Tuesday, 31 January 2012

Gómsæt grísapanna með blönduðu grænmeti og hrísgrjónum undirausturlenskum áhrifum


Hugmyndina að þessari uppskrift fékk ég frá kunningja mínum sem nýverið seldi gigtardeildinni sem ég starfa á tvö ómskoðunartæki. Hann kom í heimsókn og var að sýna mér tækin og stilla þau inn þegar umræður okkar bárust fljótt að því sem okkur var næst hjarta – mat! Hann var með margar góðar hugmyndir að hinum ýmsum réttum sem margar hverjar áttu það sameiginlegt að innihalda rjóma og talsvert af honum. Eftir að samtali okkar lauk að þessu sinni sat þessi réttur eftir í huga mér, nema að ég breytti honum ögn, minnkaði rjómamagnið verulega og bætti aðeins í grænmetisflóruna og notaði mun minna af kjöti en stungið hafði verið upp á!

Svo ætti maður að afsaka að kalla þetta “undir austurlenskum” áhrifum – þó að maður noti skvettu af soya sósu sem núna er bara orðið eins og hvert annað krydd í okkar skápum. Titillinn hljómaði bara betur með þessu svona snyrtilegt skeytt aftan á.

Gómsæt grísapanna með blönduðu grænmeti og hrísgrjónum undir austurlenskum áhrifum



Ég var mað fjölbreytt grænmeti.


Sneiddi niður þrjár papríkur, rauða, gula, appelsínugula (hefði verið með græna, en eiginkona mín kann ekki við græna papriku), hálfan kúrbít, einn rauðlauk, þrjá vorlauka, einn chilli pipar og þrjú hvítlauksrif ásamt nokkrum graslauksstráum.


Ég hafði keypt grísalund – ytri bitan, sem er aðeins fitumeiri en vengjulegt lund – munar engu stórkostlegu en kjötið verður meira fyrir vikið. Skar niður kjötið í 5 mm þykkar sneiðar, saltaði og pipraði, snöggsteikti síðan að utan og lagði til hliðar.



Næst var að steikja hvítlaukinn, chillipiparinn og laukinn í nokkrar mínútur þangað til að hann er glansandi – passa sig á því að leyfa honum ekki að taka lit. Því næst steikti ég papríkurnar, kúrbítinn og vorlaukinn þangað til mjúkt og ilmandi. Saltaði og pipraði. Setti síðan 2 tsk af hökkuðum graslauk saman við.



Bætti síðan kjötinu saman við, ásamt öllum vökva sem hafði runnið af. Síðan setti ég 200 ml af heitu kálfasoði, 150 ml af matreiðslurjóma og 4-5 msk af Kikkoman soya sósu. Hrærði varlega saman og leyfði suðunni að koma upp. Saltaði, pipraði og bætti síðan við 1 tsk af sykri svona rétt til að fá jafnvægi á sósuna.



Borið fram með hýðishrísgrjónum. Skreytt með graslauk.

Með matnum drukkuð við örlítið hvítvínstár. Að þessu sinni áttum við til í ísskápnum Lindemans Chardonnay hvítvínsbúkollu. Þetta er ljómandi hvítvín. Fallega gult á litinn, sítróna og epli í nefið. Sama á bragðið með smávegis smjörkeim eins og oft er af Chardonnay hvítvínum. Ljómandi sopi!

Mæli eindregið með þessum rétt – algert sælgæti!


Bon appetit!

Ps. Ef ykkur líkar lesturinn verið þá ófeimin að deila/like með því að styðja á hnappinn hér að neðan. mbk, Ragnar

4 comments:

  1. Þuríður Ingvarsd1 February 2012 at 15:22

    Þetta hljómar hrikalega vel. Er bara að hugsa um að prófa þetta við fyrsta tækifæri. En svona til að friða samviskuna ..... heldurðu að það væri ekki gott að nota kókosmjólk í staðin fyrir rjómann hún er fituminni ? ? Þá er þetta líka orðið meir austulenskt ;O)

    ReplyDelete
  2. Ragnar Freyr Ingvarsson1 February 2012 at 15:26

    Sæl Þuríður

    Kókósmjólk væri fyrirtak - hugsa ég að prófi svoleiðis næst!

    Takk fyrir að kíkja við!

    mbk, Ragnar

    ReplyDelete
  3. Hljómar vel, en hvað með kálfasoð, er ekki hægt að nota eitthvað í staðinn ?

    ReplyDelete
    Replies
    1. Svo sannarlega - kjúklinga, grænmetis og auðvitað grísasoð myndi ganga ljómandi vel!
      mbk, Ragnar

      Delete