Thursday, 24 November 2011

Frábær T-bone nautasteik með fullkomnum kartöflum og kaldripiparrótarsósu

Það er búið að vera heldur lágt risið á fjölskyldunni þessa vikuna. Það hefur magakveisa herjað á fjölskyldurnar hérna í nágrenninu upp á síðkastið og í þessari viku sló henni niður í Púkagranda 1. Sonurinn byrjaði aðfaranótt sunnudagsins og svo tók einn við af öðrum. Af hverju eru börn alltaf veik á nóttinni - hver skipuleggur þetta? Við áttum von á góðum gestum núna í vikunni en við stýrðum þeim á aðra braut svo að við myndum gera okkar besta við að hindra útbreiðslu pestarinnar. Sjáum hvernig gengur.

Annars var ég að renna í gegnum myndirnar sem ég hef tekið síðan snemma í haust og þar sá ég þessar ljósmyndir sem ég hafði gleymt. Myndirnar voru teknar seint í apríl og þá var grillið auðvitað ennþá í fullum gangi. Grilltímabilið skarast auðvitað við sumarmánuðina - en það er líka gaman að grilla á veturna og mér finnst það vera einkar töff þegar grillið er umlukið snjó, en af augljósum ástæðum nennir maður sjaldan að grilla á veturna. Þá er kannski bara ágætt að rifja upp gamla takta með því að blaða í gegnum gamlar ljósmyndir.

Þetta er einföld eldamennska. Ef maður vill setja hlutina upp á skala þá voru kartöflurnar flóknari en að grilla steikina - en kartöflurnar voru ekkert sérstaklega flóknar! Við fylgdum þeim reglum sem við settum upp í færslu fyrir nokkrum síðan - the perfect roast potato.

Frábær T-bone nautasteik með fullkomnum kartöflum og kaldri piparrótarsósu
Hér er stutt samantekt af fyrri færslu - við lékum eftir okkar eigin reglum, enda engin ástæða til að breyta þegar maður trúir því að maður hafi náð himneskum hæðum við gerð þessa meðlætis. Auðvitað má nota hvaða kartöflur sem er - en mjölkenndar kartöflur henta jafnvel betur en þær sem eru þéttari í sér.



Fyrst er að flysja kartöflurnar fyrir suðu. Þetta er mikilvægt skref. Það er til þess að ysta lagið á kartöflunni verði vel soðið og verði síðan auðvelt að ýfa upp að lokinni suðu. Síðan er best að sjóða þær í vel söltuðu vatni. Og einungis þarf að forsjóða kartöflurnar í 7 mínútur. Eftir suðuna er kartöflunum hellt í sigti og þeim síðan kastað til í sigtinu (á ensku tossed - sem er aðeins mildara orð heldur en að kasta). Þetta þarf að gera varlega þar sem maður vill ýfa upp yfirborðið á kartöflunum áður en þær fara í heita fituna en þó ekki svo að þær byrji að brotna í sundur! Ekki er vitlaust að sáldra smá hveiti yfir kartöflurnar og auka þannig möguleikann á að þær sogi upp í sig fituna þegar þær eru steiktar. Þvínæst er að setja ofnskúffu á hlóðirnar og hella þeirri fitu sem á að nota; matarolíu, jómfrúarolíu, grænmetisolíu, smjöri, hvítlauksolíu eða gæsafitu, hvað sem er bara þannig að fitan sé heit þegar kartöflurnar eru færðar yfir í skúffuna. Kartöflurnar eru síðan steiktar í fitunni í nokkrar mínútur. Næsta skref er að salta vel og pipra. Hérna gefst líka tækifæri að lauma að ýmsu kryddi að án þess að skaða réttinn. Rósmarín, timian og slíkar harðgerðar jurtir eru fullkomnar í þennan rétt. Lokaskrefið er fólgið í að setja ofnskúffuna í forhitaðan ofn, 180-200 gráður, og kartöflurnar steiktar þar til gullinbrúnar og fallegar.



