Monday, 25 December 2006

Grænbaunapuréé - gott meðlæti með eiginlega hverju sem er

Hér um árið var ég í svona saumaklúbb - við kölluðum hann samt smíðaklúbb (ekta karlmenn þarna á ferðinni). Í þessum smíðaklúbb voru góðir félagar úr menntaskóla og hittumst við nokkrum sinnum. Það er langt liðið síðan við hittumst síðast, því miður. Það var mikill metnaður hjá þessum hópi manna í matreiðslu - kannski var það þess vegna sem hópurinn hefur ekki komið saman lengi - kláruðum flottu hugmyndirnar of snemma. Hvað sem því líður þá kom Trausti vinur minn - oft kallaður Sólbjartur - vegna þess að hann er alltaf brosandi - með graunbaunamauk sem við þá borðuðum ofan á brauð. Þetta var vel heppnað hjá honum. Þessi réttur rifjaðist svo upp fyrir mér nokkrum árum síðar þegar ég var að lesa eina af bókum Jamie Olivers en þar var hann með svona gulbaunamash.

Grænbaunapuréé.

Í þessari uppskrift er ekki notað ora grænar baunir í dós þó að þær séu nú ágætar til síns brúks. Ég kaupi frosnar sweet peas í poka. Nóg af vatni er hitað að suðu, saltað og baunirnar soðnar í nokkrar mínútur - ef búið er að þíða þær ca 4 mín en aðeins lengur ef þær koma beint úr pokanum. Því næst er vatninu hellt frá og baunirnar maukaðar töfrasprota. Því næst er steinselju, eða kóríander - bara vel af einhverjum ferskum kryddjurtum sett ofan í, í gærkvöldi notaði ég steinselju, 3 blöð af salvíu og basil. Næst er sett smá smjörklípa (10-20 gr), smá rjómaost (1 msk) og svo er þetta allt maukað saman. Saltað og piprað að smekk.

Þetta er svo borið fram sem meðlæti með góðum kjötrétt. Ég hef aðallega haft þetta með villibráð; dádýri, krónhirti, venison og núna hreindýralund. Virðist alltaf passa vel við.

No comments:

Post a Comment