Það er engum blöðum um það að fletta að það er komið haust hjá okkur í Lundi. Það hefur blásið hressilega á okkur síðastliðna daga og trén taka sinn toll. Þau eru þó lituð fallegum haustlaufum sem eru byrjuð að falla til jarðar! Það er hressandi að fara í góða gönguferð í haustveðrinu og njóta árstíðabreytinganna sem núna eru að ganga í garð. Þar sem ég vinn heima mestmegnis þá gefast mörg tækifæri til þess.
Myndin hér að ofan var tekin við sólsetur þegar við horfðum niður götuna og sáum hvernig sólin skyndilega lýsti upp himininn stórkostlegum gullnum lit - svo sterkum að maður fékk í augun.
Á haustin finnst mér alltaf gott að elda það sem ég myndi kalla "comfort mat" - mat sem yljar sálinni og hlúir að manni. Maður saknar hlýja sumarsins og vantar eitthvað til að ylja upp hjartaræturnar og þá eru réttir eins og þessir mér sérstaklega kærir. Confit du Canard - andaleggir eldaðir í andafitu hafa verið í uppáhaldi hjá mér í áraraðir. Auðvitað er hægt að gera þetta sjálfur. Að hita andaleggi í þrjá til fjóra tíma hulda andafitu þangað til þeir eru eldaðir í gegn - dásamlegt. En svo er líka hægt að kaupa þetta tilbúið eins og ég gerði núna. Og þá þarf lítið annað en að hita leggina í ofni þangað til að húðin verður stökk eins og kex. Betri mat á köldum haustdegi er varla hægt að hugsa sér.
Knassandi Confit du Canard með Puy linsum og góðu rauðvíni
Þessi réttur er ættaður frá Suður Frakklandi. Þetta er einfaldur réttur í alla staði og á sér langa sögu. Puy linsur eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Þetta eru litlar linsubaunir eins og nafnið gefur til kynna.
Fallega tvílitar og halda sér sérlega vel við suðu - mun betur en margar aðrar linsutegundir sem margar hverjar una sér vel sem undirstaða í súpur eða kássur! Svo taka þær líka einstaklega vel í sig bragðið af þeim vökva sem þær eru soðnar í!
Ég sauð linsurnar, 400 gr í rúmum lítra af vatni sem ég hafði sett í tvo teninga af kjúklingakrafti ásamt vöndli af kryddjurtum, steinselju, timian og lárviðarlaufi - í rúma hálfa klukkustund.
Á meðan linsurnar suðu skar ég niður eina gulrót, tvær sellerístangir, einn heldur smáan hvítan lauk og tvö hvítlauksrif. Steikti síðan grænmetið uppúr matskeið af smjöri, saltaði og pipraði.
Þegar grænmetið var orðið fallega gljáandi bætti ég linsunum saman við og steikti saman í nokkrar mínútur þar til vel blandað saman.
Að þessu sinni tók ég andaleggina úr plastinu og raðaði á ofnplötu hjúpaða með álpappír. Setti álpappír ofaná til að hindra að fitan skvettist út um allt og hitaði í gegn í 20 mínútur í 180 gráðu forhituðum ofni. Síðustu þrjár mínúturnar tók ég álpappírinn af og setti grillið í gang til að fá húðina stökka eins og kex.
Heppnaðist næstum fullkomlega - brann bara smávegis. Hellti síðan fitunni sem hafði runnið af öndinni yfir legginn og bar fram á beði af linsum.
Chaterneuf du Pape |
Með matnum drukkum við þetta ljómandi góða rauðvín úr Rínardalnum. E.Guigal Chateauneuf-du-Pape frá því 2005. Þetta er vín sem hefur síðustu árin fengið afar háar einkunnir í Wine Spectator - þessi árgangur fékk 96 punkta í þessu virta tímariti. Þetta er blanda af nokkrum þrúgutegundum og er ljúffengur sopi. Fallega djúpt, rúbinrautt í glasinu, ilmar af þroskuðum ávöxtum, á bragðið kryddað og með keim af kröftugum ávexti, súkkulaði og jafnvel ögn af vanillu! Frábært vín!
Eftir að myndin var tekin hellti ég síðan smávegis af andafitunni yfir legginn. Dásamlega safaríkt og með knassandi stökkri andapuru!
Bon appetit!
No comments:
Post a Comment