með serrano skinku og því næst var grafin svartfuglsbringa með salvíu og belgbaunstempúra. Í aðalrétt var steikt andabringa með rauðvínsvillisveppasósu með rauðkáli balsamico, hvítlaukssteiktum aspas og kartöflublöndu. Í eftirrétt var svo jarðaberja og brómberjakrumbl með vanillusósu.

Jæja - best að byrja að þylja upp þessar uppskriftir.

Humarsúpa fyrir átján manns - borið fram í kaffibollum.

Fyrst tók ég 1 kg af smáhumri og hreinsaði humarinn frá skelinni. Braut svo humarskelina vel og rækilega. Hitaði ólifuolíu í stórum potti og setti skelina úti og steikti vel þar til hann fór að taka smá lit. Því næst setti ég tvo litla lauka, 3 gulrætur og 2 sellerístangir og 4 hvítlauksrif sem fyrst voru þvegin og niðurskorinn útí pottinn og leyfði því að svitna aðeins með humarskeljunum. Næst setti ég stóra dós af tómatpuré, hálfa flösku af La Joja Sauvignon blanc hvítvíni, smá Ceyanne pipar og 3 L af vatni og salt og pipar. Þessu leyfði ég svo að sjóða upp og sauð svo í um 6 klukkustundir með lokið á. Soðið var svo síað þannig að allt gumsið var skilið frá. Smjörbolla var útbúinn í pottinum, smjör hitað á pönnu, ca. 50-70 gr eftir magni súpunar og svo hveiti sáldrað yfir þar til þetta fer að líkjast mjúkum leir og þá er byrjað að hella súpunni yfir og hrært stöðugt. Þannig fær súpan meiri þykkt og fallegan gljáa. Hitað aftur upp og leyft að malla aðeins. Pela af rjóma var svo bætt saman við og hrært saman. Saltað og piprað og tónað aðeins með hvítvíni. Þegar um fimm mínútur eru eftir af eldunartímanum er humarnum bætt saman við. Þegar balans er náð - vesigú. Borið fram í kaffibollum og ferskri steinselju stráð yfir.

Þetta var serverað með heilhveitibollum fylltum Hrók, osti, sem heppnaðist vel. 2 tsk af geri er vakið í 250 ml af volgu vatni með 30 ml af maple sýrópi - leyft af vakna í um 10-15 mínútur. 2 bollum af hveiti var blandað saman við 1 1/2 bolla heilhveiti auk um 2 tsk af grófu salti og 30 ml af ólífuolíu. Allt hrært saman og leyft að hefast í um 2 klukkustundir. Deigið er svo barið niður og bollur útbúnar og hver bolla fyllt með smá sneið af hróki.

Í forrétt númer tvö var ég með hörpuskel vafna serrano skinku sem ég hef bloggað um áður sem og í forrétt númer þrjú svartfuglsbringur sem ég greindi frá fyrir tveimur dögum síðan þegar ég gróf þá í kryddblöndu.
Svartfuglsbringur með vinagrettu og salvíu/belgbauna tempúra.

Eins og ég greindi fra á miðvikudaginn þá gróf ég svartfuglsbringur í kryddblöndu. Á föstudaginn bjó ég til óvenjulega vinagrettu sem mun vera kominn frá Úlfari Finnbjörnssyni matreiðslumanni sem samanstóð úr 4 msk dökkum muscovado sykri, 2 tsk Worchershire sósu, 4 msk rauðvínsediki
2 msk Dion sinnepi, 4 msk valhnetuolíu og salti og pipar.

Jafnframt bjó ég til tempúradeig; 200 gr hveiti, 100 maizenamjöl, salt og sódavatni var blandað saman. Sódavatni var bætt úri þurrefnin þa til það hafði sömu þykkt og rjómi. Salvíu og belgbaunum var dýpt í þessa blöndu og sett í heita sólblómaolíu sem hafði verið forhituð og djúpsteikt þar til það var orðið gullið.
Þetta var ákaflega ljúffengt. Með þessu var drukkið La Joya Sauvignon blanc hvítvíni. Mun blogga aðalréttinn og eftirréttinn á morgun þar sem ég er aðeins eftir mig eftir gærkvöldið.

Friday, 12 January 2007

Matur hjá mömmu og undirbúningur fyrir matarboð

Fór í mat til mömmu og pabba í kvöld. Þar eldaði bróðir minn ítalska kjötsúpu eftir uppskrift móður minnar. Mamma er mjög stolt af þessari súpu og hún má vel vera það. Hún er kraftmikil og bragðgóð. Veit ekki alveg hvernig hún gerir þetta en get vel trúað því að þetta sé eitthvað á þessa leið; Lambakjöt er brúnað í potti með hvítlauk. Lauk, kartöflum, rófum, tómötum - niðurskornum í bita er sett saman við og steikt. Saltað og piprað. Því næst er ca 2-3 dósum af niðursoðnum tómötum, vatni, kraft, tómatpuré, rauðvín og lárviðarlauf sett saman við. Þessu er leyft að sjóða í dáldin tíma. Við lok eldunar sem tekur um 1-1 1/2 klst er ferskri steinselju bætt við. Borið fram með heitu brauði og fersku salati. Afar gott.

Ég huxa að hún sendi mér uppskriftina þegar hún les þetta - ef hún les þetta - hún hefur áreiðanlega einhverjar athugasemdir. Eins og mamma myndi segja "það margborgar sig"!

