Alltaf vinsæll föstudagsmatur á mínu heimili. Eins einfalt og huxast getur.
Ég hef gert mikið af því að baka pizzur síðan að ég byrjaði að búa. Ég hef gert hefðbundnar í ofni, þunnbotna, þykkbotna, grillað á grilli og einnig í svona pizzaofni sem ég fékk í jólagjöf á seinasta ári. Eini gallinn við hann er að brauðuppskriftin mín hentaði ekki í fyrstu fyrir ofninn - alltof blautt deig - þannig að allt festist hjá mér þegar ég var að byrja að nota hann. En ég er búinn að taka hann í sátt aftur. Svilkona mín er samt orðin alger meistari í notkun þessa pizzaofns og á ég langt í að toppa hana þegar kemur að því að elda böku í svona ofni.
Ég er ekki með almennilega uppskrift (en er algerlega sannfærður að Jamie Oliver hafi lesið huxanir mínar og birt uppskrift mína í fyrstu bók sinni - the naked chef) þegar kemur að því að búa til botn - ég veit svona cirka hvað ég er að fara að elda fyrir marga (geri samt alltaf of mikið) og reyni að áætla (alltaf of mikið) út frá því.
Þegar ég geri bara fyrir fjölskylduna þá nota ég eftirfarandi; 500-700 gr. hveiti, 250 ml ylvolgt vatn, 2 tsk þurrger, ca 30 g salt, 30 g sykur eða hunang, og smávegis af olíu (auðvitað extra virgin). Blanda saman vatninu, gerinu og sykri (eða hunangi) saman og leyfi gerinu að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur svona 10-15 mín. Á meðan læt ég hveiti, olíu og salt í skál. Mikilvægt er að leyfa gerinu að vakna vel og rækilega og ekki setja saltið þarna úti - saltið hamlar aðeins gerjunarferlinu og við viljum það ekki á þessu stigi málsins. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hræra deigið vel - þannig hefast það mikið betur og bragðast líka betur. Ég vil að deigið dúi vel undan fingri og þegar áferðin er þannig að deigið jafnar sig hratt þegar maður ýtir fingri í það breiði ég viskastykki yfir skálina og leyfi að hefast - eins lengi og maður hefur tíma.
Svo er það áleggið. Ég set það sem ég á til. Ég er alltaf með tómatsósu - en í öllum fínni bókum sem ég á - er alltaf verið að reyna að fá mann til að sleppa sósunni - Það er bara ekki pitsa í mínum huga - þannig að ég set alltaf tómatsósu - Ég nota Hunt's þegar ég er að flýta mér (næstum alltaf) - Þetta er í frekar stórum dósum og ég notast við roasted garlic tomato sauce, en italian sausage er einnig ágæt. Svo raðar maður bara áleggi á. Ég set eiginlega alltaf rjómaost á hluta af pitsunni - það passar fullkomlega - eini gallinn við rjómaost (og ég meina eini gallinn) er að daginn eftir er bragðið oft ekki eins gott og kvöldið áður - en samt alveg ágætt.
Bon appetit.
No comments:
Post a Comment