Friday, 25 September 2009

Gómsætt grískt Mousakka með heimagerðu hvítlauksbrauði, haloumi salatiog rauðvínsglasi.





Mousakka er svar Grikkja við lasagna Ítalanna - já eða lasagna svar Ítalanna við mousakka Grikkjanna - hvað veit ég. Þetta byggir að miklu leiti á sömu prinsippum nema hvað í mousakkanu eru lasagnaplöturnar ekki með í spilinum sem breytir áferð réttarins mikið og einnig hefur lambahakk í stað nautahakks/grísahakks mikil áhrif á lokaáferð réttarins. Í stað lasagnaplatanna þá kemur eggaldin í staðinn. Sumir segja að maður eigi að raða þessu upp í lögum eins og lasagna en ég held að maður hljóti nú að stýra því sjálfur. Fleiri uppskriftir en færri ráðlögðu að gera þetta á þann hátt sem ég sýni.

Hugmyndin að því að gera þennan rétt var fengin frá hinum stórkostlega Rick Stein, úr sjónvarpsþætti hans - Food heroes; another helping, þar sem hann ferðast um Bretlandseyjar og með innblæstri frá því sem hann finnur á ferðalögunum eldar hann bæði hefðbundinn breskan mat en einnig þekkta rétta út góðu bresku hráefni. Í einum þættinum ræðir hann við velskan sauðfjárbónda sem leggur til hráefni fyrir þennan ljúffenga rétt.

Mousakka er það sem á ensku myndi kallast "comfort food", þetta er eitthvað sem kemur til með að láta þér líða vel, með ívafi af samviskubiti, en með glasi af rauðvíni gleymist samviskubitið snarlega og vellíðanin tekur yfirhöndina.

 

Réttur sem þessi myndi kannski fallast undir það sem kallast slowfood. Fyrir þá sem eru áhugasamir um eldamennsku á borð við þetta þá eru til samtök sem tileinka sér þessu hugtaki, sjá hér. Ég get sagt fyrir mína parta að ég er orðin alveg heillaður af þessu og hef nú undir það síðasta verið að sanka að mér bókum og græjum til þess að geta tæklað þetta "head on". Alltént tók þessi réttur rúman einn og hálfan tíma í undirbúningi. Það var ekkert verra - maður gat gruflað í matreiðslubókum á meðan, með rauðvínsglas í annarri og sleif í hinni. Frábært.

Það er annars mikið um að vera í eldhúsinu þessa daganna. Ég hef nefnt í síðustu færslum að ég hef verið að meðal annars verið að búa til eigið beikon. Það heppnaðist stórvel. Núna er allt á fullu, ég er að vinna að nýjum skammti af beikoni, ítölsku beikoni - pancetta

Gómsætt grískt Mousakka með haloumi salati og rauðvínsglasi. 




Fyrst var að undirbúa hráefnin í réttinn - er það ekki alltaf það fyrsta sem maður gerir? Ég byrjaði að undirbúa kjötsósuna. Hún var í raun afar einföld. Fyrst steikti ég einn stóran smátt skorinn hvítan lauk, nokkur hvítlaukrif - einnig smátt skorinn, saltað og piprað og svo steikt þangað til að þetta er mjúkt og gljáandi. Þá var um það bil 0,7 kílói af lambahakki bætt á pönnuna og steikt, saltað að nýju og piprað. Glas af hvítvíni bætt saman við og soðið upp. Þá bætti ég einni kanilstöng og handfylli af ferskri bergmyntu út í og blandaði vel saman, handfylli af steinselju og nokkur blöð af basil. Því næst 1 dós af niðursoðnum tómötum. Hrært vel saman og leyft að krauma í rúman hálftíma.

 

Ég gerði í raun hefðbundna hvíta Bechamél sósu - sem er ein af móður sósunum sem ég hef oft bloggað um. 60 grömm af smjöri er brætt í potti og þegar það er bráðið er 60 grömmum af hveiti bætt saman við og hrært. Því næst er 0.7 L af mjólk bætt saman við í þrepum - kannski þriðjung í senn og mikilvægt er að þeyta vel, bæði þannig að sósan brenni ekki og einnig til að hveitið nái að eldast. Síðan er einni og hálfri handfylli af rifnum parmaosti, síðan tveimur eggjum sem hafa verið þeytt saman - tilgangurinn með þessu er að fá efsta lagið til að hlaupa og brúnast og gera þennan fallega gljáa sem maður sér á öllum myndum.

Hvað eggaldinin varðar þá voru þau steikt á undan. Olíu er hellt í pönnu og þegar olían er orðin heit þá eggaldinu sett útí og steikt. Eggaldinið sogar í sig mikið af olíu. Sumir segja að maður veit að eggaldinið er tilbúið þegar það gefur frá sér olíuna á nýjan leik - þannig að svipað magn af vökva sé í pönnunni fyrir og eftir.

Þá er ekkert annað eftir en að raða réttinum saman.



Ég var búinn að raða 2 lögum af steiktu eggaldin í botninn áður en ég hellti kjötsósunni yfir.



Hella bechamél sósunni varlega yfir svo að kjötsósan fljóti ekki ofan á eins og sést á myndinni. Bakað í ofni þangað til að bechamél sósan er farinn að taka á sig fallegan gullinn lit og hluti af henni farinn að brúnast eins og sést á myndinni.

  

Bar einnig fram heimagert hvítlauksbrauð - gerði baguette eins og oft
áður - penslaði með hvítlauksolíu og bakaði stutta stund í ofni þar til
það var farið að verða gullið og fallegt á litinn. Með matnum vorum við með haloumi salat sem ég hef gert nokkrum sinnum síðan í sumar - alveg frábært. Fyrst raðaði ég grænum laufum á disk, þá smávegis að niðursneiddum tómötum, þá grillaður kúrbítur og að síðustu grillaður haloumi ostur. Piprað og síðan er smá jómfrúarolíu dreitlað yfir. Það þarf í raun ekki að salta þetta salat þar sem haloumi er vel saltur ostur.

Með matnum drukkum þetta prýðisgóða Syrah frá Ernest og Julio Gallo - Coastal Vineyards frá því 2001. Þetta var bragðmikið vín - alls ekkert hvasst á tungu. Skildi sig aðeins frá frændum sínum í Ástralíu - Shiraz sem eru oft meiri munnfyllir. Þetta var með mildum dökkum ávexti. Ég fann bragð af plómum - en það verður að hafa í huga að ég var búinn að vera búinn að borða þó nokkuð af þeim daganna á undan, eins og fyrri færslur gefa tilkynna. Dálítið kryddað sem passaði matnum vel. Gott vín.



Tími til að njóta!

4 comments:

  1. Fæst haloumi ostur einhvers staðar á Íslandi?

    ReplyDelete
  2. Sæl Valborg
    Afsakaðu að ég var ekki búinn að svara þér.
    Ég man ekki eftir því að hafa borðað haloumi á Íslandi.
    Gæti best trúað því að sérverslanir eigi svona til.
    Mbk, Ragnar

    ReplyDelete
  3. This comment has been removed by the author.

    ReplyDelete
  4. Jú, fæst í Bónus, Krónunni og Hagkaup

    ReplyDelete