Þessi réttur er innblásin af myndbandi sem ég sá á netinu um daginn. Þar sá ég kokk matreiða Murgh Makhani sem er hindi fyrir kjúkling í smjörsósu. Þetta virkaði á mig sem afar heillandi uppskrift. Ég fór á stúfana og eins og áður þá eru til óteljandi uppskriftir af þessum rétti á netinu, margar hverjar ansi heillandi. Mér þykir þetta góð leið til að fá innblástur - lesa margar uppskriftir og reyna svo að leika það eftir eftir minni. Það er skemmtilegt hvaða hlutir það eru sem maður man alltaf og hvaða það er sem maður gleymir.
En allaveganna - þá langaði mig til að breyta aðeins til. Ég átti fallega þorskahnakka í frystinum sem vinkonur okkar komu með frá Íslandi þegar þær komu í heimsókn í sumar. Þær komu með þrjá pakka af dásemdar fiski frá Steina í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum! Ég á sem betur fer ennþá skötuselinn eftir! Mér fannst því gráupplagt að prófa uppskrift innblásna af því sem ég hafði lesið á netinu með þorski í staðinn fyrir kjúkling. Og það var allt annað en vitlaus hugmynd!
Ljúffengur "Makkhana kŏḍa - þorskur í tómatsmjörsósu" á indverska vísu með hrísgrjónum
Sósan er gerð alveg sér og mætti í sjálfu sér notast með öðru en fiski. Upprunalega var jú hugsað að hafa hana með kjúklingi sem er ábyggilega ekkert síðra.
Fyrir fjóra til sex
Hráefnalisti
Fyrir þorskinn
1 kg þorskhnakki
1 tsk gróft salt
1/2 tsk nýmalaður pipar
1 tsk garam masala
2 tsk túrmerik
1 tsk papriku duft
1/2 hvítlauksduft
Fyrir sósuna
75 g smjör
2 skalottulaukar
4 hvítlauksrif
1 kanilstöng
1 msk paprikuduft
2 tsk túrmerik
1 tsk broddkúmen
1 tsk garam masala
fræ úr 4 kardimommum
3-4 negulnaglar
2 msk tómatpúre
1 dós niðursoðnir tómatar
Safi úr 1/2 sítrónu
150 ml rjómi
Takið eina kanilstöng, þrjá til fjóra negulnagla og svo fræin úr fimm kardimommum. Það kemur mikið bragð úr þessum kryddi.
Skerið tvo skarlottulauka og hvítlauksrifin smátt niður og steikið í smjörinu.
Tvær kúfaðar skeiðar af tómatmauki gefa sósunni fallegan lit og kraft.
Safi úr hálfri sítrónu.
Bætið við kúfaðri skeið af papríkudufti saman við sósuna.
Og svo túrmeriki, broddkúmeni og garam masala kryddblöndu.
Bætið rjómanum saman við og hitið að suðu og látið sósuna krauma í 15 mínútur.
Ég klæddi ofnskúffu með álpappír og lagði fiskinn ofan á. Blússhitaði ofninn á hæsta mögulega hita með grillið í gangi!
Setjið fiskinn í miðjan ofninn og grillið í sjö til árra mínútur.
Tyllið svo fisknum í sósuna og skreytið með steinselju, eða kóríander.
Berið á borið með hrísgrjónum og þessu ótrúlega einfalda tómat- og lauksalati. Skerið laukinn og tómatana með mandólíni. Raðið á disk. Setjið safa úr hálfri sítrónu yfir og svo skvettu af jómfrúarolíu. Saltið og piprið.
Núna er sko tími til að njóta!
No comments:
Post a Comment