Thursday, 5 December 2013

Pönnusteiktar kjúklingabringur í hvítvínssoðsósu með ferskum tómötum og svörtum kalamata ólívum!

Ég rataði á þessa hugmynd í morgun þegar ég horfði inn í ísskápinn sem mér fannst heldur fátæklegur að þessu sinni - ekki mikið til! En þá er gott að reyna að liðka aðeins fyrir ímyndundaraflinu og bara einbeita sér að því sem er til. Ég fann tvær öskjur af litlum plómutómötum út í glugga og svo hálfa krukku af kalamataólívum í ísskápnum. Átti nokkrar kjúklingabringur í frystinum. Og þá var það bara ákveðið. Einfalt og laggott! Og ef hráefnið er gott þá eru ekki miklar líkur á því að þetta muni misheppnast. 

Margir af réttunum mínum eru með þeim hætti að hráefnalistinn er stuttur en það þýðir að leggja þarf áherslu á að vera með vandað hráefni - svo maturinn verði ljúffengur. Sé þeim kröfum mætt er eftirleikurinn einfaldur. 

Ég trúi því varla að það sé kominn desember. Ég er sannfærður að við erum fleiri í þessum sporum. Hvernig má það vera að tíminn þjóti svona hratt framhjá manni. Bara fyrir korteri (1. nóvember) var ég á Íslandi að kynna bókina mína. Fyrir hálftíma (16. október) fékk ég bókina mína í hendurnar. Fyrir þremur korterum lauk ég við að skrifa hana og fyrir rétt rúmum klukkutíma ákváðum við að gera þessa bók. Djísus hvað tíminn flýgur! Eins gott að vera duglegur að njóta hans! 

Pönnusteiktar kjúklingabringur í hvítvínssoðsósu með ferskum tómötum og svörtum kalamata ólívum!

Innihaldslýsing

4 kjúklingabringur
4 hvítlauksrif
1 gulur laukur
50 gr smjör
350 gr litlir plómutómatar
20-30 kalamataólívur
1 lárviðarlauf
100 ml hvítvín
300 ml kjúklingasoð
1 tsk hökkuð steinselja
1 msk kapers
salt og pipar

Meðlæti

Hrísgrjón
Salat með iceberg, lárperu, rauðlauk, gúrku og fetaosti
Spergilkál



Byrjið á að saxa hvítlaukinn og laukinn smátt niður.


Þerrið bringurnar og saltið og piprið að utan. 


Bræðið smjör á pönnu.


Steikið svo lauk og hvítlauk. Saltið og piprið lítilega. 


Bætið svo einu fersku lárviðarlaufi á pönnuna (tveimur séu þau þurrkuð).


Skolið tómatana.


Sneiðið tómatana í helminga til að vökvinn fari hraðar úr þeim og blandist víninu og sósunni. 


Bætið svo tómötunum og ólífunum út á pönnuna. Steikið í tvær til þrjár mínútur. 


Hellið hvítvíninu saman við og sjóðið niður áfengið! Allir alvöru kokkar hefðu fengið sér smá sopa með en ég átti eftir að ná í Valdísi dóttur mína í sund svo ekkert varð úr því! 


Hellið svo kjúklingasoðinu saman við og sjóðið upp. Sjóðið síðan niður um helming.


Fimm mínútum áður en kjúklingurinn er tilbúinn setjið þið kapers saman við. Skreytið með steinselju áður en rétturinn er borinn fram. 



Með matnum drukkum við þetta ljúffenga hvítvín - ég bloggaði um það nýverið - ég hafði keypt nokkrar flöskur af því. Því var tilvalið að opna eina flösku með þessum rétti!  Wolf Blass Yellow Label Chardonnay frá því 2011. Þetta er ástralskt vín. Létt og frískandi, ávaxtaríkt með sýrukeim. Þetta er fjórða, eða fimmta sinn, sem ég smakka þetta vín - og það svíkur ekki!


Þetta var einstaklega ljúffengur réttur með góðu jafnvægi! Þennan á ég eftir að gera aftur.

Núna, loksins núna, er kominn tími til að njóta! 


Í bókinni minni er fullt af svona einföldum og ljúffengum uppskriftum. Önnur prentun er væntanleg í verslanir í næstu viku! 




No comments:

Post a Comment