Á meðan kartöflurnar ofnbakast er rétt að hita grillið. Ég á þetta prýðisgóða Weber Genesis grill sem er með sérsökum brennara fyrir steikur - searing station - sem gerir það að verkum að grillið verður algerlega funheitt.



Steikurnar keypti ég auðvitað hjá vini mínum hjá Holmgrens í Saluhallen. Eins og ég hef nefnt áður hef ég mikið dálæti á þessum slátrara - því hann getur alltaf sagt mér eitthvað um hráefnið sem hann er að selja. Hans hefur komið á búgarðana og veit hvernig komið hefur verið fram við dýrin. Og maður finnur það á bragðinu (og reyndar verðinu líka) að þetta er frábært hráefni sem hefur fengið rétta meðhöndlun. Áður en kjötið er sett á grillið þá pensla ég steikurnar með jómfrúarolíu og salta þær og pipra.



Sósan sem var gerð með matnum var eins einföld og hugsast getur. Ég notaði feitan creme fraiche - sem er í raun bara létt sýrður rjómi. Við hann blandaði ég 2-3 msk af rifinni ferskri piparrót, salti, pipar og síðan smávegis agavesíróp til að fá jafnvægi í sósuna. Það þurfti ekkert meira.



Með matnum drukkum við Peter Lehmann Cabernet Sauvignion sem er ástralskt rauðvín frá því árið 2008. Þetta vín er frá framleiðanda sem ég kann ákaflega vel við og hef örugglega drukkið nær öll vín frá honum. Þó man ég ekki hvenær ég nefndi þetta vín síðast í blogginu. Það er nokkuð oft á borðum hjá mér þar sem að ég keypti tvo kassa af þessu víni þegar ég var á ferðinni í gegnum Þýskaland snemma síðasta sumar. Þetta er ljómandi Cabernet vín. Það er þykkt og dökkt vín í glasi. Ilmurinn er kraftmikill og hefur sterkan keim af ávexti og eik. Bragðmikið vín - ávaxtaríkt, tannín og eik. Frábært vín með góðri steik.



Tími til að njóta

3 comments:

  1. Fullkominn diskur25 November 2011 at 22:08

    Með fullkomum kartöflum.

    Það held ég.

    ReplyDelete
  2. Sæll,
    Ég er ein af lesendum síðunnar þinnar og líka ein af þeim sem commentera aldrei eða þakka fyrir að hafa aðgang. Samt hef ég oft fengið margar góðar hugmyndir hjá þér. Betra að þakka seint en aldrei.

    Ég er með tvær spurningar. Kartöflurnar sem þú sýður, tossar steikir og svo inn í ofn, hvað hefur þú þær lengi inn í ofni eftir að þú ert búinn að steikja þær upp úr olíunni, svona sirka ? Var að spá í að hafa þær með kalkún á áramótum.
    Hin spurningin varðar kalkún. Ég sé að þú hefur prófað að setja hann í tveggja daga pækil. Ég hef oft velt þessu fyrir mér og langar að prófa þessi áramót. Er mikill munur á kjötinu og er það þess virði að standa í tveggja daga baði með hann áður?

    Enn og aftur þakka ég fyrir mjög skemmtilega umfjöllun þína um mat og matargerð.

    Karólína,

    ReplyDelete
  3. Ragnar Freyr Ingvarsson8 December 2011 at 07:47

    Sæl Karólína.

    Takk fyrir að kíkja á síðuna mína!

    Kartöflurnar eru hafðar í ofni í 45-60 mínútur þangað til að þær eru gullinbrúnar. Þá eru þær stökkar að utan en fluffý að innan.

    Varðandi kalkúnin - þá er þetta bæði spurning um aðferðafræði og síðan kaloríur. Kalkúnn í pækli er ekki sprautaður með 100 g af smjöri - en kannski skiptir það ekki svo miklu máli í heildina - maður notar nú ansi mikið af smjöri í jólamatinn!!!

    Bæði kalkúnabaðið og smjörkalkúnninn er alveg frábær og þú verður ekki svikin með hvoruga aðferðina. Kannski ættir þú að prófa eina aðferð í ár og svo hina næsta ár!

    jólakveðjur, Ragnar

    ReplyDelete