Ég las einhvers staðar að Stefán Karl Stefánsson leikari væri orðinn garðyrkjubóndi. Og ekki bara venjulegur garðyrkjubóndi heldur væri hann búinn að innrétta gám í hrauninu í Hafnarfirði og ræktaði þar "örjurtir" eða microgreens eins og það er kallað á ensku. Hann er augljóslega það heitasta í garðyrkubransanum í dag og var meira að segja til umfjöllunar Kastljóssins, mánudaginn 29. ágúst síðastliðinn. Ég hafði upp á honum á Facebook og spurði hvort að ég mætti ekki koma og kynna mér það sem hann hefði verið að gera!
Og af hverju er ég eitthvað að hugsa um þetta? Svarið er einfalt - maður er einfaldlega að sækja sér innblástur. Það er gaman að sjá fólk takast á við áskoranir eins og það að stofna nýtt spennandi fyrirtæki, sérstaklega í matvælaframleiðslu! Það er líka svo áhugavert að sjá hvernig hugmynd sem einhver fær - getur orðið að einhverju - einhverju raunverulegu sem hægt er að horfa á, halda á og í þessu tilfelli - borðað.
Ég dvaldi drykklanga stund hjá Stefáni og fékk að smakka ólíkar spírur; baunagrös, karsa, sólfræspírur, sinnepsfræsspírur, kóríander, basil, timian, súrur ásamt mörgum fleiri tegundum sem hann er að rækta um þessar mundir. Stefán leysti mig svo út með nokkrum tegundum af ör-jurtum til að prófa og bæta matargerðina mína.
Örjurtinar frá Snjallbýli Stefáns Karls - hvítlauksglóðuð bruschetta með plómutómötum, mozzarella og ör-basil og svo fjögurra fiska ceviche með ör-kóríander
Auk þess að nota baunaspírur í salöt, sinnepsfræsspírurnar í kartöflumús og svo karsa í kartöflusalat gerði ég þessar tvær uppskriftir sem mér fannst nauðsynlegt að deila með ykkur.
Allt byrjar þetta með moldinni. Stefán Karl flytur inn mold þar sem engum aukaefnum hefur verið bætt við - engin viðbótarefni! En þar er þó að finna öll næringarefni sem fræið þarf á að halda til að
spíra.
Bara eftir rúman sólarhring eftir að fræjunum er sáð spíra þau. Þau eru fljót að þroskast þar sem þau skjóta rótum við sérstök skilyrði með hærri hita og stýrðu rakastigi. Þannig eru þau fljótari en ella að ná sér á strik.
Rétt um 2-3 sólarhringum síðar eru spírurnar teknar úr hitakassanum og færðar í "almenna farrýmið" þar sem þær fá að spretta nokkra daga í viðbót áður en þær eru sendar út í heiminn.
Eins og nefnt var að ofan er Stefán að rækta heilmikið af ólíkum jurtum sem hann selur mest til veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu.
Það ekki leiðinlegt að sækja sér innblástur í smiðju svona skapandi manna.
Fyrsta vers; Hvítlauksglóðuð brúsketta með smágerðum plómutómtöum, mozzarella og örbasil
Skerið handfylli af smáum plómutómötum í bita og setjið í skál. Hellið tveimur matskeiðum af jómfrúarolíu saman við. Sneiðið mozzarellaostinn í samskonar bita og blandið saman við tómatana. Saltið og piprið. Blandið helmingnum af basilinu saman við og geymið afganginn til skreytingar.
Penslið niðurskorna baguettu með kröftugri hvítlauksolíu og glóðið í blússheitum ofni.
Þetta var einstaklega ljúffengt - "intensívt" og bragðgott.
Annað vers; Fjögurra fiska ceviche með melónu og ör-kóríander
Þetta er ótrúlega einfaldur og ljúffengur forréttur sem ég útbjó fyrir kollega mína frá Svíþjóð sem komu hingað nýlega í tengslum við norrænu gigtarráðstefnuna sem haldin var í Hörpu liðna helgi.
Ég notaði 300 g af hverri fisktegund; lax, hörpuskel, lúðu og smáhumar sem var skorið niður í hentuga bita og sett í skál með safa úr 3 sítrónum, 3 límónum, 5 msk jómfrúarolíu, berkinum af bæði límónunum og sítrónunum. Piprað. Ekki þarf að salta fiskinn á þessu stigi. Bætti einnig handfylli af steinselju saman við. Þetta var svo sett í ísskáp yfir nótt og hrært í þessu nokkrum sinnum.
Eftir sólarhring er fiskurinn tilbúinn. Sítrónu og límónusafinn hefur umbreytt fisknum þannig að hann er í raun eldaður. Vökvanum er síðan hellt frá. Skar niður melónu í litla bita og blandaði saman við fiskinn ásamt talsvert af ör-kóríandernum. Saltaði og pipraði eftir smekk.
Borið fram með ristuðu hvítlauksbrauði og einfaldri hvítlaukssósu (sýrður rjómi, hvítlaukur, salt og pipar, skvetta af hlynsírópi). Svo setti ég nóg af ör-kóríander ofan á til skreytingar.
Einstaklega ljúffengt!
Í veislunni með kollegum mínum bar ég fram nokkra rétti og var með að auki; moules marniere, marineraðar og djúpsteiktar gellur (láðist að taka mynd af tilbúnum réttinum) og svo glóðaða þorskhnakka með skorðalía kartöflumús og ansjósusmjöri. Í eftirrétt var svo akút ostakaka (sem kemur á bloggið von bráðar)
Með þessum réttum bar ég fram þetta ljúffenga nýsjálenska vín - Brancott Estate Sauvignion Blanc frá því 2014. Fyrri árgangar þessa víns hafa unnið til verðlauna. Þetta er fallega fölgult vín í glasi. Mjúkur jarðkenndur ilmur og svo mikil ávöxtur í bragðinu með smá kryddi og þægilegu eftirbragði.
Þetta vín passaði ljómandi vel með matnum.
No comments:
Post a Comment