Friday, 7 September 2012

Ofnbakaður lax með mangó chutney, grilluðum kúrbit og hrísgrjónum

Ragnhildur Lára níu daga gömul

Það hefur verið ansi haustlegt síðasta sólarhringinn. Það blæs hraustlega úti og hitinn hefur fallið talsvert síðan í upphafi vikunnar. Ég kveikti meira að segja upp í arninum í fyrsta sinn í morgun til að ylja manni aðeins um tærnar. Annars hefur maður nóg til að ylja sér um hjartaræturnar. Litla dóttirinn mín, Ragnhildur Lára, er alveg eins og hugur manns. Sefur nánast allan sólarhringinn - og þegar hún er vakandi þá er hún svo róleg að hún virðist næstum íhugul! Núna kúrir hún hliðina á mér í ylnum frá arninum.

Nú eru tvær vikur síðan að hún kom í heiminn. Ég er búinn að vera heima síðustu vikurnar í feðraorlofi. Foreldraorlof er ansi rausnarlegt hérna í Svíþjóð verður að segjast. Við fáum 480 daga með nýfædda barninu - þar af 60 daga sem við getum tekið út á sama tíma. Ég á síðan allt sumarfríið mitt eftir í ár og hef ákveðið að vinna 50% þangað til að sumarleyfisdagarnir klárast. Þetta verður dásamlegt haust!

Ofnbakaður lax með mangó chutney, grilluðum kúrbit og hrísgrjónum

Heill lax

Nýlega var lax á tilboði í City Cross - ef maður keypti hann heilan, sem ég og gerði. Það var ár og öld síðan að ég flakaði lax seinast og því voru handtökin ansi hrossaleg! En flökin komu nokkuð heil undan átökunum. 

Kúrbítur úr garðinum

Ég hef verið að rækta kúrbít í sumar, bæði gulan og grænan og fengið allt of mikla uppskeru. Við gætum hreinlega verið með kúrbít í hvert mál. Sumir af þeim eru orðnir ansi stórir eins og þessi mynd ber með sér. 


Niðurskorinn kúrbítur

Eins og sést á myndinni þá er þessi kúrbítur orðinn nokkuð þroskaður. Væri hann aðeins meira þroskaður en þessi mynd gefur til kynna er lítið mál að skera bara miðjuna úr og notast bara við grænmetiskjötið. 

Sharwoods Mango Chutney

Sharwood's er chutney frá Englandi og er það besta sem ég get nálgast hérna í Svíþjóð. Það er ekki eins sætt og sænsku keppinautarnir, mikið mangó og góð sýra. Til að ná upp sætunni sem er oft svo góð með laxinum þá bætti ég einni msk af hunangi við hálfa krukkuna. Bætti að auki tveimur msk af olíu saman við chutney-hunangið.


Mangólax

Chutney/hunangs blöndunni var síðan makað yfir laxinn, saltað og piprað og að lokum var hökkuðum vorlauk dreift yfir. Sett inn í forhitaðann ofn, 180 gráður í 25 mínútur. 

Grillaður kúrbítur


Kúrbíturinn var penslaður með olíu, saltaður og pipraður og svo grillaður á pönnu þangað til hann var mjúkur og góður. Settur á disk og nokkrum laufum af steinselju dreift yfir.

Kominn úr ofninum

Það þarf að passa sig á því að elda fiskinn ekki of lengi. Ein aðferð sem ég sá Jamie Oliver gera var að  að stinga í fiskinn með hníf og leggja síðan hnífblaðið að vörum sér. Væri hitinn þægilegur væri fiskurinn tilbúinn - skaðbrenndist mann á vörunum væri hann ofeldaður. Svo má líka bara skoða fiskinn og sé hann fallega fölbleikur þá er hann tilbúinn. Hann heldur líka aðeins áfram að eldast eftir að hafa verið tekinn úr ofninum - svo er alltaf hægt að stinga honum aftur inn í ofninn sé hann ekki nægjanlega eldaður.
Beringer Napa Valley
Með matnum fengum við okkur Beringer Napa Valley Sauvignion Blanc frá 2010. Ljúffengt vín. Þetta vín er gert úr Sauvignion Blanc þrúgu eins og nafn flöskunnar gefur til kynna. Þessi flaska hefur fengið ágæta dóma á Wine Spectator, um 85 púnta. Þurrt en bragðmikið og ávaxtaríkt vín sem er einnig létt eikað.

Gerði einnig ótrúlega einfalda sósu. 100 ml af sýrðum rjóma og svo eina og hálfa msk af mangóchutney - hrært saman.


Maturinn kominn á diskinn.

Bon appetit!

1 comment:

  1. Kvitt og takk kæri Raggi. Dóttirin er undurfögur, nafnið fallegt og frábært fæðingarorlof framundan. Hlakka til að fylgjast með síðunni í haust.
    Kær kv.,
    Æsa

    ReplyDelete