Friday, 7 October 2016

Eftirrétta-flatbaka - ljúffeng Bianca með gullosti og íslenskum bláberjum


Ég hóf störf á Landspítalanum strax eftir að við fluttum heim frá Englandi og fyrstu vikurnar stóð ég lyflæknisvaktina, staðsettur á Bráðamóttökunni í Fossvogi, við hliðina á einvala liði starfsfólks sem þar vinnur. Það var ótrúlega skemmtilegt að snúa til starfa aftur eftir átta ára fjarveru og hitta þarna fyrir lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraflutningamenn, móttökuritara og sjúkraliða sem ég kannaðist við frá mínum námsárum sem deildarlæknir á lyflæknissviði LSH á árunum 2005-08. Sá fyrir mér grínþættina, Cheers, þar sem ég gekk inn á vaktina og allsstaðar voru brosandi andlit gamalla samstarfsmanna. Það er eiginlega ótrúlegt að þau skuli hafa þolað að standa þarna vaktina öll þessi ár því að álagið er oftar en ekki ómanneskjulegt. Þarna streymir að veikt fólk úr öllum áttum.

Þegar ég yfirgaf Landspítalann haustið 2008 til að fara í framhaldsnám í Lundi í Svíþjóð skrifuðum við nöfn sjúklinga á töflu á vegginn, Í minningunni voru þarna sjaldnast fleiri en 15 sjúklingar í senn. Nú eru nær alltaf meira en 35 og jafnvel 40 þegar á móti blæs. Fráflæðið er líka vandamál þar sem sjúkrahúsið er alltaf yfirfullt af sjúklingum. Og á deildunum er líka vandamál að útskrifa sjúklinga þar sem vistunarúrræði eru afar takmörkuð. Og þó að veggirnir séu að bresta á saumunum stendur þarna fólk vaktina daginn inn og daginn út og heldur þessari stofnun saman. Án þessara starfsmanna væri allt farið í kaldakol. Ef þið þekkið heilbrigðisstarfsmann, þá skulið þið knúsa hann ærlega og þakka honum/henni fyrir - án þeirra væri ekkert heilbrigðiskerfi.

Og sem betur fer eru heilbrigðismálin í deiglunni. Ekki veitir af að við setjum okkur almennilega heilbrigðisstefnu. Setjum háleit markmið og náum þeim svo! Stjórnmálamenn og kjósendur verða að gjöra svo vel að spýta í lófana og setja fé í þetta vel verðskuldaða verkefni!

Jæja, nóg um það - á morgun er föstudagur!

Eftirrétta-flatbaka - ljúffeng Bianca með gullosti og íslenskum bláberjum 

Það eru margir með flatböku á föstudagskvöldið. Best er hún heimagerð. Í bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu, Í Grillveislunni sem kom út núna í vor var ég með nokkrar uppskriftir af flatbökum gerða úr súrdeigi sem er vel þess virði að skoða nánar. Að þessu sinni var ég bara með hefðbundið deig þar sem mér hefur ekki gefist tími til að setja í súrdeig ennþá - en það stendur til!

Hráefnalisti

700 gr hveiti
300 ml volgt vatn
2 msk jómfrúarolía
25 gr ger
25 gr sykur
2 tsk salt



Aðferðin er einföld. Blandið öllum hráefnum saman og látið hefast í eina til tvær klukkustundir. 


Skiptið síðan deiginu í nokkrar minni kúlur. Það er líka í góðu lagi að leyfa þeim að hefast aftur í 30-45 mínútur. 


Næst er að fletja deigið út eins þunnt og hægt er.


Það er um að gera að fá litla gleðipinna til að hjálpa til. Ragnhildur Lára var svo sannarlega til í að leggja til hjálparhönd. 

Oft er talað illa um íslenska osta. Ég er ekki sammála þeirri gagnrýni og finnst margir íslenskir ostar vera ljúffengir. Gullostur er þar í sérstöku uppáhaldi hjá mér. 


Svo þarf bara að pensla flatbökuna ríkulega með heimagerðri hvítlauksolíu. Setja smáræði af rifnum osti ofan á. Einnig þarf að huga að því að börnin borði ekki allan ostinn áður en hann fer á flatbökuna. 


Svo er bara að setja vænar sneiðar af gullosti ofan á!


Við gerðum einnig pepperoni flatböku að ósk Vilhjálms Bjarka. 


Patrekur vildi fá eina bara með skinku. 


Flatbökur verða alltaf betri með mikilli hvítlauksolíu.


Snædís vildi eina með nautahakki og ólífum. Auðvitað fékk hún það sem hún vildi. 


Nýi ofninn minn er algert dúndur þegar kemur að flatböku bökun. Hann er með sérstakri flatböku stillingu sem tryggir blúss- og jafnheitan ofn. 


Og þá fær maður að launum eina svona fegurðadís, skreytta með íslenskum bláberjum sem Vigdís Hrefna vinkona mín gaf mér þegar hún var í heimsókn hjá okkur nýverið. 

Með matnum gæddum við okkur á einni svona, Jacobs Creek frá Ástralíu. Þetta er kraftmikið Shiraz vín sem þeir geyma lengur á eikartunnum, enda kallað Reserve fyrir vikið. Þetta er bragðmikið vín, ögn kryddað - smá lakkrís á tungu og ljúft eftirbragð. Mér fannst það sóma sér vel með gullostabökunni minni. 


Ég hvet ykkur öll til að prófa - enda sælgæti á ferðinni.

Bon appetit.

No comments:

Post a Comment