Monday, 26 December 2016

Svipmyndir frá aðfangadegi; graflax og svínahamborgarahryggur á tvo vegu - sannkölluð veisla!

Þetta voru, eins og gert var ráð fyrir, góð jól! Eins og ég hef sagt mörgum sinnum áður - þá er það aðfangadagurinn sjálfur sem er mitt uppáhald. Ég hreinlega elska að verja heilum degi í eldhúsinu og undirbúa jólamáltíðina. Fátt finnst mér betra! Jú, kannski eitt - mér finnst eiginlega betra að heyra fólk dásama matinn sem maður hefur borið á borð. Sjá fólk njóta þess sem maður hefur útbúið með ást og kærleik. Það er kannski væmið - en það er satt.

Ég fékk margar fyrirspurnir fyrir jólin um hvernig ætti að elda svínahamborgarahrygg sousvide - og þar sem ég hafði aldrei gert það sjálfur var það algerlega ljóst að það varð að prófa það fyrir þessi jól. Ég fór aðeins á stúfana og renndi í gegnum FB hóp á netinu þar sem sousvidarar spjalla hver við annan og deila reynslusögum og þar var af nógu að taka - takk fyrir aðstoðina!

Svipmyndir frá aðfangadegi; graflax og svínahamborgarahryggur á tvo vegu - sannkölluð veisla! 

Ég var með 10 manns í mat á aðfangadag; auk fjölskyldunnar voru mamma og pabbi, bróðir minn og svo Hrafnhildur tengdamamma og kærastinn hennar Guðmundur.


Það voru miklar umræður á netinu hvort þyrfti að útvatna svínahrygginn áður en hann væri settur í sous vide og voru leiðbeiningarnar á ýmsa vegu, allt frá því að hann var hafður í vatni yfir nótt og svo ekkert útvatnaður. Það er viss lógík bak við þessar umræður þar sem hryggurinn er pæklaður í salti og er ansi megn. Hættan er að hann tapi miklum vökva við eldunina. Ég fór millileið og hafði hann undir rennandi vatni í klukkustund. 


Á meðan hitaði ég vatnið upp í 65 gráður. 


Svínahamborgarahryggur er ljúffengur biti - af hverju borðar maður þetta ekki oftar?



Ég hellti einum bjór í pokann með hryggnum. 


Ég setti hrygginn í tvo poka - þar sem um langa eldun var um að ræða - 5 klukkustundir - og því hætta á því að pokinn myndi byrja að leka (sem hann gerði þó ekki). Ég notaði IKEA poka og lokaði þeim undir vatnsþrýstingi. 


Hinn hryggurinn var útbúinn á hefðbundinn hátt (skv. Sigga afa). Ég breytti þó aðeins útaf hans ráðleggingum og hef hann á beði af rauðlauk, með hálfri flösku af rauðvíni, 1 l af kjúklingasoði, lárviðarlaufum og negulnöglum. Hitamæli var stungið í kjötið og hann eldaður í ofni þangað til að kjarnhiti náði 70 gráðum (tók um tvo tíma). Hægt er að lesa allt um þessa aðferð hérna.


Auðvitað var sósan gerð frá grunni - með mirepoix og heimagerðu soði (það eru nú jólin).


Ég hafði útbúið graflaxinn nokkrum dögum áður - notaði kryddblöndu frá Jóni í Friðheimum sem ég bætti smá sykri saman við. Var haft í kæli í þrjá sólarhringa og snúið tvisvar á dag. Lét 1 l mjólkurfernu ofan á til að pressa vökvann úr laxinum. 


Pabbi sá um að skera laxinn niður í örþunnar sneiðar. 


Brauðið var penslað með hvítlaukssmjöri og ristað í vöfflujárni. 


Við útbjuggum nokkra diska fyrir myndavélina. Hér var laxinum rúllað upp í blóm. 


Hér var hann bara flatur. Pabbi sá um að gera sósuna - blanda af sýrður rjóma, majónesi, dijon sinnepi, hlynsírópi og svo fersku dilli, salt og pipar eftir smekk. 


Snædís sá um að leggja á borðið og tryggja að jólastemmingin væri í fyrirrúmi. 


Eftir fimm tíma var hryggurinn tilbúinn. 


Pokinn lak ekki neitt. 


Hann var að mínu mati fullkomlega eldaður.


Kjötið var svo penslað með gljáa gerðum úr; Bola bjór, rauðvíni, balsamediki, hlynsírópi, salti og pipar og svo grillað í ofni. 


Mamma stóð vaktina í sósugerðinni - með smá eftirliti undirritaðs. 


Báðir voru einstaklega safaríkir. Sá sem var eldaður sousvide var mýkri og safaríkari. 


En sá sem var ofnbakaður var bragðbetri - þar hjálpaði rauðvínið og negulnaglarnir sem gáfu sérstaklega ljúffengt bragð. 



Og með matnum var að sjálfsögðu ljúffengt vín - ég prófaði nokkrar tegundir fyrir þessi jól og setti á FB síðuna mína. Þessi flaska varð fyrir valinu þessi jól. Marques Casa Concha Merlot 2013. Merlot vín hafa átt á brattann að sækja frá því að bíómyndin Sideways var sýnd en þar sagði aðalpersónan eitt sinn "I ain't drinking any fucking Merlot" - sala á þessum vínum tók dýfu í kjölfarið - fullkomlega að ástæðulausu. Þetta er ótrúlega ljúffengt vín - fallega dökkrautt í glasi með djúpum ávaxtailm, smá reyk og einkar gjöfult á tungu með miklum ávexti, kryddi, vanillu með löngu og gefandi eftirbragði. 



Fyrir mína parta segi ég bara - gleðileg jól. 




No comments:

Post a Comment