Það er föstudagskvöld í Lundi og þá hefur orðið til sú hefð að baka pitsur. Einstaka sinnum svíkur maður þó lit og pantar - en slíkt er alger undantekning. Og síðastliðin misseri hafa börnin mín, Valdís og Villi verið mér innan handar við pitsugerðina og þá fengið að fletja út deigið og velja sér álegg. Í þetta sinn hvatti ég börnin til að prófa eitthvað annað en að þau voru vön og gerði ég sömuleiðis hið sama.
Ég hef oft bloggað um pitsugerð áður - og það er kannski ekki að undra þar sem ég algerlega elska að gera pitsur og svo er ég líka ennþá hrifnari af því að borða þær. Þessi réttur sameinar bæði brauðgerð og svo endalausan fjölbreytileika vegna þeirra mismunandi áleggja sem má nota til að skreyta pitsuna. Í gegnum tíðina hef ég sett flest á flatbökur; allt frá skinkusneiðum upp í villibráð og flest allt sjávarfang og allt þar á milli.
Pizza Calzone með gómsætu áleggi og börnin gera tilraunapitsur!
Brauð
600-700 gr hveiti
1 1/2 tsk salt
3 msk jómfrúarolía
15 gr þurrger
400 ml volgt vatn
30 gr sykur
Tómatsósa
1 laukur
3 hvítlauksrif
1 msk jómfrúarolía
1 dós niðursoðnir tómatar
Salt og pipar
2-3 msk hökkuð steinselja og basil
Álegg að eigin vali
Fyrst er að huga að því að gera deigið. Best er að byrja nokkrum klukkustundum áður og leyfa deiginu að hefast í nokkrar klukkustundir.
Veljið hveititegund - um 600-700 gr af hveiti (að þessu sinni notaði ég blöndu af hvítu próteinríku hveiti og spelti), setti í skál og bætti 1 1/2 tsk af salti og 3 msk af jómfrúarolíu saman við. Einn pakki af geri er vakinn í ca 400 ml af ylvolgu vakni, bætti síðan við 30 gr af sykri til að flýta fyrir vakningu gersins. Þegar gerið er byrjað að freyða er því bætt varlega saman við hveitið sem er síðan hnoðað í 10 mínútur í matvinnsluvél. Stundum þarf að nota meira eða minna af vatni eftir því hvaða mjöl varð fyrir valinu.
Tómatsósan er ákaflega einföld. Gerð hennar hefur líka þróast hjá mér. Hér á árum áður var ég með allskyns tilburði en núna hefur maður horfið aftur til hefðarinnar og einfaldleikans. Oft er hann bara bestur.
Einn laukur og 3 hvítlauksrif eru steikt í matskeið af jómfrúarolíu. Þegar laukurinn fór að glansa settti ég eina dós af lífrænum niðursoðnum tómötum saman við. Saltað og piprað og síðan soðið upp. Smakkað og oft þarf að sykra sósuna lítillega, annað hvort með sykri eða bara svindla með því að nota tómatsósu. Bætti síðan 2-3 matskeiðum af hakkaðri steinselju og basil saman við í lokin.
Sonur minn var ekki lengi að detta í ham - með pitsu með skinku, sveppum, basil og eplum, Valdís fór meira á klassísku línuna, en kannski óvenjulegt fyrir ellefu ára krakka, að setja túnfisk, kapers og þistilhjörtu - hún hefur góðan smekk.
Okkur áskotnaðist þessi fíni nýi pensill frá Le Creuset þegar við vorum á Íslandi ásamt nokkrum öðrum góðum verkfærum (fæst í Búsáhöldum í Kringlunni).
Ég gerði þessa einföldu Calzone pitsu - sem er í raun ekki frábrugðin venjulegum flatbökum nema að því leyti að botninn er brotinn saman og pitsunni lokað.
Ég raðaði saman því helsta sem varð afgangs á borðinu þegar að börnin voru búin að velja úr; skinku, lauk, salami, papríku og svo ostur að sjálfsögðu.
Deigið var síðan brotið saman eins og sést á myndinni.
Næst er síðan að vefja vel upp á kantana til að innsigla innihaldið inni í brauðinu.
Að lokum er pitsan pensluð með olíu og söltuð aðeins.
Bökuð í blússheitum ofni á pitsasteini þangað til skorpan er orðin fallega gullin!
Þegar maður sker svo í pitsuna þá vellur innihaldið út og ilminn leggur um eldhúsið!
Hérna er svo afurð Villa og Valdísar. Faðirinn var verulega stoltur!
Borið fram með smávegis rauðvínstári sem okkur hafði verið fært frá nágranna mínum. Ljómandi spánskt Rioja vín frá 2006. Ljúffengur sopi.
Bon appetit!
Thank you for sharing this wonderful and useful information with us. This blog very help full for everyone.
ReplyDeletecalzone pizza near me