Eins og svo oft áður - á milli vakta - þetta fer að verða ansi þreytt klisja - en sönn. Vaknaði ansi brattur eftir vaktina og fór á stúfana. Ég er á fullu að undirbúa matarveislu fyrir föstudaginn. Þá verður öllu tjaldað til. Það er efni í aðra færslu, en undirbúningurinn þurfti að hefjast nokkrum dögum fyrr, búa til soð, hræra í ís, grafa gæsabringu og útbúa vinagrettu - allt sem þarf nokkra daga til að taka sig.
Soðið sem ég er að útbúa er humarsoð - og aukaverkun af slíkum gjörning eru humarhalarnir innan úr skeljunum. Það varð því eitthvað að gera sniðugt úr þessu og úr varð að skella því á flatböku. Margir hverjir myndu segja að þarna væri alger sóun á góðu hráefni en ég get fullyrt að svo var ekki. Afraksturinn varð alveg meiriháttar og ég held jafnvel að þetta hafi verið ein besta flatbaka sem ég hef gert. Ljúffeng.
Vinkona dóttur minnar var í heimsókn frá Danmörku og fengu vinkonurnar að gista saman. Þrátt fyrir ungan aldur þá eru þær bestu vinkonur. Það er einkennilegt hvernig sumt fólk smellur saman. Þær voru afar sáttar við að fá pitsu í matinn en þeirra pitsa var einfaldari en sú sem ég er aðallega að blogga um.
Ég hef nokkrum sinnum áður sett inn pizzuuppskrift þannig að deigið er bara svona "copy/paste" úr eldri færslu - mér verður vonandi fyrirgefið slík hegðan.
Mögnuð flatbaka með humri, þistilhjörtum, rauðlauk og hvítlauk
Útí 250 ml af ylvolgu vatni er sett 2 tsk þurrger og 30 g af sykur eða hunangi . Blanda saman vatninu, gerinu og sykri (eða hunangi) saman og leyfi gerinu að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur svona 10-15 mín. 500-700 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olían blandað saman við. Mikilvægt er að leyfa gerinu að vakna vel og rækilega og ekki setja saltið þarna úti - þar sem saltið hamlar aðeins gerjunarferlinu. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hræra deigið vel - þannig hefast það mikið betur og bragðast líka betur. Ég vil að deigið dúi vel undan fingri og þegar áferðin er þannig að deigið jafnar sig hratt þegar maður ýtir fingri í það breiði ég viskastykki yfir skálina og leyfi að hefast - eins lengi og maður hefur tíma. Deigið er nóg í tvær pizzur.
Ég notaði eins og svo oft áður Hunt roasted garlic tomatosauce - nennti ekki að gera mína eigin sósu - þó að það sé auðvelt. Þessi er bara svo ansi ljúffeng. Sósunni er dreift jafnt yfir pitsunna og svo er álegginu dreift yfir.
Á fullorðinspitsuna var settur humar - sennilega einir 20 litlir humarhalar, þistilhjörtu sem hafði verið geymd í olíu, rauðlauk í skífum, smáttskornum hvítlauk. Osti var svo sáldrað yfir og nokkrum klípum af rjómaosti. Saltað og piprað.
Fyrir krakkana setti ég skinku, sveppi, stórar ólívur, ostinum sáldrað yfir og svo var niðurskornu beikoni dreift yfir. Þetta var svo bakað í 15-20 mínútur við 180 gráður í forhituðum ofni.
Bon appetit.
No comments:
Post a Comment