En fjörið hófst hjá mér daginn áður! Við hjónakornin náðum þó að skreppa í sund um morguninn (ekki hægt að hugsa sér betri byrjun á degi en í Vesturbæjarlauginni). Um hádegisbil hittumst við brúðguminn og byrjuðum útréttingar. Það þurfti að fara í eldhúsið - sem við höfðum fengið að láni! Þaðan var farið í verslunarleiðangur og ýmsar nauðsynjar sóttar, síðan í Kjöthöllina þar aðalrétturinn var undirbúinn (meira um það í næstu færslu)! Við sóttum brjóstbirtu - bæði bjór og vín fyrir brúðkaupið!
Mér var skilað heim í foreldrahús um kvöldmatarleytið þar sem mín beið eldhús fullt af dýrindis sjávarfangi! Bróðurparturinn var fyrir forréttina sem voru undirbúnir seinna um kvöldið en svo hafði móðir mín, Lilja, sótt dásamlega ferska rauðsprettu til vina minna í Fiskbúðinni á Sundlaugarveginum. Ég veit ekkert betra en þegar ég kem til Íslands en að fá ferskan fisk - hvergi kemst maður í betra sjávarfang en í íslenskum fiskbúðum! Ég gerði þennan ótrúlega einfalda en á sama tíma sérlega ljúffenga rétt - Smjörsteikt rauðspretta ala meuniére!
Södd og sæl vorum við því tilbúinn í að undirbúa forréttina. Ég var svo heppinn að foreldrar mínir, Ingvar og Lilja, og Snædís, eiginkona mín voru mér innan handar. Það gerði verkið ekki bara létt heldur líka skemmtilegt. Með bjórglas í hönd og ljúfa tóna á fóninum varð þetta nokkuð fljótgert. Myndin hér að ofan er auðvitað af dugnaðarforkunum, foreldrum mínum - takk aftur elskurnar mínar!
Sjávarréttaþríleikur - Laxavindlingur með wasabe og eplum, crostini með laxamús og að lokum rækjukokteill ala mode
Það voru eitt hundrað gestir í veislunni og því gerðum 300 forrétti. Flest var undirbúið kvöldið áður, nema hvað faðir minn tók að sér að rista crostini-ið samdægurs þannig að það yrði stökkt og ljúffengt þegar það var borið á borð.
Laxavindlingurinn er einföld og ljúffeng uppskrift.
Fyrir 30 laxavindlinga;
30 sneiðar af laxi
300 g rjómaostur
100 g sýrður rjómi
4 hvítlauksrif
1 tsk wasabe
1/2 grænt epli
1/3 gúrka
salt og pipar
Blandið rjómaostinum vandlega saman við sýrða rjómann. Bætið wasabe saman við. Flysjið og kjarnhreinsið eplið og skerið í smáa bita og bætið saman við blönduna. Hreinsið kjarnann úr agúrkunni og skerið smátt niður. Saxið eða merjið hvítlaukinn. Blandið öllum þessum hráefnum saman og smakkið til með salti og pipar.
Leggið síðan eina sneiða af laxi á borðið, setjið matskeið af fyllingunni á miðja sneiðina og rúllið upp í vindling. Berið fram á beði af blönduðum grænum laufum.
Fyrir 30 snittur
300 g reyktur lax (má líka nota 150 g reyktan lax á móti 150 g af soðnum laxi)
3 litlir vorlaukar
2 hvítlauksrif
2 msk mjúkt smjör
4 msk þeyttur rjómi
safi úr hálfri sítrónu
salt og pipar
graslaukur og vorlaukstoppar til skreytingar
1 baguetta
hvítlauksolía og smjör til steikingar
Skerið niður laxinn, setjið í matvinnsluvél og tætið vel. Færið í skál. Setjið vorlaukinn og hvítlaukinn saman í matvinnsluvélina og maukið. Blandið svo saman við laxinn. Hrærið smjörinu saman við laxinn, hálfþeytið rjómann og blandið honum saman við. Saltið og piprið. Smakkið til með sítrónusafanum. Skerið baguettuna í þunnar sneiðar og steikið á heitri pönnu upp úr hvítlauksolíu og smjöri þangað til það er fallega gullinbrúnt. Saltið ef vill. Smyrjið laxamúsinni ofan á brauðið og skreytið með vorlaukstoppunum og graslauknum.
Rækjukokteil ala mode var skilmerkilega gerð skil í síðustu færslu. Lesa má allt um það hérna!
Mér finnst þetta vera nokkuð laglegur diskur - og það sem er ennþá mikilvægara - þá var þetta bara ári gott!
Svo var bara að raða þessu á 100 diska.
Ég fékk einnig aðstoð við að raða þessu á diskanna. Einn af starfsmönnum safnaðarheimilisins, Ingunn, var mér innan handar við að raða á diskanna svo þetta myndi allt hafast á réttum tíma!
Bon appetit!
No comments:
Post a Comment