Móðir mín, Lilja María, er góður kokkur. Það eru þau reyndar bæði foreldrar mínir - og bera hvað mesta ábyrgð á þráhyggjukenndri ást minni á mat og matseld. Móðir mín á marga góða rétti í handraðanum og þessi var oft á boðstólunum á sunnudagskvöldum. Þegar við hjónin vorum að byrja að slá okkur upp - hérna snemma árs 1997, þá bauð móðir mín verðandi tengdadóttur sinni upp á þennan rétt. Snædís man vel eftir því þegar við settumst niður að borðum og gæddum okkur á þessum rétti. Ég veit ekki hvort það hafi verið ástæðan fyrir því að Snædís ílengdist með mér en það er á hreinu að það varð ekki til að ýta henni á braut!
Þetta er klassísk matseld. Nudda kjúkling upp úr góðu kryddi og baka í ofni. Rjómalöguð sveppasósa gælir auðvitað við bragðlaukana og hefur þetta "umami" bragð sem flestum nautnaseggjum finnst eftirsóknarvert - já og flestum reyndar.
Aðferðin við að elda grænmeitið er líka fengið frá foreldrum mínum. Þau kynntust þessari aðferð þegar þau voru eitt sinn á ferð í Afríku - Suður-Afríku að mig minnir! Og fengu þar grænmeti sem var eldað á þessa vísu. Og þetta er alveg frábær aðferð - það sætir eiginlega furðu að ég skuli ekki elda þennan rétt oftar. Jæja ...vindum okkur í þetta!
Ofnbakaður kjúklingur að hætti mömmu með rjómalagaðri sveppasósu og afrísku grænmeti
Ég keypti Bjärekjúkling, sem er frá Torekov á norðvestanverðum Skáni og alinn upp við miklu betri skilyrði en almennt tíðkast við framleiðslu kjúklings. Hann er ekki hafður í búrum, alinn á skánskum maís, engin sýklalyf, fær að lifa talsvert lengur en vaninn er við framleiðslu hefðbundins kjúklings. Og ég er sannfærður um að hann sé bragðbetri! Svona kjúkling finnst mér alltaf hafa vantað á Íslandi!
Ég lagði kjúklinginn í eldfast mót ofan á beð af grænmeti - mirapoix (eins og alltaf) - lauk, sellerí og gulrætur. Penslaði kjúklinginn með bráðnu smjöri og nuddaði með papríkudufti, salti, pipar og smá timian.
Bakað í ofni við 180 gráður þangað til að kjarnhiti náði 82-84 gráðum. Tekin út á látin standa í augnablik áður en hann var skorinn niður.
Þá að grænmetinu. Ég skar niður nokkrar gulrætur, kartöflur, eins brokkolíhaus og svo einn hvítan lauk. Grænmetið forsauð ég í vel söltuðu vatni í 10 mínútur. Vatninu hellt frá.
Því næst skar ég niður 5 hvítlauksrif og steikti í olíu - gætti þess vel að það fengi ekki að brenna. Þegar hvítlaukurinn var glasandi setti ég grænmetið saman við og steikti í 4-5 mínútur.
Ég skar niður 250 gr af sveppum sem ég síðan steikti í smjöri ásamt tveimur litlum skarlottulaukum og 2-3 hvítlauksrifjum.
Steikti sveppina þangað til að þeir fóru að brúnast og gáfu frá sér hnetukenndan ilm. Þá setti ég 250 ml af heimagerðu kjúklingasoði samanvið og sauð upp. Þá pela af rjóma og sauð upp að nýju. Saltað og piprað. Hellti síðan öllum vökvanum sem rann af kjúklingum í gegnum sigti saman við sósuna og hrærði vel. Saltað og piprað. Hérna hefst síðan hin hefðbundna sósugerðarlist. Það þarf alltaf að "djassa" upp sósuna þangað til að hún er eins og hún á að vera. Þessi sósa þurfti smá soya og síðan teskeið af rifsberjasilli, aðeins meira af salti og pipar. Fullkomin!
Kjúklingurinn var safaríkur, lungamjúkur og dásamlega góður á bragðið.
Cotes du Rhone |
Bon appetit!
No comments:
Post a Comment