Sunday, 13 November 2016

Magnaður langeldaður lambaframpartur með steiktum haloumi osti, kraftmikilli chilitómatsósu á labneh brauði


Við erum búin að búa á Íslandi í þrjá mánuði og það er ekki hægt að segja annað en að tekið hafi verið á móti okkur með ást og hlýju. Við erum búinn að koma okkur vel fyrir. Eldhúsið er komið fullan gang en ennþá vantar smáatriði hér og þar um húsið til að klára þetta almennilega. Held að það skipti máli að klára þetta sem fyrst - annars venst maður því að hafa rússneskar perur á dreif um húsið.

Þetta er eiginlega það síðasta sem ég grillaði í sumar áður en við fluttum frá Brighton í Suður Englandi. Það eru kannski ekki margir sem grilla á veturna en við erum nokkur sem grillum hvort sem það er vetur, sumar, vor eða haust. En það er vel hægt að elda þennan frampart í ofni. 

Magnaður langeldaður lambaframpartur með steiktum haloumi osti á labneh brauði

Fyrir 6

Hráefnalisti

lambaframpartur
1/2 bolli norðurafrískt nudd (sjá neðar)
2 msk jómfrúarolía
6-12 labneh flatbrauð (einnig hægt að nota gróf burritobrauð)
250 g haloumiostur (fæst í Hagkaup)
kraftmikil chilitómatsósa (sjá neðar)
Salat, papríka, tómatar. 


Þetta nudd er unaðslegt á lambakjöt – hvort sem um er að ræða læri, frampart – já, eða heilt lamb. Ég er nokkuð viss um að þetta nudd yrði líka fyrirtak á kjúkling.

Norðurafrískt nudd

Hráefnalisti

4 msk paprikuduft
2 msk broddkúmen
2 msk kóríanderfræ
2 msk salt
1 msk engiferduft
1 msk hvítlauksduft
1 msk malaður pipar
2 tsk súmak

Hitið pönnu og ristið broddkúmen og kóríanderfræ þar til þau taka örlítinn lit og fylla herbergið af dásamlegum ilmi. Færið yfir í mortél og malið vandlega. Blandið paprikudufti, salti, engifer, hvítlauk, pipar og súmaki vandlega saman við.


Nuddið lambið fyrst með olíu og svo með norðurafríska nuddinu.


Ég grillaði lambið á óbeinum hita. Ég raðaði kolunum upp í "snák" þannig að kolin brenni hægt og við lágan hita. Ég setti líka örlítið af viðarspæni hér og þar til að fá reyk til að gefa kjötinu ennþá betra bragð. 


Svo er bara að setja lokið og á bíða í þrjá til fimm tíma þangað til að kjötið hreinlega dettur af beinunum. 


Á meðan er nógur tími til að útbúa tómatsósuna. 

Kraftmikil chilitómatsósa

2 dósir niðursoðnir tómatar
2 msk tómatmauk
1 gulur laukur
4 hvítlauksrif
2 msk jómfrúarolía
3 msk sambal oelek
1 rauður chilipipar
2 msk tómatsósa
salt og pipar

Sneiðið lauk, chili og hvítlauk fínt niður.  Hitið olíu í potti og steikið laukinn í nokkrar mínútur þar til hann mýkist og bætið svo hvítlauk og chili saman við. Gætið þess að brenna ekki. Hellið niðursoðnum tómötum saman við ásamt tómatmauki og sambal oelek. Þegar sósan er farin að krauma létt þarf að smakka hana til með tómatsósu, salti og pipar. Látið sósuna krauma varlega í 20 mínútur og kælið svo (jafnvel alveg) fyrir notkun. Geymist a.m.k. viku í ísskáp og svo má vel frysta hana líka.


Girnilegt! Kryddið myndar dökkan hjúp sem kallast "bark" eða börkur sem er sérstaklega ljúffengur. 


Namminamm! 


Kjötið var lungamjúkt. 


Ég skar allt kjötið niður svo hægt væri að raða því auðveldlega á flatbrauðið. 


Haloumi osturinn var skorinn niður í sneiðar og steiktur í jómfrúarolíu. 


Með svona mat er finnst mér gott að hafa rauðvínssopa og þetta vín passar vel með mörgum grillmat, sérstaklega krydduðum mat eins og ég er að stinga upp á hér. Sunrise Cabernet Sauvignion er vín sem margir þekkja og hafa smakkað nokkrum sinnum. Þetta er vín frá Chile - dökkrautt í glasi, góður ávaxtakeimur, létt fylling og ágætt tannín eftirbragð. Passar ljómandi með kraftmiklum mat! 


Þar sem chilisósan er sterk er ágætt að hafa eitthvað til að milda viðkvæmustu bragðlaukana. Jógúrtsósa er fyrirtak til að hafa með þessum rétti. Og hún er ofureinföld;

Bara blanda saman 200 ml jógúrt, tveimur smátt skornum hvítlauksrifjum, handfylli af smátt skorinni steinselju, kóríander og basil. Bragðbætið með einni teskeið af hlynsírópi og svo salti og pipar.

Bon appetit!


No comments:

Post a Comment