Var á sólarhringsvakt á St. Jósefsspítala og laumaði inn fyrr í dag uppskrift sem var gömul og mjög góð. En til að gefa raunsanna mynd að því sem er að gerast í eldhúsinu mínu...verður maður líka að setja lummulegu hlutina sem manni dettur í hug. Og dagurinn í dag var einn af þeim dögum. Var um daginn að lesa gamla matreiðslubók sem ég á - sem fjallar aðallega um pastarétti. Þar sá ég uppskrift með laxi sem hljómaði ekkert svo illa. Í dag þegar ég var á heimleið mundi ég ekki alveg hvað átti að vera í henni og leyfði bara ímyndunaraflinu að ráða - ég held að ég hafi ekki verið svo langt frá því sem stóð í bókinni - ætla samt ekkert að gá að því - matreiðslubækur eru bara fyrir hugmyndir - ekki til þess að fara eftir að ...follow too the letter. Allavega!
Laxapasta - aftur redding.
300 gr af pasta - Orichette - var soðið í miklu söltuðu vatni. Sjá leiðbeiningar á pakka.
Keypti 500 gr af laxi í Hagkaup - sennilega alin í keri - ekki í sjókví, þar sem hann var dáldið feitur (alltaf að taka sjóalin lax sé þess einhver kostur - þar sem sá lax er líkastur þeim sem er veiddur villtur - það er vegna þess að sjóalin lax þarf að synda á móti straumnum í sjókvíinni og verður í vöðvameiri og ekki eins feitur og frændi hans í kerinu á þurru landi). Laxinn var þveginn og þurrkaður, saltaður og pipraður og steiktur í smá olíu með 3 kreistum hvítlauksrifjum - tekur svipaðan tíma og tekur að sjóða pastað.
Á meðan er sósan undirbúinn. 1 dós af 10% sýrðum rjóma blandað saman við 1 dós af tómatapaste. Saltað og piprað. Saxaði 20 lauf af fersku basil og 1/3 búnti af ferski steinselju og blandaði saman við. Tók 15 salvíu lauf og skar í tvennt. Olía hellt á pönnu og hituð vel og rækilega og salvíu laufinn djúpsteikt af pönnunni. Um leið og laufinn fara að missa lit sinn (verða brúnleit) takið úr pönnunni.
Þegar pastað er soðið er vatninu hellt frá - sósunni blandað saman við - laxinn er rifinn niður og hrærður saman við. Smakkað - ef sósan er of súr - þarf að sæta hana - þarna má nota bæði sykur eða hreinlega tómatsóu til að tóna sætuna niður (enginn skömm í því). Salvíunni bætt útí.
Dóttir mín fékk að útbúa salat í dag í úr því sem hún fann ísskápnum - kirsuberjatómatar, basil, rauður laukur og nokkrar sneiðar af höfðingaosti. Borið fram með brauði og smá hvítvíni. Heppnaðist alveg þokkalega.
No comments:
Post a Comment