Annars hef ég verið að undirbúa matarboð sem ég er með á laugardaginn. Ég er með 17 manns í mat og það er að mörgu að hyggja. Þarf meðal annars að redda viðbót við borðið mitt - sem þó tekur tólf manns.

Ég hef verið að undirbúa einn af forréttunum sem boðið verður upp á. Það verður svona sjávarréttastemming yfir forréttunum. Er núna að fara að grafa svartfuglsbringur sem ég veiddi núna í haust á Faxaflóanum. Hef aldrei gert grafið svartfugl áður en hef borðað svona á jólahlaðborði einhverntíma og minnir að mér hafi fundist það gott. Allavega - þetta verður í bland við aðra rétti þannig að það verður látið á reyna.  Átti enga uppskrift af þessu og fann lítið á netinu fyrir grafinn svartfugl - nema prýðilega uppskrift fyrir grafna gæs. Skv. heimildum mun þessi uppskrift vera runninn undan rifjum Úlfars Finnbjörnssonar matreiðslumeistara. Þar sem þetta var fyrir svartfugl þá þurfti eitthvað að breyta þessu og mín útgáfa er eitthvað á þessa leið.

8 svartfuglsbringur voru þvegnar, þurrkaðar og huldar salti í 2 klst. Á meðan var 3 tsk ferskt timian, 5 tsk ferskt rósmarín, 1 tsk þurrkað basil, 1 1/2 tsk oregano, 5 tsk sinnepsfræ, 7-8 belgir af grænni kardimommu og 10 allspice kúlur muldar rækilega í morteli. Bringurnar er teknar upp úr saltinu, þurrkaðar vel og allar himnur og fita fjarlægð. Bringurnar voru umluktar vandlega með kryddblöndunni og látið í kæli. Ég mun láta þetta liggja fram á laugardag. Blogga þá um resúltatið og sósuna sem er með þessu.

Wednesday, 10 January 2007

Chukkalukah - suðurafrísk stemming og fjúsion

Einhvern tíma þegar ég var í feðraorlofi sá ég matreiðsluþátt þar sem suður afrísk kona fór um land sitt og eldaði í framandi umhverfi. Í einum þættinum var hún í hverfi svartra og eldaði frekar einfaldan pottrétt sem hún nefndi Chukkalukah - hún vissi ekkert hvað nafnið þýddi - en taldi að það hafi átt uppruna sinn í suðurafrískum fangelsum þegar fangar sem fengu naumt skammtað lögðu í púkk og gerðu kássur sem þeir svo borðuðu saman. Ég leitaði að þessu á netinu, fann ekkert um þetta, kannski stafaði ég þetta vitlaust eða konan var hreinlega að búa þetta til. Hvað um það, ég reyndi að herma eftir henni í kvöld og bjó til mína útgáfu af Chukkalukkah. Eftir á að hyggja þá er þá er grunnuppbyggingin lík því sem hún gerði en öll krydd sem urðu fyrir valinu - var eitthvað sem ég henti saman - veit ekkert hvort að það sé einhver suðurafrísk stemming í því.

Fyrst hitaði ég olíu á pönnu og steikti tvo litla smáttskorna rauðlauka, 5 pressuð hvítlauksrif, tvær niðursneiddar sellerí stangir, tvær niðursneiddar gulrætur og eina niðursneidda rauða papriku. Þetta fékk að svitna aðeins í olíunni. Því næst var ein dós af hökkuðum niðursoðnum tómötum hellt yfir og 500 ml af vatni. Því næst var 1 lítil dós af tómatpaste, 3 lárviðarlauf, 2 greinar af fersku rósmarín sett útí ásamt 1 tsk af paprikudufti. Saltað og piprað. Setti smá kraft út á - notaði fljótandi nautakraft. Suðan fékk svo að koma upp.

Á meðan voru kjötbollur útbúnar. 10 kúlur af Allspice (sem stundum er kallaður Jamískur pipar skv Wikipedia), 1 tsk kúmen og 1/2 tsk kóríander var mulið í morteli og blandað saman við 500 gr af nautahakki, 1 eggi og smá brauðmylsnu var sett útí til að binda. Litlar bollur voru svo búnar til og látnar detta ofan í sósuna. Lokið sett á og látið malla í 30 mínútur.

Með þessu voru brún basmati hrísgrjón sem voru soðin með smá linsubaunum. Einfalt salat með. Heppnaðist vel - kannski aðeins of dóminant bragð frá allspiceinu - mun nota minna af því næst.

Wednesday, 3 January 2007

Gamlárskvöld í Glasgow - þvílíkt og annaðeins

Jæja - það er búið að vera mikið að gera. Skruppum til Glasgow þar sem vinkona mín er í söngnámi - þar býr hún með manni sínum og dóttur. Við ákváðum að heimsækja þau yfir áramótin og sáum ekki efitr því.
Vígdís eldaði...og ég meina eldaði...þetta var geðveikt...GEÐVEIKT!!!

Í forrét var ristað brauð með fois gras og sultu og ristað brauð með lax með sinnepssósu.
Kalkún - organinc með fyllingu ala Silver palate, sætar kartölfur með pecanhnetum, róskál með beikoni ala Nigella Lawson, rauðkál með balsamico, Waldorf salat.

Í desert var súkkulaðí búðingur - þvílíkt og annað eins. Það var take two á Nýárs. Mun blogga uppskriftirnar á morgun þar sem ég er að stelast inn á net nágrannans.
Later,